fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Kynning

Uppbyggilegt ferðalag frá Jobsbók til Bob Dylans

Kynning
Jóhanna María Einarsdóttir
Mánudaginn 4. febrúar 2019 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fræðslufebrúar í Vídalínskirkju leiðir saman trú og tónlist. Öll þriðjudagskvöld í febrúar verður fjallað um rit eða þema úr Biblíunni og hvernig það hefur fengið framhaldslíf í tónlistinni. Margir góðir fyrirlesarar og tónlistarfólk munu koma saman til að gera mánuðinn sem áhugaverðastan. Það er von þeirra sem standa að baki dagskránni að gestir finni eitthvað við sitt hæfi.

Dagskráin stendur frá 19:30 – 21:15. Tveir fyrirlestrar eru á hverju kvöldi og tónlistarflutningur.

 

Bob og Job

Þriðjudagskvöldið 5. febrúar verður fjallað um Jobsbók og hvernig Bob Dylan nýtti sér hana til að takast á við erfiðleika í lífinu. Sigfinnur Þorleifsson, fyrrverandi sjúkrahúsprestur og stundakennari við Háskóla Íslands í sálgæslu, fjallar um hvernig Jobsbók tekst á við spurninguna um þjáninguna. Af hverju þarf hinn réttláti Job að þjást? Hvernig tekst hann á við missinn og sorgina í eigin lífi? Hvernig reynast vinirnir honum í þessari baráttu? Jobsbók tilheyrir spekiritum Gamla testmentisins. Þau rit takast oft á við erfiðar spurningar á áhugaverðan hátt.

 

Áhrifamikill texti

Jobsbók skýtur oft upp kollinum í menningarsögunni. Í tónlist má t.d. nefna að þekkt aría við textann Ég veit að lausnari minn lifir (I know that my redeemer liveth) úr Messías eftir Handel byggir á texta úr Jobsbók. Sú merka óratoría verður rædd á fræðslukvöldi 12. febrúar. Job hafði áhrif á Réttarhöld Kafka og Karamazovbræður Dostojevskís. Carl Jung skrifaði um Job. Sören Kierkegaard ávarpaði Job í Endurtekningunni. Kvikmynd Coenbræðra A Serious Man virðist einnig taka mið af Jobsbók. Lér konungur er skyldur Job. Það væri hægt að halda lengi áfram að fjalla um áhrifin sem Jobsbók hefur haft í gegnum aldirnar.

Seinni fyrirlesturinn fjallar um hvernig Bob Dylan nýtir sér Jobsbók til að takast á við nýtt hlutskipti í lífinu. Hvernig er að finna aldurinn færast yfir og finna kraftana þverra? Er betra að finna svar við eigin þjáningu þegar hægt er að finna fyrirmynd í Jobsbók?

Henning Emil Magnússon, prestur í Vídalínskirkju, mun fræða áheyrendur um þessa glímu nóbelsverðlaunahafans. Henning skrifaði mastersritgerð um Bob Dylan við guðfræðideild Háskóla Íslands. Sú ritgerð fjallaði um trúarþroska Bob Dylans á ólíkum skeiðum ferils hans.

 

Fjölbreyttur listamaður

Bob Dylan hóf að gefa út tónlist árið 1962 og er enn að. Eftir hann liggja fjöldamargar eftirminnilegar plötur. Auk þess að semja og flytja tónlist teiknar hann og málar. Hann hefur einnig mótað skúlptúra. Hann hefur sent frá sér ljóðabókina Tarantula og endurminningabókina Chronicles. Hann hlaut nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2016.

Vídalínskirkja
Þjáður listamaður

Fagrir tónar

Fríða Dís Guðmundsdóttir söngkona og Smári Guðmundsson gítarleikari munu flytja tvö lög af plötu Dylans Time out of Mind. Platan sem kom út árið 1997 varð upphafið að endurnýjun Dylans sem listamanns. Á plötunni er að finna lög sem hafa orðið hluti af tónleikadagskrá hans hin seinni ár. Fríða Dís og Smári munu flytja lögin Not Dark Yet og Tryin‘ to get to Heaven. Þau hafa lengi sinnt fjölbreyttri tónlistarsköpun. Þau hafa starfað saman í Klassart. Fríða Dís hefur einnig verið í Trilogiu. Smári hefur samið tónlist undir nafninu Gudmundsson.

Vídalínskirkja
Fríða Dís Guðmundsdóttir.

Blúsað kvöld þar sem fengist verður við sorgina og þjáninguna

Á heildina má því segja að þetta verði blúsað kvöld þar sem fengist verður við sorgina og þjáninguna. En ekki þarf þó að búast við því að kvöldið sjálft og dagskráin verði þung eða til þess að valda fólki hugarangri. Vonir standa til þess að þetta verði uppbyggilegt ferðalag. Plötu Dylans lýkur á laginu Highlands þar sem hann sér fram á bjartari tíma. Job er einnig vel settur í sögulok.

Þetta fyrsta fræðslukvöldið fer fram í safnaðarheimilinu í Vídalínskirkju. Fræðslufebrúar er liður í fullorðinsfræðslu kirkjunnar. Gengið er inn að norðanverðu. Við hvetjum ykkur til að mæta tímanlega.

Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
14.05.2024

Vodafone gerir tímamótasamning um internettengingar í bíla

Vodafone gerir tímamótasamning um internettengingar í bíla
Kynning
09.05.2024

UAK 10 ára – Ráðstefna á laugardaginn

UAK 10 ára – Ráðstefna á laugardaginn
Kynning
27.03.2024

Dreymir þig um lúxussiglingu um fallegustu eyjur Króatíu? – Gerðu drauminn að veruleika 

Dreymir þig um lúxussiglingu um fallegustu eyjur Króatíu? – Gerðu drauminn að veruleika 
Kynning
27.03.2024

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“
Kynning
28.12.2023

Gefa bretti af flugeldum að verðmæti 243.500kr

Gefa bretti af flugeldum að verðmæti 243.500kr
KynningMatur
22.12.2023

Skúbblerone er nýr hátíðarís hjá Skúbb

Skúbblerone er nýr hátíðarís hjá Skúbb
Kynning
06.11.2023

Æfinga eða keppnisferð íþróttafélaga í útlöndum

Æfinga eða keppnisferð íþróttafélaga í útlöndum
Kynning
29.10.2023

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“