fbpx
Sunnudagur 12.janúar 2025
Fréttir

Jón Baldvin rýfur þögnina – „Sjálf­ur ber ég þunga sök“

Ritstjórn DV
Laugardaginn 19. janúar 2019 08:18

Aldís Schram og Jón Baldvin Hannibalsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, segir að þær sögur um meinta kynferðislega áreitni hans sem birst hafa í fjölmiðlum að undanförnum eigi það sameiginlegt að vera ýmist „hreinn uppspuni eða þvílík skrumskæling á veruleikanum, að sannleikurinn er óþekkjanlegur“.

Þetta segir Jón Baldvin í yfirlýsingu sem hann hefur sent fjölmiðlum í ljósi umfjöllunar um hann síðustu daga. Jón Baldvin hefur hingað til ekki tjáð sig um þessar ásakanir en gerir það í yfirlýsingu sem hann hefur sent frá sér.

Fyrst var getið um kynferðislega áreitni Jóns Baldvins í fréttum fyrir nokkrum árum er í ljós kom að hann hafði skrifað mjög vafasöm bréf til kornungrar frænku sinnar. Í yfirlýsingu sinni segir hann að umræddar bréfaskriftir hafi verið með öllu óviðeigandi og ámælisverð, hann hafi beðist oftsinnis afsökunar og leitað eftir fyrirgefningu án árangurs. Hann segir hins vegar að seinni tíma ásakanir um áreitni við hana á barnsaldri séu tilhæfulausar.

Varðandi ásakanir elstu dóttur sinnar, Aldísar Schram, megi rekja til þeirrar ákvörðunar hans að hafa orðið við ákalli geðlækna um nauðungarvistun. Í kjölfarið hafi „vinarþel og ástúð dóttur til föður“ að lokum snúist í „hatur, sem engu eirir“ eins og það er orðað. Aldís hefur meðal annars sakað föður sinn um kynferðisofbeldi. Í yfirlýsingunni segir Jón Baldvin að hann muni hvorki lögsækja „veika“ dóttur sína né frændsystur Bryndísar Schram, eiginkonu sinnar, sem eiga hlut að máli. „Fremur kjósum við að láta þetta yfir okkur ganga; og bera harm okkar í hljóði að sinni.“

Yfirlýsinguna má lesa í heild hér að neðan:

Án dóms og laga

Yf­ir­lýs­ing að gefnu til­efni.

Að und­an­förnu hef­ur mátt lesa í hefðbundn­um fjöl­miðlum og á sam­fé­lags­miðlum sög­ur nafn­greindra kvenna um víta­verða hegðun und­ir­ritaðs gagn­vart kvenþjóðinni, jafn­vel hálfa öld aft­ur í tím­ann.

Þess­ar sög­ur eiga það meðal ann­ars sam­eig­in­legt að vera ým­ist hreinn upp­spuni eða því­lík skrum­skæl­ing á veru­leik­an­um, að sann­leik­ur­inn er óþekkj­an­leg­ur. Sann­leik­ur­inn er því nú þegar fyrsta fórn­ar­lambið í þessu leik­riti. Það bíður síns tíma að leiðrétta það, m.a. af eft­ir­far­andi ástæðum:

Megin­á­stæðan er sú, að sögu­ber­ar eru ým­ist í nán­um fjöl­skyldu­tengsl­um við okk­ur Bryn­dísi eða nán­ir vin­ir elstu dótt­ur okk­ar. Við Bryn­dís erum sam­mála um, að fjöl­skyldu­böl af þessu tagi – því að það er það – verði ekki út­kljáð í rétt­ar­sal, né held­ur til lykta leitt í fjöl­miðlum. Við stefn­um dótt­ur okk­ar ekki fyr­ir dóm – lái okk­ur hver sem vill.

En hver er þá okk­ar ábyrgð á fjöl­skyldu­böl­inu, sem mér er svo tíðrætt um? Ætlum við að skella allri skuld af ógæfu fjöl­skyld­unn­ar á aðra? Er þetta virki­lega allt öðrum að kenna? Því fer fjarri. Sjálf­ur ber ég þunga sök af því að hafa valdið langvar­andi ósætti inn­an fjöl­skyldu Bryn­dís­ar. Bréfa­skipti mín við Guðrúnu Harðardótt­ur, syst­ur­dótt­ur Bryn­dís­ar, þegar hún var 17 ára, voru hvort tveggja með öllu óviðeig­andi og ámæl­is­verð. Á því hef ég beðist marg­fald­lega af­sök­un­ar, bæði Guðrúnu sjálfa og fjöl­skyldu henn­ar, sem og op­in­ber­lega. Ég hef leitað eft­ir fyr­ir­gefn­ingu, en án ár­ang­urs. Á þessu máli ber ég einn ábyrgð – og eng­inn ann­ar.

Seinni tíma ásak­an­ir um áreitni við Guðrúnu á barns­aldri eru hins veg­ar til­hæfu­laus­ar með öllu. Það mál var rann­sakað í tvígang af lög­reglu og sak­sókn­ara, m.a. með yf­ir­heyrsl­um og vitna­leiðslum, og vísað frá í bæði skipt­in, enda varð vitn­um við komið. Öll gögn, sem máli skipta, liggja fyr­ir og eru öll­um aðgengi­leg, m.a. á heimasíðu minni (www.jbh.is)

Hvers vegna er elstu dótt­ur okk­ar svo mjög í nöp við for­eldra sína, eins og raun ber vitni? Hversu marg­ar eru þær fjöl­skyld­ur í okk­ar litla sam­fé­lagi, sem eiga um sárt að binda vegna geðrænna vanda­mála ein­hvers í fjöl­skyld­unni? Hversu al­gengt er það ekki, að reiði og hat­ur, sem af hlýst, bein­ist fyrst og fremst að nán­ustu aðstand­end­um? Þetta er kjarni máls­ins. Eft­ir að hafa oft­ar en einu sinni orðið við ákalli geðlækna um nauðung­ar­vist­un elstu dótt­ur okk­ar á geðdeild, sner­ist vin­arþel og ástúð dótt­ur til föður að lok­um í hat­ur, sem engu eir­ir, eins og frá­sagn­ir henn­ar bera vott um. Nauðung­ar­vist­un er síðasta neyðarúr­ræði geðlækn­is. Á þess­um tíma þurfti að lög­um heim­ild ná­ins aðstand­anda til að beita þessu neyðarúr­ræði. Dótt­ir okk­ar treysti mér ein­um til þess og lét bóka það. Þeir sem halda því fram, að ein­hver svo­kallaður „valdamaður“ geti sigað lög­reglu á varn­ar­lausa ein­stak­linga að geðþótta, vita ekki hvað þeir eru að tala um. Sem bet­ur fer hef­ur þess­ari kvöð nú verið létt af aðstand­end­um.

All­ar til­raun­ir til sátta, einnig með milli­göngu sálusorg­ara og sér­fræðinga, hafa eng­an ár­ang­ur borið. Þetta er nógu sár lífs­reynsla fyr­ir alla, sem hlut eiga að máli, þótt ekki bæt­ist við, að fjöl­miðlar vilji velta sér upp úr ógæfu annarra með því að lepja upp ein­hliða og óstaðfest­an óhróður, að óat­huguðu máli. Það er satt að segja hreinn níðings­skap­ur að færa sér í nyt fjöl­skyldu­harm­leik eins og þann, sem við höf­um mátt búa við í ára­tugi, til þess að ræna fólk mann­orðinu, í skjóli þess að vörn­um verði vart við komið. Það verður hvorki rétt­lætt með sann­leiks­ást né rétt­lætis­kennd. Það er ekki rann­sókn­ar­blaðamennska. Það er sorp-blaðamennska.

Hvað er þá til ráða til að hnekkja ósönn­um og ærumeiðandi aðdrótt­un­um í fjöl­miðlum? Varðar það ekki við lög að bera ósann­ar sak­ir á aðra? Hingað til hef­ur það tal­ist vera svo. Og til þess eru dóm­stól­ar í rétt­ar­ríki að leiða sann­leik­ann í ljós – út­kljá mál­in. En eins og áður sagði, mun­um við Bryn­dís hvorki lög­sækja veika dótt­ur okk­ar né þær frænd­syst­ur Bryn­dís­ar, sem hlut eiga að máli. Frem­ur kjós­um við að láta þetta yfir okk­ur ganga; og bera harm okk­ar í hljóði að sinni.

Ég vil líka taka það fram, að ómerki­leg­an póli­tísk­an skæt­ing, hvort held­ur hann er fram­reidd­ur af for­manni Sam­bands sjálf­stæðis­k­venna eða af fyrr­ver­andi for­manni Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, virðum við ekki svars. Það hef­ur ekki þótt vera nein­um til vegs­auka með okk­ar þjóð hingað til að sparka í liggj­andi fólk. Og að því er varðar mína póli­tísku arf­leifð uni ég því vel að vera að lok­um dæmd­ur af verk­um mín­um.

Fyrst í stað fannst mér, að ég gæti með engu móti setið þegj­andi und­ir öll­um þess­um ásök­un­um, ásamt per­són­uníðinu, sem flæðir yfir alla bakka á svo­kölluðum sam­fé­lags­miðlum. Við nán­ari íhug­un er niðurstaðan samt sú, að í þessu eitraða and­rúms­lofti, þar sem ósann­ar full­yrðing­ar og níð hafa fengið að grass­era at­huga­semda­laust dög­um sam­an, sé það til lít­ils ann­ars en að skemmta skratt­an­um. Ekki vegna þess að þögn sé sama og samþykki; held­ur vegna hins, að mál­flutn­ing­ur sem bygg­ist á staðreynd­um, mun eng­in áhrif hafa á óvild­ar­menn mína. Við treyst­um því hins veg­ar, að það fólk, sem þekk­ir okk­ur Bryn­dísi per­sónu­lega af eig­in reynslu, sjái í gegn­um moldviðrið.

Að öllu þessu virtu, er það niðurstaða okk­ar Bryn­dís­ar, að sál­ar­heill okk­ar um­setnu fjöl­skyldu eigi að hafa for­gang, um­fram rétt­ar­höld í kast­ljósi fjöl­miðla, að svo stöddu. Heild­stæð grein­ar­gerð, þar sem öll­um fram­komn­um sak­argift­um verði gerð verðug skil, verður því að bíða betri tíma.

Því er ekki að neita, að mál af þessu tagi vekja ýms­ar áleitn­ar spurn­ing­ar, sem eru ekki á sviði einka­mála, held­ur varða al­manna­heill. Get­um við ekki leng­ur treyst því, að hver maður telj­ist sak­laus, uns hann hef­ur verið sek­ur fund­inn fyr­ir dómi? Skal hann samt telj­ast sek­ur sam­kvæmt dóm­stóli fjöl­miðla, þótt sýknaður hafi verið af rétt­um yf­ir­völd­um að rann­sókn lok­inni? Þetta er sjálf­ur til­vist­ar­vandi okk­ar brot­hætta rétt­ar­rík­is. Á því ber­um við öll ábyrgð.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sigurjón dæmdur í átta ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn þroskaskertri konu og syni hennar

Sigurjón dæmdur í átta ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn þroskaskertri konu og syni hennar
Fréttir
Í gær

Þéttingaráform í miðborginni samþykkt þrátt fyrir áhyggjur íbúa

Þéttingaráform í miðborginni samþykkt þrátt fyrir áhyggjur íbúa
Fréttir
Í gær

Efling segir SVEIT ætla að njósna um starfsfólk veitingahúsa og hefur kært félagið til Persónuverndar

Efling segir SVEIT ætla að njósna um starfsfólk veitingahúsa og hefur kært félagið til Persónuverndar
Fréttir
Í gær

Fíkniefnaneysla meginorsök banaslyssins í Lækjargötu

Fíkniefnaneysla meginorsök banaslyssins í Lækjargötu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vill ákæra forstöðumenn fyrir framúrkeyrslu

Vill ákæra forstöðumenn fyrir framúrkeyrslu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hafnfirðingar hrifnir af hrossataði

Hafnfirðingar hrifnir af hrossataði