Sindri Þór Stefánsson var í dag dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi í Bitcoin-málinu svokallaða. Málið snýst um tölvur sem var stolið úr þremur gagnaverum í desember 2017 og janúar 2018, en tölvurnar eiga að grafa eftir rafmyntinni Bitcoin. Tölvurnar hafa aldrei fundist.
Sjö voru ákærðir í málinu, þar var Sindri sagður höfuðpaur. Matthías Jón Karlsson var dæmdur tveggja og hálfs árs fangelsi. Hafþór Logi Hlynsson hlaut tuttugu mánaða dóm. Pétur Stanislav Karlsson og Viktor Ingi Jónasson hlutu átján mánaða fangelsisdóm. Ívar Gylfason var dæmdur í fimmtán mánaða skilorðsbundið fangelsi og Kjartan Sveinarsson í sex mánaða fangelsi. Advania voru dæmdar 33 milljónir króna í miskabætur.
Sindri varð frægur hér á landi eftir að hann strauk úr gæsluvarðhaldi og flaug með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra til Svíþjóðar síðasta vor. Sindri var síðar handtekinn í Amsterdam.