Í hádeginu kom til snarpra orðaskipta á milli milli Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, og Árna Vals Sólonssonar, eiganda City Park Hotel í Ármúla í Reykjavík, en Sólveig fullyrðir að Árni hafi bannað starfsfólki að kjósa um boðun verkfalls. Vísir birtir myndband af þessu sem vakið hefur athygli.
Árni Valur á að baki nokkuð svarta sögu hvað varðar aðstæður starfsfólks, í það minnsta samkvæmt frétt mbl.is sem birtist í október. Þar kemur fram að hann hafi ekki sótt um byggingarleyfi vegna framkvæmda við stækkun hótelsins í Ármúla og að vinnustaðurinn hafi beinlínis verið hættulegur starfsmönnum.
Í fyrrnefndri frétt var vitnað í skýrslu Vinnueftirlitsins og sagt að ástand rafmagnsmála á verkstað væri mjög hættulegt. „Rafmagnssnúrur séu hangandi niður úr loftum og ótryggir rafmagnskaplar milli hæða og í rafmagnstöflu. Þá séu óvarin op í gólfi, fallvarnir ekki til staðar og starfsmenn hvorki í öryggisskóm né með hjálma við vinnu. Í skýrslunni kemur einnig fram að byggingarleyfi sé ekki til staðar og að merki séu um að starfsmenn sofi og hafist við á vinnustaðnum,“ segir í frétt mbl.is
Í frétt Vísis um atvikið fyrr í dag kemur fram að Árni Valur hafi sett sig á móti því að starfsmenn hans greiddu atkvæði klukkan 12, því þá væru þeir ekki í fríi. Sólveig kom að hótelinu þá, ásamt öðrum úr verkalýðsfélaginu, til að bjóða starfsmönnum að greiða atkvæði í sérstökum bíl. „Eigandinn tók á móti okkur og sendi okkur skýr skilaboð um að við værum ekki velkomin,“ sagði Sólveig Anna.
https://www.facebook.com/efling.is/videos/2317768428493065