Viðar Guðjohnsen, frambjóðandi í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, hringdi fyrr í dag í Bítið á Bylgjunni. Honum var mikið niðri fyrir og sagði hann illa farið með jeppakarla í Reykjavík. Viðar er fyrir löngu orðinn frægur fyrir skoðanir sínar en hann hefur í gegnum tíðina fordæmt ungt fólk, feita, útlendinga, róna, konur, jafnaðarmenn og Kára Stefánsson, svo nokkuð sé nefnt.
Í símatíma í Bítinu í morgun var fyrst og fremst talað um veggjöld og þóttu þau umdeild. Svo hringdi Viðar. „Mér finnst ekkert gert fyrir okkur á stóru pickup-unum. Við borgum miklu meiri hærri bifreiðargjöld, þrisvar sinnum meira! Og við erum að borga miklu meira í okkar bíla, þeir eyða helmingi meira en aðrir bílar. Þannig að við erum skattlagðir og pyntaðir. Við fáum ekki forgangsakgreinar hérna í Reykjavík til dæmis. Þetta er alveg ótrúleg meðferð á stórbílaeigendum, þeim vilja vera svolítið góðir í snjónum,“ sagði Viðar.
Gunnlaugur Helgason, annar þáttastjórnenda, spurði á móti hvort það væri ekki gert til þess að hvetja jeppakarla til að minnka um sig. Viðar svaraði því að bragði og skellti svo á:
„Jú, það er verið að kvelja okkur. Hver heldurðu að vilji vera á litlum bíl? Kemst ekki neitt og þeir eru bara fyrir. Ég hef séð það út um allt.“