fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Lestu allar sögurnar af Jóni Baldvini – 23 sögur á einum stað: „Setti í framhaldinu fingur upp í leggöng mín“

Hjálmar Friðriksson
Mánudaginn 4. febrúar 2019 09:46

Jón Baldvin Hannibalsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á bloggsíðunni metoo-jonbaldvin.blog.is hafa 23 nafnlausar sögur af Jóni Baldvini Hannibalssyni, fyrrverandi ráðherra, verið teknar saman. Þær má lesa hér fyrir neðan. Jón Baldvin var í viðtali í Silfrinu á RÚV í gær þar sem hann svaraði fyrir ásakanir um kynferðislega áreitni og sifjaspell sem á hann hafa verið bornar í fjölmiðlum.

Nú hafa sögurnar allar verið teknar saman og birtar opinberlega. Þær má lesa allar hér fyrir neðan. Í yfirlýsingu segir meðal annars:  „Við viljum beina sjónum að gerandanum Jóni Baldvini Hannibalssyni fyrrverandi kennara, skólameistara, ritstjóra, þingmanni, formanni Alþýðuflokksins, ráðherra og sendiherra sem hefur með misbeitingu valds og með því að misnota traust brotið á fjölda kvenna og barna í áranna rás. Nöfn okkar skipta ekki máli heldur hann sem gerandi. Umræðan á að snúast um hann, brot hans og afleiðingar þeirra. Það er kominn tími til að Jón Baldvin taki afleiðingum gerða sinna.“

Hér má lesa sögurnar allar en þær eru í tímaröð

1962

Háskólastúdentinn Jón Baldvin

Mágkona

Þetta skeði um sumar og ég var að vinna í sumarfríinu sem flugfreyja hjá Flugfélagi Íslands en stundaði annars nám í MR. Ég átti að vera farþegi heim eitt sinn frá Kaupmannahöfn með millilendingu í Glasgow. Mér fannst upplagt að heimsækja systur mína Bryndísi, Jón mann hennar og Aldísi dóttur þeirra (sem þar dvaldi yfir sumarmánuðinn), en þau hjónin bjuggu í Edinborg þegar þetta var. Ég hafði samband við Bryndísi og ekkert var því til fyrirstöðu að ég stoppaði við hjá þeim. Þegar ég kem á leiðarenda er Bryndís ekki heima. Hún hafði þurft að skreppa eitthvað, að sögn Jóns, og var ekki væntaleg heim fyrr en eftir að ég væri farin. Ég man vel hvað mér brá. Hún hefði getað látið mig vita. Ég var jú að koma til að hitta hana aðallega. En alla vega við Jón fórum í gönguferð um borgina með barnið. Jón er hress náungi og gaman að vera með honum. Ekki man ég gjörla hvað við gerðum annað en að ganga um í sumarblíðunni að skoða borgina og leita að stað til að borða á. Þetta var einhver sérstök heilög helgi og allt lokað en við römbuðum þó loks á indverskan stað þar sem við fengum að borða.

Mig minnir að ég hafi sofið á bedda eða dívan á miðju gólfi í stofunni. Alla vega var þetta eitthvert rúmstæði sem hægt var að komast fram úr báðu megin. Ekki veit ég hversu lengi ég hafði sofið en ég vakna við að það er eitthvað við hliðina á mér undir sænginni. Eitthvað kalt og ókunnugt. Mér bregður alveg óskaplega mikið. Fyllist einhverjum viðbjóði og ræðst á skrímslið, trúlega öskrandi. Þetta var mágur minn allsnakinn við hlið mér. Þvílík upplifun! Trúlega eins og að fá fulla fötu af ánamöðkum yfir sig. Ég lamdi og sparkaði svo hann lufsaðist af beddanum. Ég man bara hvað mér fannst þetta ógeðsleg tilfinning að finna svona nakinn líkama upp að mér. Hvort ég sagðist ætla að drepa hann eða hvað, man ég ekki gjörla en ég spurði hvort hann væri ekki með öllum mjalla og það giftur systur minni. Hann svaraði: „Það skiptir engu.“ Þá fékk ég eiginlega annað áfall. Ekki urðu nein átök, hann bara hvarf út.

Enn þann dag í dag fyllist ég viðbjóði af tilhugsuninni um þetta atvik. Maður var nú svo grænn á þessum tíma að maður var nú ekki að klaga í einhvern. Ég veit svo sem ekki hvern ég hefði getað klagað þetta í. Ég hugsaði til Bryndísar hvað hún ætti bágt að vera gift honum Jóni. Ég vorkenndi henni og þagði því. Nokkru seinna ræðst hún að mér og segir að ég hafi sofið hjá Jóni. Ég neita en þessari ásökun hélt hún fram í mörg ár. Ég neitaði alltaf en sagði ekki meir því ég vildi ekki særa hana með því að segja henni að ég hefði engan áhuga á þessum manni hennar. Ekki mín týpa og allt það, og þar að auki með skegg í andlitinu. Svona kurteis og tillitssöm var ég. En alltaf fór þetta fyrir brjóstið á mér að verða að sitja undir þessum ásökunum hennar. Svo var það eitt sinn að Bryndís var í heimsókn hjá mér með foreldrum okkar og kannski fleira fólki, en Jón ekki (hann mætti yfirleitt ekki í fjölskylduboð), að ég notaði tækifærið og sagði að ég væri mjög þreytt á að verða fyrir síendurteknum ásökunum um að hafa sofið hjá Jóni. Þetta væri ekki rétt. Ég hefði aldrei sofið hjá honum. Enn var ég kurteis og sagði ekki hvað mér þætti Jón óáhugaverður. Gæti ekki einu sinni hugsað mér að kyssa hann. Svo óaðlaðandi fannst mér hann, þó skemmtilegur væri á köflum. En það sem truflar mig einnig er af hverju hélt hún þessu fram? Hvernig gat henni dottið það í hug? Sagði hann henni það? Og þá til þess að enginn tryði mér ef ég skyldi nú segja sannleikann? Eða vissi hún hvern karakter hann hefur að geyma? Veit hún hversu siðlaus og ófyrirleitinn hann er? Eða er þetta bara sjálfsagt mál? Að Jón níðist á hverjum sem er? Verst af öllu er þó að vera talinn gerandinn. Alveg ótrúlegt!

1964 – 1999

Faðirinn Jón Baldvin

Elsta dóttir

Mín fyrsta minning af Jóni Baldvini Hannibalssyni og Bryndísi Schram – sem ég, nauðbeygð, flutti til frá Björgvini afa og Aldísi ömmu fimm ára gömul (þar sem móðir mín yfirgaf landið eftir fæðingu mína þess valdandi að amma, sjö barna móðirin – eftir að hin amman gafst upp á að hafa mig, sat uppi með mig) er svona:

Um miðja nótt, á Miklubraut 68, líkast til fimm ára gömul, vaknaði ég í rúmi foreldranna – þar sem ég átti ekkert rúm, við háværa tónlist og drykkjulæti inni í stofu. Ég, sem svaf nakin – að fyrirskipan móðurinnar, klæddi mig og gekk inn í stofu þar sem ég sá hana, hálfnakta, dansa upp á borði við mikinn fögnuð föðurins og hinna karlanna og sagði: „Ég er lítið barn sem þarf að sofa. Viljið þið vera svo góð að hætta að hafa svona hátt?“ Jón Baldvin Hannibalsson gekk þá til mín, settist á hækjur sér gegnt mér, horfði í augu mér, kveikti á vindli, sogaði inn reyknum og púaði framan í mig (móður minni til kátínu). Og þá hugsaði ég með mér: „Voðalega á ég ljótan pabba (en hitt vissi ég að hin svokallaða mamma mín væri vond).“

Það var svo ekki fyrr en aðfararnótt föstudagsins langa, þann 29. apríl árið 2002, úti í Washington, þá ég vaknaði (sem oftar) um miðja nótt (nánar tiltekið klukkan þrjú) við það að Jón Baldvin Hannibalsson sat uppi rúmi hjá mér, að það rifjaðist upp fyrir mér að hann hafði þarna á Miklubrautinni (þar sem ég bjó þegar ég var fimm til sex ára) gefið mér verklega kennslu í sjálfsfróun. Sem ég síðar hugðist kenna yngstu móðursystur minni (sem er árinu eldri en ég), þá ég sagði við hana eitt kvöldið þar sem við lágum uppi í rúmi heima hjá afa og ömmu á Sörlaskjóli 1 (sem ég flúði til um helgar): „Anna Helga, pabbi er búinn að kenna mér svolítið sniðugt. Á ég að kenna þér?“

Minningar um þetta skutu jú stundum upp kollinum þegar ég var barn (það man ég nú), en ég bægði þeim alltaf jafnharðan frá, líkast til vegna þess að þær voru of óbærilegar.  Í sálusorgunartíma hjá Sigríði Hrönn Sigurðardóttur, hjúkrunar- og guðfræðingi (líkast til árið 2013, rifjaðist upp önnur minning: Jón Baldvin Hannibalsson stendur í dyragættinni, flaggandi kynfærum sínum framan í mig, þá ég (fimm ára) lá nakin uppi í rúmi mínu, hjónarúminu þeirra – en það grunar mig að ég lumi á fleiri þess lags minningum sem ég treysti mér ekki enn til að rifja upp.

Æskuminningar mínar eru allar í þoku og móðu, en þetta man ég:
Ég man hvað ég lét mig dreyma um að prinsinn (Arnar Jónsson, mótleikari móður minnar) í leikritinu Mjallhvíti og dvergunum sjö, væri faðir minn! Og það man ég líka að ég neitaði að kalla Bryndísi Schram mömmu og Jón Baldvin Hannibalsson pabba. Ég man að ég neitaði að ganga við hlið þeirra úti á götu (af því ég skammaðist mín fyrir þau). Ég man að það þurfti að pína mig til að borða. Ég man að ég vaknaði við Jón Baldvin Hannibalsson uppi í rúmi hjá mér sem tók þá upp á því að trúa mér fyrir leyndarmálum sínum (þ.m.t. þeim að móðir mín væri vitlaus og veikgeðja en ég svo fögur og greind). Ég man ég vildi aldrei fara í einu fötin sem Bryndís Schram keypti á mig (afi og amma keyptu öll hin). Ég man að í veislum heima hjá afa og ömmu í Sörlaskjólinu fletti ég upp kjól mínum til að geta sýnt gestunum að ég væri í fimm nærbuxum.

Ég man ég vildi ekki fara í skólann (Ísaksskóla), það þurfti víst að toga mig á hárinu í hann (skrifar móðirin í ævisögu sinni – sem og það, ef ég man rétt, að hún skildi mig oft eftir eina heima, fjögra ára gamla, þegar hún þurfti að fara á leikæfingu (Margrét Schram, systir hennar, getur staðfest það). Ég man að langamma, sem skamma stund bjó hjá okkur á Miklubrautinni, sagði grátandi að hún ætti eflaust að kæra þau hjónin til barnaverndarnefndar (sem Bryndís staðfestir í ævisögu sinni). Ég man að ég gegndi hvorki Bryndísi né Jóni Baldvini (bara afa og ömmu og langömmu (sem ég elskaði út af lífinu og dó þegar ég var fimm eða sex ára).

Ég man að sjö ára, þá búandi hjá foreldrunum á Vesturgötu 38 (gegn mínum vilja), stökk ég þrefalda hæð mína út um gluggann á herberginu mínu og gekk beint af augum upp að Hallgrímskirkju þar sem ég settist á bekk, svöng og blaut, og sat þar lengi vel þar til þýsk kona togaði upp úr mér hvar ég ætti heima og mér til mikillar óhamingju teymdi mig heim í fang móðurinnar (sem auðvitað hafði ekki tekið eftir að ég væri ekki á heimilinu þó kominn væri háttatími). Sem ég hafði þá meira að segja haft fyrir því að skrifa erfðaskrá þar sem fram var tekið að allar mínar eigur (fjólubláa rýjateppið sem afi Björgvin hafði gefið mér, rúmið, dúkkurnar og sparibaukurinn (sem móðirin rændi eilíflega peningum úr), ættu, eftir minn dag, að renna til „Brynjólfs,“ bróður míns (sem ég neitaði að kalla Glúm)!

Það var svo ekki fyrr en ég varð 12 ára sem ég losnaði úr prísund foreldranna, þá
ég neitaði að fara með þeim til Ísafjarðar og fékk það í gegn að fá búið heima hjá Björgvini afa og Aldísi ömmu. En það stóð ekki lengi. 13 ára var ég skikkuð aftur til að búa í húsakynnum foreldranna, í það sinnið á Ísafirði, er JBH gerðist skólameistari þar. Þau hjónin vantaði þá víst barnapíu fyrir börnin hin þrjú. Þar tórði ég í þrjú ár með því að vera aldrei heima. Gerðist heimalingur hjá móður vinkonu minnar – sem ólíkt minni, eldaði mat, talaði við mann og sýndi mér áhuga og, það sem mér fannst mest um vert, virðingu. Man ég lítið frá þessum tíma nema helst það að einn sunnudag þegar ég (sem þá bjó í herbergi inni á heimavist MÍ) þurfti að sækja píanóbækur inni í stofu heima hjá þeim hjónum (sem bjuggu í sömu húsakynnum) sá ég Jón Baldvin Hannibalsson sitjandi fullan eða þunnan í stól og heyrði hann umla: „Þín vegna ætti ég að ganga í sjóinn.“

15 ára fékk ég svo því framgengt að fá að flytja aftur í skjólið afa og ömmu. Það má því segja að þau hjónin hafi aldrei kynnst mér, ekki frekar en ég þeim, á þessum níu árum samtals sem ég, nauðbeygð, varð að tóra hjá. Ég talaði aldrei við þau (ekki frekar en þau við mig), stundum dögum saman. Gegndi aldrei og ybbaði bara gogg, aðallega við Jón Baldvin. Og eitt sinn við Bryndísi. Þá gaf hún mér kinnhest. Og ég síðan henni.

1967

Kennarinn Jón Baldvin

14 ára nemandi í Hagaskóla

Ég var nýfermd og hafði lent í manni um sumarið. Ég var mjög brotin eftir það. Ég hafði engan stuðning og var mjög ein, missti pabba minn þegar ég var níu ára. Ég held að Jón Baldvin hafi spottað mig út þannig þegar hann byrjaði að kenna mér. Hann fór að segja mér að ég lærði ekki nógu vel heima, sem er mjög líklega alveg rétt, og vildi að ég sæti eftir. Það var ekki í sömu kennslustofu heldur í herbergi hinum megin á ganginum. Þar fór hann með mig inn og læsti. Þar var einn stóll og borð og hann gekk svona fram og til baka og lét mig skrifa. Hann var alltaf að beygja sig yfir mig til þess að vita hvernig ég skrifaði. Um leið og hann beygði sig yfir mig fann ég að hann var að strjúka mér. Og hann gerðist alltaf nærgöngulli.

Ég fór að kvíða fyrir tímunum hjá honum þar sem hann lét mig alltaf sitja eftir eina. Ég fór að reyna að læra betur heima en það breytti engu. Hann sagðist bara þurfa að láta mig læra þetta betur. Ég bara skynjaði það að það væri eitthvað fram undan sem mundi gerast. Svo fór hann að færa sig upp á skaftið. Hann hélt áfram að strjúka mér og fór að troða sér aftan á stólinn hjá mér. Þetta var svona gamall skólastóll með algjörlega beinu baki og beinu sæti. Honum tókst að troða sér fyrir aftan mig, á milli mín og stólbaksins. Ég sat alveg á nippinu á stólnum. Hann var mjög grannur á þessum árum og ég líka og þetta tókst honum að gera. Hann byrjaði að káfa á mér allri og sleikti á mér hálsinn og eyrað og kinnina. Ég var algjörlega frosin. Ég gat ekki staðið upp. Ég gat ekki sagt neitt. Ég bara sat. Ég man eftir hvað ég skammaðist mín fyrir hvað væri að gerast.

Ég sagði vinkonu minni að það væri eitthvað hræðilegt að fara að gerast og ég vissi ekki hvort ég gæti lifað lengur. Hún var svona rosa ákveðin og sagði: „Þú átt aldrei að sitja eftir hjá Jóni Baldvini. Aldrei framar. Ég tala bara við alla krakkana í bekknum.“ Hún gekk á milli þeirra af því að við áttum von á Jóni Baldvini í næsta tíma og sagði krökkunum að standa upp með mér. Það ríkti mikill spenningur í bekknum þegar Jón Baldvin kom í kennslustofuna. Eftir tímann var hann að þurrka af töflunni og sneri baki í bekkinn og sagði: „Matthildur, þú situr eftir.“ Þá stóðu stúlkurnar þrjár upp úr sætum sínum og einn strákur. Vinkona mín sagði hátt og skýrt: „Hún situr ekki eftir hjá þér, Jón Baldvin, aldrei aftur.“ Hann stoppaði með svampinn á lofti, sneri sér hálfur við og sagði: „Nú, já. Allt í lagi.“ Hann talaði ekki við mig eftir þetta. Hún bjargaði mér!

Ég reyndi að segja mömmu þetta en ég held að hún hafi ekki getað höndlað þetta. Árum saman þagði ég yfir þessu því ég skammaðist mín svo mikið. Það er þessi ægilega skömm sem kemur í fórnarlambið sem er alþekkt. Á þessum tíma var bara ekki talað um svona. Ég hef glímt við mikið heilsuleysi á fullorðingsárum, tvisvar fengið krabbamein og oft verið niðurbrotin. Það var ekki auðvelt að gleyma þessum manni. Hann var sífellt í fjölmiðlum að minna á sig. Að horfa á hann ná svona langt í stjórnmálum, vitandi hvers konar maður þetta er. Ég missti trú á samfélaginu. Að þetta væri svona rotið.

En undanfarin ár hef ég getað sagt frá þessu í þröngum hópi kvenna þar sem er talað um svona mál. Þá hef ég sprengt sprengjuna og það hefur hjálpað mér. Mér finnst gott að tala um þetta núna. Ég skammast mín minna og minna.

1967

Kennarinn Jón Baldvin

Annar 14 ára nemandi í Hagaskóla

Ég bjó ein með pabba mínum eftir að foreldrar mínir skildu. Þegar ég var 11 og 12 ára var ég í sveit hjá systur minni og mági og var mágur minn stöðugt að áreita mig. Hann notaði hvert tækifæri sem hann gat þegar við vorum ein til þess að káfa á mér og reyna jafnvel að komast lengra. Ég var því vel meðvituð um að karlmenn geta gert börnum mein þegar þessi saga gerðist. Ég var í sama bekk og stúlkan sem Jón Baldvin lét alltaf sitja eftir þangað til við krakkarnir stóðuðm upp og mótmæltum því. Eftir það óttaðist ég að verða sú næsta sem hann tæki fyrir. Hann var alltaf mjög hortugur og leiðinlegur við krakkana. Nema svo stuttu eftir að við mótmæltum honum var hann alltaf að grúfa sig yfir mig í tímum, eins og hann væri að skoða hvað ég væri að gera og strauk á mér axlirnar í leiðinni. Hann lagði höfuðið við kinnina á mér á meðan hann strauk mér og mér fannst það hræðilega óþægilegt. Svo kom að því að hann sagði mér að sitja eftir en ég  sagði nei. Ég vildi ekki lenda í því sama og vinkona mín.

Eftir það lét hann mig í friði en þetta var alveg nóg til þess að ég varð mjög kvíðin og hrædd. Ég fékk martraðir og kvíðaköst yfir því að þurfa að mæta í skólann. Þetta varð svo til þess að ég ákvað að hætta í skóla, eins og ég hafði alltaf gaman af skólanum. Ég gat þetta bara ekki lengur. Að skyldunámi loknu fór ég að vinna í fiski og kom mér aldrei í skóla aftur þó mig hafi alltaf dreymt um að fara í Iðnskólann að læra hárgreiðslu. Ég hef fengið viðbjóð, algjöran viðbjóð, yfir því að þessi maður hafi komist svona langt þrátt fyrir þau brot sem hann framdi.

1973 – 1975

Skólameistarinn Jón Baldvin

18 ára nemandi í Menntaskólanum á Ísafirði

Ég var 18 ára þegar ég var kosin formaður nemendafélags Menntaskólans á Ísafirði haustið 1973. Ég þurfti því oft að tala máli félagsins við skólameistarann sem var næstum helmingi eldri. Jón Baldvin notaði hvert tækifæri til að skjalla mig og stríða á góðlátlegan hátt en fór svo að sýna mér annars konar áhuga. Hann átti við mig langar, háfleygar samræður á skrifstofu sinni sem létu mig halda að ég stæði honum jafnfætis. Þannig náði hann valdi yfir mér. Fór svo að lauma til mín bréfmiðum með tvíræðum skilaboðum og boðaði mig á skrifstofu sína, oft án tilefnis. Síðan steig hann skrefi lengra, faðmaði mig og kyssti og setti í framhaldinu fingur upp í leggöng mín. Þá brotnaði eitthvað inni í mér sem varð til þess að hann náði enn meira valdi yfir mér.

Undir þessu valdi áttum við leynifundi þar sem hann lét mig halda að hann ætti líf sitt undir því að fá að hitta mig. Á einum slíkum fundi spurði hann hvort ég vildi giftast sér og ala upp börnin sín fjögur því hann ætlaði að skilja við konuna sína. Í annað skipti, eftir að hann hafði hlaupið út af bæjarstjórnarfundi þegar hann sá mig fara niður í skóla, gaf hann mér bókina Lolita áritaða með orðunum: „With total surrender“. Ég var oft niðri í skóla eftir að kennslu lauk því fjölbreytt starf nemenda fór þar fram. Eitt sinn að loknum fundi eða söngæfingu ætluðum við nokkrar vinkonur að fara saman í bíó og vorum á leið þangað þegar hann kom út úr skrifstofu sinni og kippti mér inn. Ég heyrði í stelpunum kalla á mig en hann hélt mér fastri þangað til ljóst var að þær voru farnar. Þá lagði hann mig í sófann á skrifstofunni og lék sér að mér. Hann hló þegar ég lýsti yfir áhyggjum af því að nú vissu þær hvað væri að gerast.

Á þessum tíma kenndi Bryndís mér oft marga tíma á dag og ég leit mjög upp til hennar. Hún hafði leikstýrt skólaleikritunum og ég tekið þátt í þeim öllum, kenndi okkur jazzballett og var byrjuð að æfa leikrit vetrarins. Nokkru áður hafði hún sagt mér að ég væri uppáhalds nemandinn sinn og beðið mig að vera vinkonu sína því hún ætti engar vinkonur.

Þegar við héldum fyrstu menningarhátíð nemenda komu margir listamenn að sunnan. Skólameistarahjónin héldu boð heima fyrir gestina þar sem áfengi var veitt af rausn. Þarna fann ég í fyrsta skipti verulega á mér og þegar hann sá það hló hann og hellti meiru í glasið. Daginn eftir sagðist hann hafa haft unun af því að sjá hvað gestirnir hefðu hrifist af mér.

Þegar kom að árshátíð skólans skömmu seinna var álagið af því að bera þetta leyndarmál ein orðið mér um megn. Ég gat ekki skemmt mér með skólafélögunum, ég var ekki með sjálfri mér og bað Bryndísi um hjálp. Hann sá okkur tala saman og fór að grínast, spurði hvort hann mætti ekki dansa við okkur báðar. Þá var mér allri lokið og fór niðurbrotin heim. Daginn eftir hringdi hún og spurði hvort ekki væri allt í lagi. Hún sagði að þau hefðu talað lengi saman og nú væri allt orðið gott aftur hjá þeim. Næsta skóladag laumar hann frumortu ljóði til mín þar sem segir að hann sé snúinn aftur til hennar og geti ekki lengur leikið sér. „Þú varst of ung og óeirin, það var þín dauðasynd,“ stóð þar.

Ég óttaðist að krakkarnir hefðu tekið eftir því sem gerðist á árshátíðinni en enginn sagði neitt. Ég hélt því áfram að reyna að láta á engu bera en var dofin og oft ekki með sjálfri mér. Þau héldu áfram að kenna mér og ég varð að sitja í tímum án þess að þau, eða skólafélagarnir sæju hvernig mér leið. Um vorið varð ég að ná tali af þeim hvoru um sig. Ég talaði fyrst við hana. En þegar hún komst að því að ég hefði líka talað einslega við hann réðst hún á mig á kosningakaffi í Alþýðuhúsinu, leiðandi tvær yngri dætur sínar, og vændi mig um svik. Það var óhuggulegt að sjá hatrið í augum hennar og titrandi varir. Hann hélt hins vegar áfram að glotta og gefa frá sér tvíræð skilaboð.

Ég flúði burt úr bænum eftir árás Bryndísar því ég gat ekki hugsað mér að sjá þau. Þegar skóli hófst um haustið vonaðist ég til að vera orðin laus undan valdi þeirra. En svo var ekki. Í lok nóvember var ég í boði í heimahúsi ásamt strák sem ég var með. Skólameistarinn var þar einn, því konan hans var í útlöndum, og ég fann að hann þoldi ekki að ég væri með þessum strák. Hann fór heim en hringdi skömmu seinna og bað um að fá að tala við mig. Hann hvíslaði í símann hvað hann væri einmana, ég yrði að koma. Ég yrði að koma. Eftir ástarleik sagði hann hlæjandi: „Nú hef ég getið þér þríbura.“ Strákurinn sem ég yfirgaf um nóttina var svo reiður að morguninn eftir fór hann heim til Jóns og gaf honum kjaftshögg.

Orð hans um þungun ollu mér ótta, ég fór að finna fyrir alvarlegum svefntruflunum og deyfði mig með áfengi. Jón var upptekinn af sínum frama, fór m.a. suður sem varaþingmaður enda vissu allir að þangað stefndi hugur hans. Það sem bjargaði lífi mínu þennan vetur var öflugt leiklistarstarf með öðrum leikstjóra og leikfélagi bæjarins. Jón og Bryndís héldu áfram að ríkja yfir samfélaginu eins og kóngur og drottning og nutu þess að baða sig í hvors annars ljóma og þeirri aðdáun sem margir sýndu þeim.

Nokkrum árum seinna var ég stödd í heimabænum og fór á ball þar sem hann var og aftur einn, því konan hans var í útlöndum. Hann bauð mér í dans og talaði við mig á sama gamla mátann. Reyndi jafnvel að tengja sig við þá velgengni sem mér hafði hlotnast eftir að ég útskrifaðist úr skólanum. Eftir ballið var hann samferða mér nokkurn spöl en þegar ég sagði bless, gat hann ekki trúað að ég vildi ekki fara með honum heim. Hann þrábað mig og ég þurfti að beita afli til að losna við hann. Loksins fann ég að hann hafði ekki lengur vald yfir mér.

Enn nokkrum árum seinna var ég á Ísafirði og hitti eldri mann sem sagði við mig: „Við vitum öll að hann Jón Baldvin eyðilagði þig.“ Mér fannst þetta köld kveðja enda samfélagið hart sem ég ólst upp í. Vissulega tók það mig langan tíma að verða heil eftir það ofbeldi sem ég var beitt. Nú finnst mér að þessi saga þurfi að koma fram þótt hún sé orðin 45 ára gömul. Við erum að létta af okkur óþolandi þögn margra alda. Þögnin var rofin með alheimshreyfingunni Me too. Með þeim krafti verður feðraveldiskarlmennskunni hent út í hafsauga.

1975

Varaþingmaðurinn Jón Baldvin

14 ára æskuvinkona elstu dóttur

Veturinn 1974 – 1975, þegar ég var 14 ára gömul, dvaldi ég í Reykjavík hjá systur minni til að létta undir með henni en hún var þá einstæð móðir með dreng á fjórða ári. Hún vann á nóttunni og sótti nám á kvöldin. Það kom því í minn hlut að sjá um drenginn á meðan og koma honum í leikskóla á morgnana áður en ég fór í Hagaskóla. Á efstu hæð hússins í sama stigagangi bjuggu hjón með tvö börn sem við vinguðumst við. Ég passaði börnin þeirra stundum um helgar. Hjónin voru vinsæl og oft með partý.

Eina nóttina bar svo við að ég vakna upp við það að Jón Baldvin Hannibalsson situr á rúmstokknum hjá mér blindfullur, fálmandi í sængina mína. Ég man ekki hvort ég æpti upp en í sömu andrá vaknar systir mín en við sváfum í sama herbergi, kveikir ljósið, rekur karlinn út og læsir. Við vorum auðvitað mjög sjokkeraðar og skildum ekki hvernig hann hafði komist inn í húsið.

Daginn eftir hringir hann og biður um að fá að koma í heimsókn sem systir mín samþykkir. Ég man ennþá hvað ég var móðguð og reið út í hann fyrir að haga sér svona, verandi pabbi þáverandi vinkonu minnar. Karlinn mætti, settist inn í stofu og byrjaði að afsaka sig, sagðist hafa verið að flytja Jómfrúarræðu sína á Alþingi og farið að fagna því, hitt svo hjónin á efstu hæð sem buðu honum í partý. Þar heyrði hann af því að við byggjum í sama stigagangi svo hann ákvað að heilsa upp á okkur.

Aldrei slíku vant vildi þannig til að við höfðum gleymt að læsa íbúðinni þessa nótt. Karlinn gat því vaðið beint inn! Hvorki ég né systir mín upplifðum þetta öðruvísi en fyllírisrugl og meðtókum hans afsökunarbeiðni sem slíka. Í ljósi þess sem nú er komið fram get ég ekki annað en þakkað forsjóninni að hafa ekki verið ein með litla drenginn þessa nótt og því „sloppið með skrekkinn“.

1976

Skólameistarinn Jón Baldvin

19 ára nemandi í Menntaskólanum á Ísafirði

„Hleyptu mér út, hleyptu mér út,“ hrópaði ég í örvæntingu. Hugurinn hvarflar vestur á Ísafjörð fyrir rúmum 43 árum. Ég er læst inni á skrifstofu skólameistara og hangi á hurðarhúninum. Hann hafði átt við mig erindi og boðaði mig á skrifstofuna eftir skóla. Ég bar óttablandna virðingu fyrir skólameistaranum og ekki hvarflaði að mér annað en að mæta. Þegar skólameistarinn ætlaði að fara að láta vel að mér fylltist ég skelfingu. Hann varð líka hræddur og hleypti mér út. Eftir þetta jókst ótti minn en virðingin hvarf. Þetta rifjast upp núna þegar skólasystir mín segir hræðilega sögu sína frá þessum árum. Skólameistarinn hefði líka getað eyðilagt líf mitt eins og hann hefur augljóslega gert við margar konur.

Önnur minning rifjast líka upp þegar við vinkonurnar hittumst í skólanum.  Allt í einu var ein okkar horfin. Við hlupum um gangana, kölluðum og kíktum inn í kennslustofur en allt kom fyrir ekki. Ein var horfin eins og jörðin hefði gleypt hana. Þó voru stígvélin hennar í anddyri skólans. Mér finnst hræðilegt að hugsa til baka þegar ég hef fengið að vita hvað fór fram bak við luktar dyr á skrifstofu skólameistarans á þeirri stundu. Mér finnst líka hræðilegt að vinkona okkar skuli hafa þurft að þjást í mörg ár vegna misnotkunar skólameistarans og að hann skuli hafa komist upp með að eitra líf hennar.

Fyrir örfáum árum hitti ég skólameistarahjónin á jólaföstunni í miðbæ Reykjavíkur. Það var skuggsýnt og sambýlismaður minn var með mér. Hjónin voru hátt uppi eins og þau eru ævinlega. Við tókum tal saman og ég kynnti þau fyrir sambýlismanninum. Hann furðaði sig á því hversu fljótt ég lauk samtalinu við þessi skemmtilegu, frægu og valdamiklu hjón og kvaddi skyndilega. En ég svaraði að bragði: „Helvítis perrinn hann var farinn að strjúka á mér rassinn.“

1979

Skólameistarinn Jón Baldvin

Útskriftarnemi í Menntaskólanum á Ísafirði

Ég var nemandi í Menntaskólanum á Ísafirði 1975-1979. Þetta gerðist þegar bekkurinn minn var að dimittera vorið 1979. Ég hafði væntingar um skemmtilegan dag, fjögurra ára nám var að baki, upplestrarfrí framundan og eftirvænting um alveg nýja framtíð. Dagurinn hófst eins og hefðin bauð, hver bekkur hittist snemma morguns hjá sínum umsjónarkennara þar sem boðið var upp á morgunmat. Síðan var farið í skólann og kennsla trufluð í tímum hjá yngri bekkingum. Í hádeginu var borðaður þriggja rétta hádegisverður á heimavistinni og svo var haldið í sjóferð á litlum fiskibát til Súðavíkur. Í Súðavík var okkur boðið upp á kaffihlaðborð á bryggjunni en bæði sveitarstjóri og kona hans voru fyrrverandi nemendur í MÍ.

Á siglingunni frá Ísafirði til Súðavíkur bar mikið á því að skólameistari og flestir kennarar voru orðnir vel við skál. Skólameistari hékk í reiðanum og þrumaði ræður yfir okkur verðandi stúdentum. Það voru tveir sjómenn um borð í bátnum og þeir voru orðnir verulega áhyggjufullir yfir þessu háttalagi skólameistara. Ef hann félli fyrir borð væru þeir í slæmum málum tryggingalega séð þar sem það voru of margar manneskjur um borð í þessum litla fiskibát. Það vakti undrun mína að skólameistari og fleiri kennarar voru orðnir haugadrukknir svona rétt eftir hádegið. Víndrykkja nemenda var annars bönnuð á öllum skólaskemmtunum, þó var leyfilegt fyrir útskriftarstúdenta að drekka þennan dag. Ég man þó ekki eftir að nemendur væru drukknir um borð í bátnum. Það var ekki meiningin að dimisson ætti að snúast um fyllierí kennara. Þetta átti að vera dagur verðandi stúdenta sem voru að kveðja skólann. Á bryggjunni í Súðavík klifraði skólameistari oftar en einu sinni upp á dúkað veisluborðið og stóð innan um kökur og trakteringar því hann hafði ægilega þörf fyrir að þruma ræður yfir nemendum. Ræðurnar voru mest bull en margar voru um pólitík. Dagurinn fór að verða svolítið dapurlegur fyrir nemendur þegar þarna var komið við sögu.

Frá Súðavík var siglt til Bolungarvíkur. Þar var búið að opna sundlaugina sérstaklega fyrir okkur svo við gætum farið í bað og skipt um föt fyrir veisluna sem átti að hefjast um kvöldið heima hjá foreldrum eins af bekkjarfélögunum. Skólameistari var ekki eins mikið að tala yfir hausamótunum á okkur og þegar við sigldum til Súðavíkur. Aftur á móti var hann byrjaður að sigta nokkrar af okkur út, reyna að fá mig og fleiri á eintal við sig og káfa á okkur. Ég forðaðist fljótt að vera ein með honum.
Þegar ég og skólasystur mínar vorum nýkomnar út í laugina í Bolungarvík stökk JBH allsnakinn út í laugina. Mér dauðbrá, allir vissu að sund væri á prógramminu og fólk hafði sundföt með sér. Þessi nakti maður kom syndandi í áttina til okkar og við vorum allar í sjokki að ég held, allavega ég. Þessu var bjargað af einum af þeim kennurum sem ekki var haugafullur. Hann stökk upp úr lauginni, fór í föt og bauð JBH sundskýluna sína. Hann fékk skólameistara þannig upp úr lauginni og inn í búningsklefann. Við stelpurnar gátum andað aðeins léttar. Þetta atvik fannst mér fyndið þá því þessi kennari var pínulítill miðað við JBH og ég hugsaði hvort það væri mögulegt fyrir skólameistara að komast í þessa sundskýlu. Það leið ekki á löngu áður en skólameistari, í pínulítilli sundskýlu, hoppaði út í laugina aftur með radarinn beint á stelpurnar. Hann byrjaði að strjúka á mér brjóstin og lendarnar sem var afar óþægilegt svo ég stökk upp úr sundlauginni og fór í heita pottinn. Þá byrjaði hann að elta aðrar stelpur sem endaði með að við flúðum upp úr sundlauginni hver af annarri og fórum í heita pottinn. Þaðan sá ég að skólameistari uppgötvaði að allt kvenkyns var í heita pottinum. Hann kom því fljúgandi þangað en við stukkum allar upp úr heita pottinum um leið. Ég fór beint í búningsherbergið og klæddi mig í veislufötin fyrir kvöldið. Ég var í sjokki yfir kynferðislegri hegðun skólameistara og hugsaði með mér: Hvað kemur til að þessi karl haldi að hann sé guðsgjöf fyrir allar konur? Hann var á aldur við pabba minn og ungar stúlkur hafa ekki áhuga á gömlum körlum.

Á eftir gengum við frá sundlauginni í hópum að húsi því sem veislan átti að fara fram. JBH hékk í mér á leiðinni frá sundlauginni, leitaði kynferðislega á mig og fór með blautlegar vísur (gamlar klámvísur) sem mér fannst óþægilegt og fráhrindandi. Þessi kynferðislega áreitni stoppaði ekki og JBH hélt áfram kynferðislegu áreiti við mig í veislunni líka. Þáverandi kærasti minn kom í veisluna um kvöldið og varð vitni að hegðun JBH við mig. Hann varð mjög reiður, ég man ekki lengur nákvæmlega hvað hann sagði við Jón en minn dagur var eyðilagður og þetta var allt saman mjög óþægilegt. Það voru fleiri stelpur í bekknum mínum sem lentu í kynferðislegri áreitni af hendi JBH þennan dag. Ég veit allavega um eina aðra. Það þarf að stoppa svona perverta sem halda að þeir séu guðsgjöf fyrir ungar stelpur.

Skólameistarinn Jón Baldvin

Annar útskriftarnemi úr Menntaskólanum á Ísafirði

Eftir að hafa horft á Silfrið í dag finn ég mig knúna til að skrifa um mína upplifun af áreitni JBH.

Ég var í umræddri  sundlaugarferð í Bolungarvík í dimmisjónferð MÍ vorið 1979. Í lauginni gerði JBH tilraun til að draga bikiníbuxurnar niður um mig og káfa og urðu fleiri skólasystur mínar einnig fyrir svipuðu. Ég man að ég lamdi til hans og æpti og forðaði mér í burtu og upp úr lauginni. Þetta var mjög óþægilegt og skyggði á annars skemmtilegan dag. Ég tók enga skömm á mig, – man bara að ég hugsaði hvaða fífl hann væri og hvaða hugmyndir hann hefði um sjálfan sig.

Ég hef sagt ótal mörgum þessa sögu í gegnum árin og hefur fólk undrað sig á þessari hegðun hans sem var í alla staði óviðeigandi. Vil ítreka að ég þekki Aldísi dóttur JBH ekkert og þessi saga er ekki sögð að hennar beiðni!

1979

Skólameistarinn Jón Baldvin

17 ára starfskona í blómabúð

Ég var 17 ára og vann á garðyrkjustöð við að selja garðplöntur. Þetta atvik átti sér stað um helgi.
JBH og BS voru mér kunnug því þau voru samtímis foreldrum mínum í menntaskóla. Verslunin var opin 9 – 16 og ekki liðið langt á daginn þegar þau komu og ég var til taks til að afgreiða.

Mér er afar minnisstætt að JBH angaði af áfengislykt. Þau voru glaðhlakkaleg og JBH hafði orðið. Hann sagðist vera að leita að plöntu sem væri svona á stærð við brjóstið á mér – með þeim orðum teiknaði hann hring með vísifingrum utanum vinstra brjóstið á mér. Hann snerti mig afar ákveðið, glotti og hló og BS tók undir í sama streng en hún stóð við hliðina á honum. Hló að þessum aðförum. Ég er fremur brjóstastór. Ég man bara að ég var svo steinhissa að ég kom ekki upp orði.

Ég sagði foreldrum mínum aldrei frá þessu. Þetta voru fræg og vinsæl hjón og ég hálfskammaðist mín fyrir atvikið. Bauð ég upp á svona framkomu? Nei – það gerði ég ekki !!

1980

Ritstjórinn Jón Baldvin

Ung kona á skemmtistað

Mynd eitt:

Fyrir um það bil 40 árum síðan. Ég var á fyrsta ári í háskólanámi, var utan af landi og leigði íbúð með félögum. Ég hafði aldrei áður hitt JBH en vissi svo sem deili á honum, eins og hálf þjóðin, vissi t.d. að hann hefði verið skólameistari við MÍ. Á þessum tíma var hann ritstjóri Alþýðublaðsins.

Já, ég var að skemmta mér um kvöldið ásamt skólafélögum og jafningjum á Hótel Borg og var á heimleið. Skyndilega birtist maður í hópnum og tekur utan um mig. Enginn aðdragandi, ekkert samtal. Allt í einu sat hann í bíl með mér á leið heim til mín. Því miður voru leigufélagar mínir ekki heima.

Maðurinn talar og talar og segir frægðarsögur af sér. Engin gagnkvæm samskipti. Ég frosin og veit ekki mitt rjúkandi ráð, skil ekki hvað er að gerast. Kynlífsathöfn fór fram í herbergi mínu en ég var algjörlega fjarverandi, líkamlega og andlega. Maðurinn heldur áfram að tala. Ég man að hann sagði glaðhlakkalega frá því þegar hann missti sveindóm sinn, unglingspiltur á sjúkrahúsinu á Ísafirði er hjúkrunarkona lagðist í sjúkrarúmið hjá honum.

Ég var algjörlega týnd. Skömmin og sketarkenndin margföld nagaði mig inn að beini. Hann hefði getað verið faðir minn, giftur og margra barna faðir. Maður sem virtist vera mikils metinn í samfélaginu. Ég hafði ekki orðaforða til að takast á við þetta á þessum tíma.

Mynd tvö:

JBH nakinn í stofunni hjá mér snemma næsta dag, með standpínu. Reynir að fá mig til

kynlífsathafnar við glugga (það voru þunn gluggatjöld fyrir glugganum). Þetta var í byrjun sumars.

JBH hringir í fólkið sitt úr heimasíma mínum og lýgur til um fjarveru sína (þá voru númerabirtar ekki komnir).

Ég málstola, frosin, miður mín. Að maður sem gæti verið faðir minn hafi leitað á mig. Maður sem var giftur og átti börn. Maður með furðulegar hugmyndir um kynlíf.

Mynd þrjú:

Nokkrum vikum eða fáeimum mánuðum síðar var ég stödd á veitingastað í miðborginni ásamt vinkonu minni um kvöld. Vinkona mín tók eftir kunningjakonu sinni í hópi fólks sem hana langaði að spjalla við. Þá sá ég að við það borð sátu fyrrverandi nemar úr MÍ ásamt fyrrverandi skólameistara að sumbli. Mín sjálfstýrðu viðbrögð voru að ég strunsaði út skelfingu lostin.

Stuttu síðar varð ég vör við að verið var að elta mig. Í ljós kom að það var JBH. Ég fraus og varð öðru sinni málstola og gat enga björg mér veitt. Einhverjar tilraunir voru til kynlífsathafna, án áhuga míns. Ég bara fraus. Líkaminn og andinn höfnuðu honum. Ég man ekki hvernig þetta fór en hann stoppaði stutt.

Næstu misseri kom fyrir að ég sá JBH á opinberum viðburðum. Þá urðu viðbrögð mín ávallt þannig að ég svitnaði, mig svimaði og hendur mínar titruðu og skulfu.

1981

Ritstjórinn Jón Baldvin

15 ára stúlka á hóteli

Ég er ein af mörgum sem hef komið að Jóni Baldvin fullum að káfa á 15 ára sofandi barni. Hann gisti á ákveðnum stað en vissi að í nálægu húsi væru tvær stúlkur sofandi. Þangað læddist hann inn án þess að eiga nokkuð annað erindi. Hann lagðist við hlið stúlkunnar í neðri kojunni og var að káfa á henni þegar stúlkan í efri kojunni vaknaði. Sem betur fer kom ég þar að ásamt frænku minni og við hentum honum út eins og skot. Eftir þetta hefur mér fundist þessi maður ógeðslegur.  Nú heldur Jón því fram að þetta sé allt söguburður eða vinkonur dóttur hans. Ég er ekki vinur neins í þessari fjölskyldu og hef aldrei verið.

1982

Þingmaðurinn Jón Baldvin

10 ára stúlka í grillveislu

Fyrir mörgum árum var ömmu minni boðið í grillveislu í sumarbústað í Mosfellssveit hjá foreldrum Bryndísar og tók hún mig með. Margt fólk var þar með börnin sín. Sólin skein og allir í góðum gír. Mesti spenningurinn var þó vegna nýrrar sundlaugar við bústaðinn. Ég var 10 ára og hlakkaði til að prófa laugina. Hún var hins vegar troðfull af krökkum þegar við komum svo ég ákvað að bíða aðeins. Þegar allir voru kallaðir í mat sætti ég færis og skaust alein í laugina. Umhverfis hana var hár veggur með hliði þannig að enginn tók eftir mér.

Ég var varla komin ofan í laugina og yfir í djúpa endann þegar Jón birtist þarna á skýlunni í miðju borðhaldinu. Hann var ölvaður. Hann heilsaði undarlega og ég áttaði mig strax á því að þetta væru ekki góðar aðstæður fyrir mig. Hann hoppaði ofan í laugina og synti rakleiðis yfir til mín þar sem hann reyndi að króa mig af við bakkann. Hann þrýsti sér upp að mér og umlaði eitthvað sem ég skildi ekki. Ég hugsaði með mér að hann væri of fullur til að ráða við mig. Ég náði að setja hnén upp og ýta honum aðeins frá mér. Þannig gat ég sett hælana í magann á honum og sparkaði af öllum kröftum þannig að hann þeyttist í burt. Ég stökk upp úr og hljóp inn.

Ég held að ég hafi ekki endilega áttað mig á því hvað væri að gerast. En ég gerði mér fulla grein fyrir því að hér væri hættulegur maður á ferð sem ég skyldi alltaf passa mig á. Síðan þá hef ég fyrirlitið þennan mann. Jón Baldvin er kynferðisglæpamaður og hefur alla tíð verið. Hann leggst á börn jafnt sem konur og skiptir þar engu þótt um hans eigin dóttur sé að ræða.

1989

Utanríkisráðherrann Jón Baldvin

10 ára stúlka á heimili ömmu sinnar

Frá mínu atviki hafa liðið heil 30 ár. Engu að síður man ég vel eftir hvernig hann starði á mig hungruðum augum, hversu ógeðslega drukkinn hann var og þessari ókenndar tilfinningu að eitthvað væri kolrangt. En ég, þá 10 eða 11 ára gömul, hafði ekki þroskann til að skilja hvað nákvæmlega það var. Ætli það sé ekki þess vegna að atvikið er sem greftrað mér í minni.

Það var þegar þau hjónin Bryndís Schram og Jón Baldvin komu í heimsókn til ömmu minnar sem þá bjó á hæðinni fyrir neðan fjölskyldu mína. Fínt fólk sem við öll litum upp til. Og þá auðvitað var kallað á mig, heimasætuna og ég beðin um að sýna mig í kaffiboðinu. Nema þegar ég kem niður vill svo til að þessi maður, Jón Baldvin, er blindfullur, þvoglumæltur og illa lyktandi. Hann er að drekka sterkt vín með kaffinu. Hann starir á mig þannig að allir taka eftir. Hann mælir varla eitt aukatekið orð eftir að ég kem inn í herbergið heldur situr bara þarna og starir á mig sem hungraður úlfur með glott á vör. Þegar blygðun mín og annarra er orðin óbærileg hallar mamma sér að mér og segir lágum rómi að ég skuli fara aftur heim. Ég skammaðist mín heiftarlega og var viss um að ég hefði gert eitthvað af mér en hlýddi mömmu minni orðalaust og fór heim til mín á efri hæðina.

Nú öllum þessum árum seinna, í framhaldi #metoo hreyfingarinnar, nefni ég þetta atvik við pabba minn og spyr hvort hann muni eftir þessu. Hann hélt nú það og bætir því við, sem ég aldrei vissi, að eftir að ég fór úr selskapnum fer Jón Baldvin á klósettið nema hann er undarlega lengi. Þá fer einhver þeirra að gæta að honum og finnur hann frammi á gangi á leið upp á efri hæðina þar sem ég var ein heima. Nema hvað að hundurinn okkar stendur ógnandi í vegi hans og meinar honum aðgang. Þó að hann væri drukkinn hafði hann þó rænu á að styggja ekki þýska fjárhundinum sem stóð í tröppunum og sýndi tennurnar með kambinn reistan að verja systur sína. Því stóð hann þar stjarfur og komst ekki erinda sinna, hver sem þau munu hafa verið.  En það er ég sannfærð um að ekki bar honum til neitt gott.
Ég skil það í dag að ég á elsku hundinum mínum mikið að þakka. Ég trúi ykkur og er stolt af hugrekki ykkar og krafti að koma fram og segja frá. Lengi lifi byltingin.

1991

Utanríkisráðherrann Jón Baldvin

10 ára systurdóttir Bryndísar

Ég giska á að það séu um 28 ár síðan ég upplifði mín eigin „óþægilegu“ atvik með Jóni Baldvini sem lengi vel voru mér of óræð til að geta sett í nokkurt samhengi. Ásetningurinn var mér aldrei skýr enda óskiljanlegar aðstæður fyrir 10 ára gamalt barn að lenda í. Þessi atvik vöktu þó hjá mér kvíða fyrir því að vera ein í nærveru hans og tel ég að reynsla mín og innsæi barnsins sem ég var eigi fullan rétt á sér. Atvikin eru þrjú.

Það fyrsta átti sér stað þegar „óvart“ blasa við mér kynfæri sem skyndilega urðu sýnileg undan sloppnum þar sem hann lá veikur í rúmi sínu. Man eftir því að snarþagna og skunda rakleitt út úr herberginu í uppnámi.

Annað atvik átti sér stað þegar ég var í sundi með honum og fleirum. Við vorum í Vesturbæjarlauginni og umkringd fólki þegar hann verður óvenju snertinn á það óræðan hátt að enginn virtist veita því eftirtekt, nema ég, sem hörfaði frá honum. Ég man eftir því að horfa í kringum mig til að gá hvort einhver sæi ekki það sem ég var að upplifa því hann var óþarflega þuklinn. Þetta svo augljóst og sýnilegt en enginn virtist hafa við neitt að athuga. Það var ekki eins og hann væri að koma við kynfæri mín en snertingarnar voru þess eðlis að þær vöktu með mér ótta.

Þriðja atvikið átti sér stað þegar hann þurfti endilega að mæla hæð mína fyrir kaup á svefnpoka. Hann kom ekki við mig á óviðeigandi stöðum en ég man hvað mér leið illa. Bara það að vera í líkamlegri nánd við hann var mér kvíðaefni og segir allt sem segja þarf. Við vorum umkringd fólki og mín eigin upplifun kom ekki heim og saman við hvernig aðrir brugðust við, enginn virtist hafa við neitt að athuga. Óræðnin var þaulreynt öryggisnet atvika sem áttu sér stað á það gráu svæði að hvorki er hægt að staðhæfa né fullyrða. Þegar allt er upp talið, hvað er persónuleg upplifun og innsæi í heimi sakhæfra gjörða? Í ljósi sambærilegra reynslusagna set ég nú hlutina í það samhengi sem það hefur alltaf átt heima. Atvikin voru mér eiturgrá.

1991

Utanríkisráðherrann Jón Baldvin

14 ára sendiherradóttir í London

Verst geymda leyndarmálið mitt er hatur mitt á þeim hjónum, JBH og BS. Hann var yfirmaður pabba þegar pabbi var sendiherra í London og Jón utanríkisráðherra. Ég vissi að Jón væri svolítill dónakall; hann átti það til að kommenta á að brjóstin á mér hefðu „stækkað síðan síðast“ og svona. Það sem ég gleymi seint og fyrirgef aldrei er það sem gerðist í veislu heima í stofu foreldra minna þegar ég er 14 ára.
Jón er drukkinn. Aftur: ekkert nýtt. En hann vill að ég setjist í fangið á sér. Hann er blautur af svita og lyktar hræðilega. Lyktin…. hún var svo stæk. Og hann grípur um brjóstin á mér og sleikir á mér eyrun og hálsinn. Ég lít upp eftir hjálp og sé Bryndísi. En hún er að brosa. Hún brosir til mín. Og ég frýs. Jóni finnst þetta svo fyndið eitthvað og strýkur á mér rassinn þegar ég losa mig og stend upp. Bryndís eltir mig. Hún útskýrir fyrir mér að hann sé búinn að drekka aðeins of mikið. Honum þyki svo vænt um mig. Og svo bendir hún mér á að það sé búið að vera svo rosalega mikið að gera hjá þeim Jóni og pabba. Ég þurfi ekki að rugga bátnum; pabbi minn megi ekki við því.

Fyrstu árin vorkenndi ég henni svo að eiga svona hræðilegan mann. Fannst hún eiga samúð mína skilið. En eftir því sem árin liðu uppgötvaði ég að hún sá, hún vissi og það var hún sem hótaði mér.
Þessi reynsla, hún gerði svo margt. Hún hafði skelfilegar afleiðingar fyrir mig og mína fjölskyldu.

Ég var lengi að lesa frásögn Aldísar. Ég var lengi að adda mér í þessa grúbbu, ég var lengi að skrifa þennan póst. Ég á pabba sem veit ekki af hverju dóttir hans gerði allt sem hún gerði til að rugga bát sem hann vissi ekki að hann væri í. Ég nefnilega ruggaði kannski ekki atvinnubátnum hans pabba, en mikið djöfull ruggaði ég bát fjölskyldunnar. Mikið hataði ég þetta „fína“ líf okkar og fólksins í því. Og mikið rosalega hef ég oft skammast mín fyrir. En í dag skila ég skömminni.

1993

Utanríkisráðherrann Jón Baldvin

Næturvörður á hóteli

Þetta gerðist snemma á tíunda áratugnum en þó svo langt sé síðan finnst mér eins og það hafi gerst í gær. Ég var næturvörður á hóteli á Akureyri og þar var vinkonuhópur að sunnan í helgarferð. Vegna veðurs var ekki flogið þegar þær ætluðu suður svo þær fóru út að skemmta sér. Þegar þær komu á hótelið um nóttina var Jón Baldvin með þeim en hann var þá þjóðþekktur sem ráðherra og formaður stjórnmálaflokks. Ég ætlaði fyrst ekki að hleypa honum inn en lét gott heita því hann var mjög ákveðinn í að komast inn.

Nokkru seinna var hávaðinn orðinn það mikill í herberginu að mér fannst ástæða til að banka og þagga niður í þeim. Sjónin sem við mér blasti líður mér seint úr minni. Þarna var Jón Baldvin á fjórum fótum á gólfinu, ýlfrandi eins og úlfur og stelpurnar hlæjandi í kring. Ég sagði honum að koma sér út en það tók tíma að losna við hann. Hann fór ekki út fyrr en ein stelpan fór með honum á hótelið sem hann gisti á. Um morgunin var orðið flugfært og þegar þær yfirgáfu hótelið til að fara út á völl var stelpan enn ókomin.

1994 – 2001

Utanríkisráðherrann og sendiherrann Jón Baldvin

Önnur 10 ára systurdóttir Bryndísar

Sumarið 1994 þegar ég var 10 ára fékk Jón Baldvin mig til að frjósa í fyrsta skiptið. Frjósa þannig að þér finnst húðin ekki tilheyra þér, hjartað stoppar og heilinn spýtir frá sér engu nema vanlíðan og velgju. Þarna vorum við ásamt konu hans og tveimur barnabörnum á Spáni. Hann káfaði mikið á mér undir því yfirskini að ég þyrfti stanslaust að fá sólarvörn. Ég hugsaði með mér þegar á káfinu stóð að svona mundi pabbi minn aldrei bera á mig, og eins og áður sagði, þar fraus ég í fyrsta skiptið. Í þessari sömu ferð vorum við Jón að leika við barnabörnin hans tvö í sjónum. Þá káfaði hann á mér á milli lappanna og „slysaðist“ til að snerta mig á stöðum sem mér fannst óþægilegt.

Þegar ég var í 8. bekk í Hagaskóla virðist hann hafa fengið mig á heilann. Hann sendi mér ótal handskrifuð bréf (á bréfsefni íslenska ríkisins). Í fyrstu sendi hann bréfin heim en svo fóru þau að berast í skólann og bað hann mig um að halda þessum bréfum leyndum. Hann hvatti mig til að skrifa  til baka og að gerast trúnaðarvinur sinn, ég ætti að segja honum frá mínum dýpstu hugarórum og löngunum. Hann hafði mikinn áhuga á að vita hvað gerist í kollinum á barni sem verður að unglingi.

Eina nóttina vakna ég svo við það að hann stóð yfir rúminu mínu og horfði á mig sofa. Ég spurði hvað hann væri að vilja í herbergið mitt og þá sagðist hann vilja bjóða mér uppá viskí og sígarettu. Ég sagði að það væri ómögulegt þar sem ég átti að mæta í skólann tveimur tímum síðar og rak hann út. Þarna var ég 13 ára. Ég sagði engum frá þessu.

Seinna um veturinn sagði pabbi mér frá því að hann hafi vaknað um miðja nótt við það að Jón Baldvin væri inni í íbúðinni okkar og á leið upp stigann til okkar systra sem sváfum á annari hæð. Pabbi kenndi því um að hann hefði verið ruglaður af áfengisdrykkju og datt ekki í hug að hann væri í raun á leið upp í herbergið mitt.

Sumarið 1999 var ég aftur með þeim í fríi, í þetta skipti á Ítalíu. Við dvöldum ásamt tengdafjölskyldu dóttur hans í smábæ um klukkustund frá Róm. Nóttina fyrir brottför sat ég frammi í stofu og var að horfa á sjónvarpið þegar hann kom, hallaði sér yfir mig og reyndi að kyssa mig blautum og ógeðslegum kossi. Ég rétt náði að sparka honum frá mér. Um nóttina lá ég frosin í rúminu mínu af ótta við að hann kæmi inn til mín.

Í áramótagleði á heimili mínu ári síðar sagði hann við eina af æskuvinkonum mínum að hann hefði ætlað að fleka mig sumarið áður á Ítalíu.

Þar sem ég nennti aldrei að skrifa Jóni bréf og hafði ekki löngun til að eiga hann sem trúnaðarvin þá hætti hann að skrifa mér. Hann hélt þó áfram að bjóða mér að hitta sig, meðal annars í hádegisverði á veitingastað þegar hann kom til Íslands, þá bjuggu þau hjónin í Washington.

Eftir Hagaskóla fór ég sem skiptinemi til Venezuela og dvaldi þar í eitt ár. Dag einn fékk ég símtal frá Bryndísi þar sem hún sagði þau hjónin þurfa að koma til Venezuela með sendiráðsbréf og hvort ég vildi ekki hitta þau í höfuðborginni. Það vildi ég gjarnan því á þessum tíma leit ég á Bryndísi sem hálfgerða ömmu mína og þótti einstaklega vænt um hana. Viku seinna hringdi Jón og sagði að Bryndís kæmi ekki með, hann kæmi einn að hitta mig.  Ég laug að honum hið snarasta að skiptinemar mættu ekki fá gesti. Hann sagði það vera fúlt en hvort að hann mætti ekki senda mér bréf sem skaðabót. Ég taldi það saklaust og talsvert betra en að hitta hann ein. Hann sendi mér tvö bréf til Venezuela. Þessi bréf eru svo pervertísk og ógeðsleg að mér býður enn við þeim í dag, en þarna var ég sextán ára. Hann m.a. lýsti því hvernig hann hafi eytt nótt á hóruhúsi og hugsað til mín alla nóttina. Með seinna  bréfinu fylgdi bók, nokkurskonar Lolita Suður-Ameríku, In prace of the stepmother. Hann lýsti því einnig fyrir mér hvernig hann „reið“ Bryndísi eftir að hún las bókina og bað mig svo um að lesa hana líka. Í framhaldinu  bauð hann mér svo að koma og „stytta honum stundir” í sendiráðshölinni í Washington á leið minni heim frá Suður- Ameríku og vera með honum ein þá daga sem Bryndís væri í burtu.

Næst þegar ég hitti hann var í grillveislu með fjölskyldunni á heimili þeirra hjóna í Mosfellsbæ. Á leiðinni heim brotnaði  ég saman og sagði systrum mínum frá því hvernig Jón Baldvin hefði perrast í mér öll þessi ár, því ég gat ekki lengur hugsað mér að burðast með þetta. Árin sem fylgdu voru ömurleg í alla staði. Ég kenndi sjálfri mér lengi um að hafa splundrað móðurfjölskyldu minni. Ég  saknaði einhverra og kveið því að hitta aðra. En sá sársauki var samt betri en að lifa með þessu. Núna veit ég að Jón Baldvin er ekkert annað en viðbjóðslegur pervert sem hefur með hegðun sinni eitrað út frá sér og um leið splundrað heilli fjölskyldu, ekki ég. Hann braut á barni.

Á tvítugsafmælisdaginn minn hitti ég Bryndísi. Mig langaði til að hún fengi að heyra þetta frá mér. Að ég gæti loksins sagt henni hverskonar skrímsli hún búi með. Efir að hafa setið með mér í tvo klukkutíma og talað um ekki neitt skutlaði ég henni uppá hótelið sem þau hjónin voru á þar sem þau bjuggu í Helsinki á þeim tíma. Á leiðinni heim sagðist ég þurfa að tala um Jón Baldvin, hún svaraði hvort að við þyrftum endilega að gera það en ég tjáði henni að það væri ástæðan fyrir þessum fundi. Svo sátum við í bílnum og ég sagði henni alla söguna. Við grétum báðar og það var reglulega erfitt að segja henni frá þessu. Ég sagði henni allt. Að lokum spurði hún mig hvort að við gætum nú samt haldið vinkonusambandi okkar á milli, en ég sagði að það væri ómögulegt ef hún væri með honum. Að lokum þurkaði hún tárin og við kvöddumst. Í dag er ég henni svo einstaklega reið því hún hefur vitað þetta í mörg ár og þessi grátur og undrun á hegðun mannsins síns var ekkert nema leikrit, líkt og lífið sem þau lifa. Við vorum peð í þeirra viðbjóðslega og pervertíska hjónabandi.

1996

Utanríkisráðherrann Jón Baldvin

Starfskona í Ráðherrabústaðnum

Það var 1996 og ég var að vinna í eldhúsinu í Ráðherrabústaðnum. Við vorum ekki mörg eftir af starfsfólkinu og löngu kominn sá tími sem veislunni átti að vera lokið. Ég og unglingstúlka sem var mér til hjálpar vorum eftir til að ganga frá og svo yfirmaður minn sem sá um veisluna. Ég heyrði læti og brothljóð og háværa rödd sem var verið að þagga niður í. Allt í einu þeysist Jón Baldvin Hannibalsson, þá utanríkisráðherra, inn og kallar:  „Mig vantar kvenmann !!“ Hann grípur í mig aftan frá og tekur um brjóstin á mér. Mér brá svakalega og kallaði: „Farðu, karlandskoti.“ Þá kom yfirmaður minn inn og hjálpaði mér að losna frá karlinum. Hann rauk þá á unglingstúlkuna en var stoppaður og yfirmaður minn sagði: „Láttu hana vera, hún er bara 13 ára.“ Jón var búinn að brjóta húsgögn og borðbúnað sem Jón úti í bæ hefði þurft að borga fyrir. Það var hringt á leigubíl og ég varð svo reið þegar unga stúlkan fór með. Jón neitaði að fara út í bílinn án hennar og fór yfirmaðurinn með hann heim. Ég hef aldrei getað hlustað á þennan mann í útvarpi né sjónvarpi. Hef oft hugsað hvað gerði hann við dætur sínar? Hann var eins og ófreskja. Þvílíkur ofbeldismaður.

En núna er þessi maður allur. Þökk sé hugrekki Guðrúnar og Aldísar mun hann aldrei aftur fá tækifæri til að áreita börn og konur. Og aldrei mun hann fá tækifæri á opinberum vettvangi. Í rauninni er hann útlægur héðan frá Íslandi. Ég samgleðst Aldísi og Guðrúnu að þessu erfiða verkefni sé að verða lokið og sérstaklega Aldísi sem hefur nú loksins hlotið uppreisn æru

1998

Flokksformaðurinn Jón Baldvin

Flokkssystir

Þetta gerðist árið 1998 sem var síðasta ár hans sem formaður Alþýðuflokksins.  Ég er alin upp sem krati og var alltaf mjög virk í starfi. Þetta kvöld var fundur sem endaði á hóteli og fullt af fólki sem fór þangað. Ég drakk sjálf þetta kvöld en var ekkert drukkin, bara við skál. Þegar leið á kvöldið vildi Jón Baldvin fá að tala við mig í einrúmi. Hann bað mig að koma upp á herbergi og vildi sýna mér hvað flokkurinn væri að gera, okkar áherslur og svo framvegis.  Mér fannst það mikill heiður og fór með honum upp á herbergi.

Eftir smá stund segir hann við mig að hanns sé svo graður og viti ekki hvað hann eigi að gera. Hann þurfi að fá útrás. Ég vissi ekkert hvernig ég ætti að vera. Hann byrjaði að kyssa mig, strjúka mér og þukla. Síðan reyndi hann að fara lengra en þá kom kosningastjórinn hans sem ég þekki mjög vel og hrynti honum af mér. Ég kom mér út og heim. Það eina sem ég man enn er augnaráðið, lyktin og viðbjóðurinn sem kom frá honum.

2009

Eftirlaunaþeginn Jón Baldvin

18 ára stúlka á bar

Mín saga af JBH er ekki alvarleg en hefur alltaf setið í mér. Ég var stödd á Rosenberg á Klapparstíg 2009 eða 2010, þá átján ára gömul, og JBH var þar ásamt konu sinni og einhverjum fleirum sem ég þekki ekki deili á. Það var töluverður fjöldi inni á staðnum en JBH sigtaði mig út fljótlega eftir að ég kom inn og starði á mig eins og rándýr allt kvöldið. Hann gerði sér far um að labba framhjá mér með þessu ótrúlega stingandi augnaráði og ég endaði satt að segja á að fara fyrr en ég hafði ætlað mér. Ég hef lent í ýmsu varðandi allskonar menn og er ekkert sérstaklega viðkvæm í þeim efnum en aldrei, hvorki fyrr né síðar, hefur mér liðið jafn mikið eins og ég stæði óvarin frammi fyrir rándýri eða skrímsli. Og það með augnaráðinu einu saman.

Miðað við sögurnar í þessum hópi er mér alveg ljóst að JBH er ekkert annað en hættulegur konum á öllum aldri og helst ungum stelpum. Ótrúlega sorglegt að þetta verst geymda leyndarmál íslenskra stjórnmála hafi fengið að viðgangast svo áratugum skiptir án þess að vera stöðvað.

2010

Eftirlaunaþeginn Jón Baldvin

Starfskona á bar

Árið 2010 er ég að vinna sem barþjónn þá 33 ára gömul. Það er fimmtudagskvöld og fremur rólegt þegar Jón Baldvin Hannibalsson gengur inn á barinn ásamt þremur öðrum einstaklingum. Þau setjast við fjögurra manna borð sem er í augnhæð við barborðið sem ég vinn við. Ég afgreiði hluta af hópnum þegar þau koma að barnum. JBH er einn af þeim og þegar ég afhendi honum drykkinn hans, laumar hann því að mér og með nokkrum undrunartón að ég sé nú „nokkuð falleg“ líkt og ég væri að heyra það í fyrsta skiptið og ég ætti að flissa eins og smástelpa við að heyra það frá honum. Mitt svar við hans svokallaða skjalli var að fegurð væri afstætt hugtak í mínum huga. Ég sýndi lítil svipbrigði með því svari og hélt áfram mínum störfum. Hann sest aftur til borðs hjá félögum sínum og finn ég hvernig hann er með augastað á mér af og til restina af kvöldinu. Ég fékk einhverra hluta vegna ónotatilfinningu fyrir  þessu en leiddi það hjá mér. Svo finn ég hvernig hann reynir lymskulega að fá mig til þess að afgreiða sig í hvert sinn sem hann kemur á barinn á meðan ég geri í því að reyna að afgreiða hann ekki og láta hann heldur í afgreiðslu hjá samstarfsfélaga mínum.

Svo kemur að því að barnum er lokað og húsið er orðið nánast tómt. Það eru tveir aðilar eftir á borði JBH og er hann einn af þeim, þeir eru að klára drykkina sína og spjalla. Ég sest niður við sömu gerð af borði og JBH situr við en töluvert fjær og í raun úr leið út af barnum. Ég er búin með þau verk sem tilheyra að ganga frá vinnu minni og er að bíða eftir samstarfsfélaga mínum sem er að ganga frá uppgjöri í bakherbergi. Ég heyri ekki betur en að borð JBH sé að yfirgefa húsið, þá orðið eina borðið eftir. Ég sný baki í borð þeirra og er að skoða símann minn, þá komin í jakkann minn og bíð eftir að yfirgefa vinnu mína. Ég heyri að félagi hans fer eðlilegu leiðina út af barnum frá borði þeirra og taldi ég JBH vera með honum. Þarna er orðin þögn í húsinu.

Allt í einu finn ég fyrir trefli vera vippað fram fyrir mig og ég finn fyrir manneskju standa upp við mig, fyrir aftan mig. Þarna taldi ég samstarfsfélaga minn vera að verki og hafi fundið trefil við yfirgefið borð en ég sit við snaga þar sem vaninn var að setja fatnað sem gleymst hafði á barnum. Þar sem ég sit hálf hokin og er að skoða símann minn, er trefillinn dreginn fremur ört upp að mér og togað þétt upp að hálsi mínum þannig að ég er orðin upprétt með bak mitt þétt við líkama þess sem stendur á bakvið mig og höfuð manneskjunnar við mitt höfuð. Þarna er mér farið að finnast þessi tilfinning undarleg og vægast sagt óþægileg, þar sem ég er orðin tjóðruð við þessa manneskju bakvið mig. Ég gríp í trefilinn við hálsinn á mér með ósjálfráðum viðbrögðum til þess að losa hann frá hálsi mínum og ætla mér að líta til hliðar og segja: „Ha ha, ekki fyndið,“ við samstarfsfélaga minn. Ég næ að snúa höfði mínu um nokkra sentimetra þegar eyrað á mér er bókstaflega við munn JBH og ég átta mig á því á rödd hans og áfengisandardrætti að þetta er hann þegar hann hvíslar og segir orðrétt: „You like it rough“.

 Ég var svo skelkuð, fylltist viðbjóði og var svo yfir mig hissa að ég bókstaflega fraus og það í fyrsta skiptið á ævinni. Ég kom ekki upp einu einasta orði sem er mjög ólíkt mínum karakter. Hann tók svo trefilinn sinn og setti hann utan um sig og horfði ég á eftir honum ganga út af barnum, hálf glottandi. Ég hugsaði með mér í sjokki hvort þetta hafi virkilega verið að eiga sér stað. Ég fékk hálfgerða óraunveruleika tilfinningu gagnvart þessum óforskömmuðu kynferðislegu tilburðum hans í minn garð, sem að mínu mati var svo greinilega tilvísan í hans brenglaða hugarheim gagnvart mér, bláókunnugri manneskjunni. Hann einfaldlega staðfesti þarna ónotatilfinninguna sem ég hafði fyrir honum frá fyrstu stundu þetta kvöld og sinn undirliggjandi tilgang með sínu atferli.

2018

Eftirlaunaþeginn Jón Baldvin

Gestur í heimboði

Ég var á leiðinni til Spánar frá Mið-Ameríku þaðan sem ég dvel mestmegnis til að hitta mömmu mína og 13 ára systur mína. Mamma hafði nefnt að Bryndís Schram hafi ítrekað boðið henna að koma í heimsókn til sín í Salobrena en þær hafa haldið tengslum af og til í gegnum tímann frá því að mamma og Aldís voru æskuvinkonur en ég hafði engin tengsl við hjónin önnur en að hafa hitt þau á förnum vegi eins og gengur og gerist á Íslandi. Mamma sló til og fannst tilvalið að við færum saman í mæðgnaferð og vorum við allar spenntar fyrir því að fara í ferðalag saman eftir langan aðskilnað. Leigður var bíll og við héldum af stað syngjandi glaðar og fullar af tilhlökkun. Þegar komið var á leiðarenda var tekið vel á móti okkur og okkur vísað í herbergin okkar.

Jón Baldvin var mjög spenntur fyrir fótboltanum og spurði hvort við værum ekki til í að halda á næsta bar til að horfa á leikinn. Við fórum öll saman og var það frekar ánægjulegt. Næsta dag hafði vinkonu þeirra, kölluð Gugga, verið boðið til þeirra okkur til samlætis. Var ákveðið að fara að horfa á leik Íslands og Argentínu og var mikill spenningur fyrir því, að undanskildri systur minni sem hafði beðið um að fá að vera heima með hundinn. Jón Baldvin var orðin stressaður og vildi að við færum að haska okkur aftur á barinn svo við myndum ekki missa af neinu. Þegar við erum við það að ganga út um dyrnar spyr Jón allt í einu hvar stelpan sé. Átti hann þá við systur mína en hann kallaði hana ALDREI með nafni heldur einungis STELPUNA. Við sögðum honum að hún vildi vera heima með hundinn enda barinn nánast í næsta húsi og stutt að fara ef eitthvað kæmi uppá. Þá snerist Jóni snögglega hugur, hann þurfti ekki lengur að flýta sér og sagði okkur að fara á undan því ann þyrfti að „læsa“ og „loka“ hurðum . Á þessu augnabliki horfðumst við mamma í augu og án þess að segja það grunaði okkur báðar að eitthvað byggi undir þessum snögga viðsnúningi hjá honum. Við harðneituðum að fara á undan þó að Bryndís og vinkonan færu. Þá kom fát á Jón og hann flýtti sér að loka svalahurðunum. Þegar við héldum af stað var hann orðinn viðskotaillur því hans vanhugsaða plan um að verða eftir einn með 13 ára systur minni gekk ekki eftir. Hann hvæsti á mömmu á leiðinni út.

Við horfðum á leikinn, allir í „stuði“ og síðan var haldið heim að undirbúa síðbúinn hádegsverð. Jón varð eftir á barnum og sagðist ætla að drekka einn bjór í viðbót og koma svo. Jón er kominn til baka og við búnar að undirbúa borðhaldið sem fór fram upp á þaki hússins.  Þar er langborð og Jón og Bryndís sitja við sitthvorn endann og ég og mamma sitjum vinstra megin við Jón, ég næst Jóni. Vinkonan situr á móti okkur vinstra megin við Bryndísi. Þegar ég stend upp og næ í vínflösku á öðru borði og byrja að skenkja í glösin þannig að ég stend við hlið Jóns til móts við mömmu þá byrjar Jón ákaft að strjúka á mér rassinn upp og niður! Ég sem er frekar sjálfsörugg og læt hvorki menn né konur komast upp með svona framkomu, gjörsamlega FRAUS. Ég settist lömuð niður við borðið í fullkomnu sjokki þegar mamma segir við Jón: „Jón, viltu gjöra svo vel og biðja dóttir mína afsökunar!“ Hann þóttist ekki kannast við neitt og yppti öxlum. Mamma sagði: „Jón, ég sá hvað þú gerðir. Viltu biðja dóttur mína afsökunar!!“ Þá stóð ég upp og fór frá borðhaldinu miður mín, niður í herbergi grátandi, hringdi í fyrrverandi kærastann minn sem þekkir til þeirra og sagði honum frá þessu. Hans viðbrögð voru: „Djöfullinn, er hann ennþá að þessu?!“ Ekki var það til að bæta mína líðan svo ég ákvað að ná í systur mína og hundinn og drífa okkur út. Ég útskýrði fyrir systur minni hvað hefði átt sér stað og hennar viðbrögð voru: „Ég vissi það, ég vissi það!“ Ég spurði þá: „Hvað áttu við?“  „Mér fannst hann svo óþægilegur í gær,“ svaraði hún. Þess vegna vildi hún ekki fara neitt með okkur.

Systir mín hringir svo í mömmu og segir að við vildum fara undireins! Þarna hafði mamma setið áfram við borðhaldið en Jón látið sig hverfa inn í svefnherbergi þeirra hjóna. Bryndísi var brugðið og reyndi að sannfæra mömmu um að aldrei í sínu sextíu ára hjónabandi með Jóni hafi neitt svona komið uppá. Að hann bæri mikla virðingu fyrir konum og að hún hlyti að hafa misskilið þetta. Vinkonan, Gugga, hreytti í mömmu og sagði hana hafa eyðilagt borðhaldið með því að láta svona og að „SVONA GERIST BARA“, sagði GUGGA.

Þá rauk mamma niður til Jóns sem lá í rúmi sínu og þóttist vera að lesa bók,  stóð yfir honum og sagði: „Það er þá allt sem búið er að segja um þig, SATT! Og heldur þú að af því að þú ert JÓN BALDVIN að þú fáir að komast upp með þetta?“ Hann bregst rólega við og segist ekkert botna í þessu og spurði hvort Carmen vildi ekki koma og tala við hann undir fjögur augu. Bryndís er þá komin inní herbergið og hann fullyrðir við hana að hann hafi ekkert gert. Hún viti manna best að hann elski og virði konur. Mamma sagði þá að ég myndi aldrei koma og tala við hann undir fjögur augu vegna þess að mér fyndist hann ÓGEÐSLEGUR! Þá varð hann öskuillur og byrjaði að öskra á hana og svívirða á meðan hún tók saman farangurinn okkar. Þarna erum við systurnar komnar að húsinu og það síðasta sem ég heyrði Jón öskra:  „Ef þið farið með þetta í fjölmiðla þá mun ég lögsækja ykkur!“

Við leggjum af stað út í buskann, ráðvilltar um hvert við gætum farið svona seint.  Sem betur fer bjó vinur minn í um tveggja tíma ferð í burtu og var til staðar og leyfði okkur að vera hjá sér.
Um nóttina berst svo bréf frá Bryndísi þar sem hún afsakar hegðun Jóns en neitar um leið að þetta hafi gerst og við værum að misskilja hann.  Mamma svaraði engu og sleit öll tengsl, blokkeraði þau á Facebook og þeim tengdum.

Þetta gerðist 16. júní 2018 og hafði gríðaleg áhrif á okkur mæðgur. Við vissum ekki hvernig við áttum að bregðast við þessu eða hvernig væri hægt að stöðva hann. Loksins erum við sem erum fórnalömb JBH að stíga fram sem hópur. Jón og Bryndís munu ekki eiga roð í þann slagkraft!

Það er mat okkar mömmu að Jón Baldvin Hannibalsson sé haldinn einbeittum brotavilja. Hann er fullkomin psychopath og þrátt fyrir að vera orðinn áttræður þá er hann enn mikil ógn við börn, konur og jafnvel menn. Því ætti að loka hann inni svo hann valdi ekki meiri skaða. Hann hefur eins og svo margir komist upp með þetta allt of lengi og getað falið sig bæði á bakvið valdamenn og konur sem af einhverjum ÓSKILJANLEGUM ástæðum hafa samþykkt þetta sjúklega ofbeldi hans. Okkar tími er kominn og hans er klárlega á enda!!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Lögfræðingur segir lögregluna á Suðurnesjum hafa gert ólöglega húsleit á heimili hans – „Ég er reiður“

Lögfræðingur segir lögregluna á Suðurnesjum hafa gert ólöglega húsleit á heimili hans – „Ég er reiður“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Kirkjugarður Hafnarfjarðar að breytast í bílakirkjugarð

Kirkjugarður Hafnarfjarðar að breytast í bílakirkjugarð
Fréttir
Í gær

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán
Fréttir
Í gær

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið
Fréttir
Í gær

Segir að Kim Jong-un hafi Pútín að fífli

Segir að Kim Jong-un hafi Pútín að fífli
Fréttir
Í gær

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar

Fyrstu myndir af gosinu úr þyrlu Landhelgisgæslunnar