fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Guðrún missti son sinn: „Ég bara hágrét og grét alla leiðina heim í bílnum“ – Ætla að byggja nýjan vegg

Erla Dóra Magnúsdóttir
Mánudaginn 28. janúar 2019 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er varla hægt að setja orð á það, það er svo skelfilegt að horfa á eftir barninu sínu.“ Svo sagði Guðrún Hauksdóttir Schmidt, betur þekkt sem Gurra, í þætti Viktoríu Hermannsdóttur, Málið er, um helgina.  Maðurinn sem hún horfði á eftir var sonur hennar, Þorbjörn Haukur Liljarsson.

Gurra býr í Danmörku og kom til landsins í haust og eyddi þá einum degi með syni sínum sem var útigangsmaður. Í kjölfar heimsóknarinnar vakti hún athygli á stöðu útigangsmanna á Íslandi  á Facebook og átti í kjölfarið samtal við blaðamann DV. Skömmu eftir viðtalið og heimsóknina fékk Gurra þau hörmulegu tíðindi að sonur hennar væri látinn.

Skaddaðist á framheila

Þorbjörn hafði um ára skeið verið á götunni. Þegar hann var tvítugur að aldri lendi hann í alvarlegu slysi.

„Hann starfaði á Kópavogshæli og var á leið í vinnuna, þegar hann lendir í mótorhjólaslysi við Vogatungu í Kópavogi. Honum var ekki hugað líf í fjóra daga. Hann fékk mörg líkamsbrot og skaddaðist á framheila. Hann var í eitt ár á sjúkrahúsi og var síðan í alls konar eftirmeðferðum á Grensás og Reykjalundi, þetta var hræðilegur tími.“

Í samtali við DV í haust sagði Gurra að þetta slys hefði markað líf Þorbjarnar til frambúðar. „En hann kom glaður út úr þessu öllu saman, enda mjög sterkur á líkama og sál þó margt sé farið að gefa sig í dag hjá elsku syni mínum.“

Í síðasta skipti

Mynd frá síðasta fundi mæðginanna

Áður en að Þorbjörn dó kom Gurra til landsins og hitti son sinn og vini hans, sem einnig búa á götunni. „Klukkan var rúmlega 10 og biðu þeir eftir að ríkið myndi opna til að kaupa alkóhól til að byrja daginn. Enginn þeirra var búinn að borða morgunmat, listin í mat ekki mikil að morgni enda líkaminn byrjaður að skjálfa eftir alkóhóli.“

„Ég ætlaði einmitt að bjóða Þorbirni út að borða þegar við hittumst, en hann var ekki svangur. Það tóku allir undir með honum sem við stóðum hjá á Ingólfstorgi, segjast ekki svangir á morgnanna enda þörfin mest fyrir sopann. Ef hann nær plássi í skýlinu þá fær hann að borða þar. Svo er gott fólk út í samfélaginu sem gefur heimilislausum að borða. Að öðrum kosti er lítið val um mat,“ sagði Gurra.

„Þorbjörn sagði að stundum fengi hann að borða frítt á pylsuvögnunum. Svo er Samhjálp líka, þar er dásamleg þjónusta og gott fólk segir Þorbjörn.“ 

Gurra hafði þungar áhyggjur af syninum og komandi vetri. „Ég verð svo sorgmædd að hugsa til þeirra sem hafa ekkert húsaskjól. Það eru ekki allir sem lifa kaldan veturinn af. Mér líður ekki vel með að hugsa til þess að sonur minn og allir hinir búi bara á bekkjum í vetur,“ sagði hún og bætti við að Þorbjörn hefði sýnt henni þá staði sem hann svaf á þegar hann fékk ekki pláss í gistiskýlinu.

„Ég bara hágrét og grét alla leiðina heim í bílnum“

Í þætti Viktoríu lýsti Gurra frekar þessum síðasta fundi sem hún átti við son sinn og hvernig eftir á að hyggja hefði fundurinn borið yfir sér brag kveðjustundarinnar, þó hún vissi það ekki þá. „Það var eins og við værum að tengjast einhvern veginn, tengjast traustum böndum. Svona var allur þessi dagur hjá okkur. Hann var svo dásamlegur. Þegar við kvöddumst var eins og við vildum ekki sleppa takinu.“ Þegar Gurra horfði á eftir syni sínum ganga inn á Ingólfstorg var hann eins og gamall maður, hokinn í herðum og slapplegur. „Það var mjög erfitt að horfa á eftir honum, ég bara hágrét og grét alla leiðina heim í bílnum. Nú fer ég líka að gráta,“ sagði Gurra klökk.

„Ég hafði einhvern veginn á tilfinningunni að eitthvað myndi gerast fyrir hann, en ég var ekki viss hvað það væri.“

Skömmu síðar fékk hún símtalið sem engin móðir vill fá, Tobbi hennar var látinn.

„Kvöldið sem hann dó, þá kom hann inn í gistiskýlið og var eitthvað slappur. Þeir gáfu honum að borða og þeim fannst hann vera öðruvísi en hann átti að sér að vera. Áður en hann fór upp í rúm þá bað hann um faðmlag, bað um að vera faðmaður. Það er eins og hann vissi hvað myndi gerast,“ sagði Gurra en hún er gífurlega þakklát fyrir að hafa náð að eiga dýrmæta stund með syninum fyrir andlátið, stund sem reyndist hafa verið hin hinsta kveðjustund.

„Söknuðurinn er náttúrulega gífurlega mikill og sorgin. Ég held ég hefði bara aldrei náð mér, ég er oft búin að hugsa um þetta, ef ég hefði ekki átt þennan tíma með honum. Svona kærleikur og yndislegt samtal.“

Jarðarför Þorbjarnar var að sögn Gurru falleg og skemmtileg, líkt og Þorbjörn hefði viljað. Í jarðarförina mættu á fjórða hundrað manns, þar á meðan vinir Þorbjarnar sem búa á götunni.

„Ég varð spurð að því hvort ég ætlaði ekki bara að hafa jarðarförina í kyrrþey, af því að hann bjó á götunni. En það kom aldrei til greina. Þetta að mega ekki tala um hlutina, og spyrja mig ekki um hann og svona því þau voru svo hrædd um að það væri eitthvað erfitt, eða mér þætti það erfitt. Mér fannst það dásamlegt þegar fólk spurði mig út i hann.  Mér fannst það sýna bara hlýju.

Gurra segist oft hafa fundið fyrir fordómum samfélagsins gagnvart útigangsmönnum, en börnin manns eru alltaf börnin manns. „Þú kveður alveg með jafn miklum söknuði barnið sem býr á götunni og barnið sem er alltaf með þér . Það er enginn munur þar á. Það er alltaf jafn sorglegt

„Gefðu hlýju sem hlýjar öðrum“

Minningarveggurinn

Í desember greindi DV frá því að Gurra hefði, ásamt Guðný Pálsdóttur, staðið fyrir því að minningaveggur var reistur við gamla Íslandsbankahúsið við Lækjargötu í Reykjavík. Á vegginn geta þeir sem eru aflögufærir skilið eftir fatnað, matvöru eða annað nýtilegt. Þeir sem eru þurfandi geta því leitað þangað fyrir hlýjan fatnað og annað.

Gurra sagði í Málið er, að veggurinn hefði reynst vel. „Það var þannig að Guðný Pálsdóttir fékk þessa góðu hugmynd, að setja upp vegg hérna, og hafði samband við mig því ég var stödd á landinu og við drifum bara í þessu og þetta var sett upp á tveimur dögum. Við fengum verktaka og fólk kom bara með skilti og það tók bara einn dag að redda þessu. Ótrúlegt hvað fólk er elskulegt í alla staði.“ Gurra segir furðu sæta að í velmegunar ríkinu Íslandi, séu aðilar sem eigi engan stað til að halla sér að.

„Það á enginn að vera á götunni hérna. 350 þúsund manns sem búa hérna og kannski 200 manns sem að hafa ekki húsaskjól. Þetta er náttúrulega bara skammarlegt. Þetta þarf bara að gera eitthvað við og það strax.“

„Við erum bæði búin að fá peningaaðstoð sem við ætlum að nota í nýjan vegg sem ég er að vona að borgin gefi okkur. Við erum búin að fá allt mögulegt frá fyrirtækjum, skilti og ég veit ekki hvað og hvað,“ sagði Gurra og bætti við að búið sé að hafa samband við yfirvöld til að fá veggnum, sem ætlað var að standa tímabundið, varanlegan stað í borginni.

Sjá einnig: 

Þorbjörn lést á mánudag fimm dögum eftir ákall móður hans – „Elsku fallegi sonur minn, hvíl í friði“

Vinur Þorbjarnar dó þegar hann var keyrður niður – Óttast að Þorbjörn sé næstur – „Það lifa ekki allir kaldan veturinn af“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt