Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, er andsnúin því að orðið „þungunarrof“ sé notað í stað orðsins „fóstureyðing“. Þetta kemur fram í umsögn hennar um frumvarp til laga um þungunarrof. Þar segir hún enn fremur að hún telji frumvarpið of róttækt en ef það verður að lögum þá mun þungunarrof verða heimilt fram að 22. viku.
„Frumvarp til laga um þungunarrof, á þingskjali 521 – 393. mál, ber með sér róttækar breytingartillögur, sem ég tel að séu mjög umhugsunarverðar. Athugasemdir mínar rita ég sem kristin kona og biskup Íslands. Ég styð þann hluta frumvarpsins um að konur taki sjálfar hina erfiðu ákvörðun sem hér er til umfjöllunar. Það eitt og sér er framför frá því sem var. Ég hef heyrt á mörgu fólki í kirkjunni að þeim þykja tillögur þessa frumvarps ganga of langt. Tvennt er það helst í frumvarpinu sem ég tel sérstaklega umhugsunarvert,“ segir Agnes.
Hún telur að orðið „þungunarrof“ sé misvísandi. „Annars vegar sú breyting á hugtakanotkun sem lögð er til, þar sem hugtakið þungunarrof er nú notað í stað þess sem áður var, fóstureyðing. Hið nýja hugtak vísar á engan hátt til þess lífs sem sannarlega bærist undir belti og er vísir að nýrri mannveru. Samkvæmt kristinni trú okkar er lífið heilagt, náðargjöf sem Guð gefur og Guð tekur. Það er hlutverk mannsins að varðveita það og vernda eftir fremsta megni og bera virðingu fyrir mannhelginni, sköpuninni og skaparanum. Það er misvísandi að nota þetta nýja hugtak í þessu viðkvæma samhengi, þar sem hugtakið vísar ekki til þessa vaxandi nýja lífs,“ segir Agnes.
Að hennar mati gengur frumvarpið of langt. „Hins vegar sú breyting á tímarammanum sem lögð er til, þ.e.a.s. að þungunarrof verði heimilt fram að 22. viku, sbr. 4. gr. frumvarpsins. Dæmin þekkjum við þar sem börn hafa fæðst eftir það skamma meðgöngu, braggast og lifað. Samfélag okkar hefur á undanförnum áratugum fundið jafnvægi á milli hinna ólíku sjónarmiða um rétt hinnar verðandi móður yfir eigin líkama og rétt fósturs til lífs, þrátt fyrir þær mótsagnir sem því fylgir. Þar sem 12 vikna tímaramminn hefur verið studdur sjónarmiðum heilbrigðisvísinda, mannréttinda og í framkvæmd sem bestri þjónustu félagsráðgjafa og annarra fagstétta við þær faglegustu aðstæður sem völ er á. Hinar nýju tillögur raska því jafnvægi, að mínu mati, og vekja jafnvel upp á ný grundvallar spurningar, sem við ættum auðvitað alltaf að spyrja okkur að varðandi mannhelgina og framgang lífs hér í heimi,“ segir Agnes.