fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fréttir

Græðgisvæðing og ferköntuð hugsun borgaryfirvalda

Kristján Kristjánsson
Miðvikudaginn 19. september 2018 06:58

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Er verið að fremja umhverfisspjöll með núverandi skipulags- og byggingarstefnu á höfuðborgarsvæðinu og þá einkum innan Reykjavíkur? Að minnsta kosti er það mat Magnúsar Jónssonar, veðurfræðings.

Fréttablaðið birtir í dag grein eftir Magnús þar sem hann fer yfir þetta mál og gagnrýnir borgaryfirvöld, hönnuði og byggingarverktaka.

„Í meira en aldarfjórðung hef ég gagnrýnt hvernig heilu hverfin hafa verið skipulögð og byggð án þess að séð verði að tillit sé tekið til íslensks veðurfars eða landfræðilegrar legu landsins. Ofan á þetta bætist svo að einstakar byggingar eru þannig gerðar að þær geta skapað stórhættu við tilteknar veðuraðstæður.“

Segir Magnús í grein sinni og víkur síðan penna sínum að borgaryfirvöldum, hönnuðum og byggingaverktökum.

„Það sem hefur ráðið för við uppbyggingu og skipulag í höfuðborginni er að mínu mati fyrst og fremst græðgi, tillitsleysi og skammsýni yfirvalda, hönnuða og byggingarverktaka.“

Segir Magnús og bætir við að sú kenning að þétting byggðar sé alltaf til góð hafi leikið stórt hlutverk í þessu þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á að háreist þétting byggðar geti oft skapað meiri vandamál en hún á að leysa. Þetta segir hann að muni örugglega skerða lífsgæði margra.

„Græðgisvæðing miðbæjar Reykjavíkur (Skuggahverfi, Lækjargata og hafnarsvæðið) svo og Grandavegar, Höfðatorgs og Kringlusvæðisins verður örugglega til að rýra lífsgæði margra sem búa fyrir í þessum hverfum. T.d. með vindstrengjum, vindgný og skuggamyndun sem og frekari aukningu á umferðaröng þveiti og rykmengun vegna aukinnar umferðar.“

Enginn skortur á landrými

Magnús segir að það mættii skilja þessa skipulags- og háþéttingarstefnu ef landrými væri af skornum skammti hér á landi eða ef hér byggju milljónir manna en eins og kunnugt er á hvorugt þessara atriða við hér á landi. Hann segir að í Hollandi, sem er eitt þéttbýlasta land Evrópu, hafi hann óvíða sé álíka skipulagslegan hrylling og hér og hafi hann þó komið í margar borgir þar í landi. Síðan víkur Magnús penna að því sem hann kallar gámastíl.

„Með örfáum undantekningum eru nýju hverfin byggð í því sem ég kalla gámastíl. Einfaldir kassar, 5 til 20 hæða með flötum þökum sem ekki eru að neinu leyti í stíl við þá byggð sem fyrir er í borginni eða öðrum bæjum höfuðborgarsvæðisins. Jafnvel þótt verið sé að byggja við hliðina á eldri húsum er ekki reynt að hafa samfelldni í byggðinni eða ná fram heildarsvip. Gott dæmi um þetta eru fimm hæða gámastæðurnar sem reistar hafa verið sunnan við Útvarpshúsið, nánast skagandi út í Bústaðaveginn. Einhver hefði kannski reynt að taka tillit til þeirra formfallegu húsa sem byggð voru fyrir fáum áratugum litlu vestar við götuna.“

Segir Magnús og víkur því næst að líðan fólks vegna byggingarstíls.

„Nýlega hefur komið fram að gámastíllinn og háhýsin valda bæði vanlíðan og depurð hjá mörgum manninum. Er það í fullu samræmi við það sem ég las fyrir margt löngu, að fólki almennt, einkum börnum, liði mun betur í lágum húsum en háum. Þetta á örugglega enn frekar við hér en í öðrum löndum enda hér bæði vindasamara og skuggsælla (sólin lágt á lofti) en víðast hvar annars staðar. Auk þess ku lögun, litir og birta frá húsum skipta máli. Það er því að vonum að hér skulu heilu hverfin byggð svörtum eða dökkgráum háhýsum. Er ég ekki í nokkrum vafa um að slíkt umhverfi hefur mun meiri neikvæð áhrif á líðan fólks heldur en birtutími og stilling klukkunnar á sumar- eða vetrartíma.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu