Þórður Ásmundsson tók ekki við stöðu framkvæmdastjóra Orku náttúrunnar vegna þess að hann var sakaður um kynferðisbrot. Hann átti að taka við stöðunni af Bjarna Má Júlíussyni sem var sagt upp störfum vegna óviðeigandi hegðunar í garð undirmanna. RÚV greindi frá þessu í kvöldfréttum. Berglind Rán Ólafsdóttir hefur tekið við stöðunni og er hún þriðji framkvæmdastjórinn á fjórum dögum.
Málið má rekja til uppsagnar Áslaugar Thelmu Einarsdóttur, undirmanns Bjarna Más. Hún steig fram í morgun og sagði að forstjóri OR hefði vitað af málinu en ekkert gert. Málið rataði svo í fjölmiðla eftir að Einar Bárðarson, eiginmaður Áslaugar, greindi frá því á samfélagsmiðlum, var þá Bjarni Már látinn fara.
Sjá einnig: Áslaug er konan sem var rekin – „Ég ætlaði aldrei að verða ,,þessi kona”
Orka Náttúrunnar er dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur. Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, óskaði svo eftir því í dag að stíga tímabundið til hliðar.
Einar segir á Twitter í kvöld:
„Þrír framkvæmdastjórar á fjórum sólarhringum. Forstjórinn flýr út um bakhurðina. En enginn hefur sagt konunni minni fyrir hvað hún var rekin. Er þetta ekki komið gott?“