Brunavarnir Suðurnesja hafa rýmt húsnæði í eigu bæjarfulltrúans Magnúsar Sigfúsar Magnússonar, oddvita H-listans í sameinuðu sveitarfélagi Sandgerðis og Garðs, sem DV fjallaði um á dögunum. Ástæða rýmingarinnar var sú að stofnunin taldi húsnæðið ekki öruggt fyrir fólk að búa í. Samkvæmt heimildum DV var ástandið innandyra slæmt. Magnús Sigfús, sem einnig er formaður Verkalýðs- og Sjómannafélags Sandgerðis, hefur um tíma leigt út íbúðarrými í ólögulegu iðnaðarhúsnæði og haft af því umtalsverðar tekjur. Þá hefur Magnús Sigfús viðurkennt að hafa veitt einstaklingi húsaskjól gegn því að hann ynni fyrir leigunni með skiptivinnu. Verkalýðshreyfingin háði harða baráttu til þess að útrýma slíkum viðskiptaháttum á árum áður.
Í samtali við DV segir Jón Guðlaugsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, að starfsmenn stofnunarinnar hafi farið í eftirlitsferð í umrætt iðnaðarhúsnæði daginn eftir að blaðamaður hafi haft samband við hann vegna málsins. „Við fórum í skoðun þarna eftir að grein um þetta ákveðna húsnæði birtist og þetta leit alls ekki vel út. Eiganda var tilkynnt á staðnum að notkun á húsnæðinu til leigu sem íbúðarhúsnæði væri bönnuð og hann beðinn um að sjá til þess að húsnæðið yrði rýmt. Ég veit að það er í gangi að útvega fólki nýtt húsnæði og ég veit að að minnsta kosti ein fjöldskyldan sem var með börn þarna er komin út og í annað húsnæði.“ Jón hefur ekki fengið staðfest að allir séu farnir úr húsnæðinu en hann ætlar að sjá til þess að það verði gert fyrir helgi. Þegar Jón var spurður útí hversu slæmt ástandið var útfrá brunavörnum sagði hann: „ Við mátum aðstæður með þeim hætti að það væri ekki hægt að líða það að það væri fólk búandi þarna“.
Þegar blaðamenn DV fóru á staðinn á sínum tíma var augljóst að húsnæðið sem Magnús Sigfús var að leigja út sem íbúðarhúsnæði stóðust litlar sem engar kröfur sem gerðar eru til slíks húsnæðis. Meðal annars voru engar brunavarnir til staðar. Þegar haft var samband við Jón Ben Einarsson, byggingarfulltrúa Sandgerðis og Garðs, og hann spurður útí hvort einhver vinna væri hafin við að skoða brot Magnúsar svaraði hann: „Nei, ég hef ekki brugðist neitt við þessu ennþá. Ég er alveg yfirhlaðinn og þetta er mál sem verður tekið fyrir á komandi misserum. Það er náttúrulega verið að bíða eftir nýrri bæjarstjórn og nefndum og svo framvegis.“ Spurður hvort það væri ekki hans hlutverk að bregðast við þessum málum innan bæjarfélagsins sagði hann: „Ég er ekki að fara í einhverjar eftirlitsferðir um sveitarfélagið að kanna hvernig aðstæður eru. Þetta er ekki forgangsmál“.
Þegar DV greindi frá málinu var H-listinn, sem Magnús Sigfús er í forsvari fyrir, í meirihlutaviðræðum við Sjálfstæðisflokkinn í hinu sameinaða sveitarfélagi. Upp úr þeim viðræðum slitnaði skömmu síðar. Þegar DV hafði samband við Magnús Sigfús Magnússon vegna málsins sagði hann: „No comment“ og skellti á blaðamann.