Hætt hefur verið við ráðstefnu sem ber heitið Fjölmenningin í Evrópu: Vandamál og lausnir þar sem Tommy Robinson, stofnandi English Defense League, átti að halda erindi. Vakur, samtök um evrópska menningu, standa fyrir ráðstefnunni. Í samtali við DV staðfestir Sigurfreyr Jónasson, skipuleggjandi ráðstefnunnar, að ekkert verði af henni vegna fjarveru aðal ræðumannsins Tommy Robinsson.
Sigurfreyr átti von á Tommy til landsins í gær, en Tommy missti af flugi sínu vegna þess að dekk hafi sprungið á bíl hans. Því var ákveðið að bóka annað flug í morgun. „Aðstoðarmaður hans hafði samband við okkur í gær og sagði okkur að það hefði sprungið dekk á bílnum þeirra á leið upp á flugvöll og þeir ekki hafa viljað skilja bílinn eftir og þess vegna misstu þeir af fluginu. Það var svo sem ekkert vandamál og var rætt að bóka bara annað flug í morgun með Easyjet,“ segir Sigurfreyr.
Þegar Sigurfreyr mæti upp á Keflavíkurflugvöll í morgun að sækja Tommy kom í ljós að hann hefði ekki verið í fluginu sem um var talað. „Við erum búnir að bíða hérna í yfir tvo tíma hérna upp á flugvelli en það er enginn Tommy,“ sagði Sigurfreyr í þegar blaðamaður DV hafði samband við hann í morgun. „Við spurðum hvort hann hefði mögulega verið tekinn í tollinum en svo var ekki.“ Sigurfreyr fékk svo tölvupóst stuttu seinna frá aðstoðarmanni Tommy um að hann myndi ekki koma til landsins og þar sem það hefði orðið dauðsfall í fjölskyldunni. Því hefur ráðstefnunni verið aflýst. „Ég vil vita hver dó,“ segir Sigurfreyr ósáttur.