Kínversk yfirvöld vinna nú hörðum höndum að gangsetningu eftirlitskerfis sem á að fylgjast grannt með nær öllu því sem landsmenn taka sér fyrir hendur. Fólki verða síðan gefin stig eftir því hvernig það hegðar. Eftirlitskerfið er nú keyrt til reynslu í nokkrum borgum en stefnt er að fullri gangsetningu þess um allt land 2020.
Kerfið mun gefa fólki plús- og mínusstig. Fólk mun til dæmis fá mínusstig fyrir að ganga yfir á rauðu ljósi og gleyma að afpanta borð á veitingastað. Þetta virðast kannski ekki vera stórar yfirsjónir en þær geta haft alvarlegar afleiðingar í Kína. Ef stigastaða fólks er slæm getur svo farið að því verði bannað að ferðast flugleiðis, ferðast með háhraðalestum og það getur lent í vandræðum með að finna vinnu eða maka. En ef viðkomandi er góður borgari sem gefur blóð, tekur þátt í sjálfboðaliðsstarfi eða gefur peninga til góðgerðarmála fær hann plússtig á reikninginn sinn.
Það mætti kannski halda að ofangreindar lýsingar séu teknar úr bók George Orwell ´1984´, sem lýsir lífinu í alræðissamfélagi, en svo er nú ekki, þetta er blákaldur raunveruleiki.
Nýja kerfið á að fylgjast með landsmönnum, bæði á netinu og utan þess. 772 milljónir netnotenda eru í Kína, flestir nota farsíma til að fara á netið. Þessi mikla netnotkun veitir góð tækifæri til að fylgjast með fólki og safna upplýsingum um það. Rafrænu fótsporin verða síðan tengd við það sem fólk gerir í hinu raunverulega lífi, til dæmis hvar það verslar eða hverja það hittir. Til að gera þetta verður notast við tækni sem ber kennsl á andlit en sú tækni er nú þegar mikið notuð í Kína. En til að þetta virki eins og vera skal þarf að fjölga eftirlitsmyndavélum í landinu töluvert. Þær eru nú 176 milljónri en eiga að vera orðnar 626 milljónir 2020 eftir því sem segir í umfjöllun TechNode.
Allt þetta eftirlit og stigagjöfin á að gagnast yfirvöldum við að ala Kínverja upp sem góða þjóðfélagsþegna og tryggja öryggið í landinu. En þegar upp er staðið snýst þetta allt um að hafa stjórn á samfélaginu og koma í veg fyrir óróleika og mótmæli almennings. Sem sagt að tryggja alræði kommúnistaflokksins.
Þrátt fyrir að eftirlitskerfið verði ekki komið í fulla notkun fyrr en 2020 þá tilkynnti hæstiréttur á síðasta ári að rúmlega 6 milljónir Kínverja hefður verið sviptir rétti til að ferðast með flugvélum eða járnbrautarlestum vegna hegðunar þeirra. Það má því kannski segja að raunveruleikinn í Kína sé kominn skrefinu lengra í Black Mirror þáttaröð Netflix en þar fá áhorfendur að kynnast ungri konu sem á í miklum vanda því samferðarfólk hennar í lífinu hefur gefið henni fá samfélagsleg stig.