fbpx
Miðvikudagur 04.desember 2024
Fréttir

Minningarorð um Stefán Kristjánsson stórmeistara

Stefán lést í vikunni aðeins 35 ára að aldri – Fyrsti íslenski stórmeistarinn sem fellur frá

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 2. mars 2018 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þau hörmulegu tíðindi bárust í vikunni að Stefán Kristjánsson, stórmeistari í skák, er látinn. Stefán fæddist þann 8. desember árið 1982 og var því aðeins 35 ára gamall þegar hann lést. Hann er fyrsti stórmeistari Íslands sem fellur frá. Óhætt er að fullyrða að hann var einn hæfileikaríkasti skákmaður sem Ísland hefur eignast auk þess sem hann heillaði flesta sem honum kynntust með persónutöfrum sínum, greind og kímnigáfu.

Byrjaði að tefla á „gamals aldri“

Stefán var 11 ára þegar hann byrjaði að tefla í Melaskóla. Það má nánast segja að hann hafi byrjað að tefla á „gamals aldri“ því yfirleitt byrja skákmenn um 5–6 ára aldur og yngstu stórmeistarar heims í dag eru 13–14 ára – þrautþjálfaðir reynsluboltar. Það kom strax í ljós að Stefán hafði ótrúlega hæfileika til skákiðkunar og hann flaug hratt upp metorðastigann. Sá er þessi orð ritar var á sínum tíma í hópi bestu unglinga landsins þegar Stefán hóf taflmennsku. Sá hópur kunni ákaflega vel við sig í efstu sætum innlendra skákmóta og flestum varð ekki um sel þegar nýliðinn byrjaði að leggja mann og annan og nálgast þá hratt í getu.

Það var ekki síst vegna þeirrar staðreyndar að Stefán bar enga virðingu fyrir sér eldri og reyndari mönnum. Í stað þess að brosa af þakklæti yfir að fá að mæta kempum eins og undirrituðum á unglingaskákmótum og leggjast síðan samviskusamlega á höggstokkinn þá barðist hann um á hæl og hnakka, blés til sóknar eins og ekkert væri sjálfsagðara og gerðist meira að segja svo djarfur að pína andstæðinga í leiðinlegu endatafli í stað þess að sættast á skiptan hlut.

Til að bæta gráu ofan á svart reif hann oft kjaft eftir skákir en þó alltaf á góðlátlegan hátt og með húmorinn að vopni. Við, hinir eldri, vorum sem slegnir yfir þessum unga nýliða sem virti ekki þann sjálfsagða skákvaldastrúktúr, að okkar mati, sem hafði verið mörg ár að skapast. Þess vegna fékk Stefán viðurnefnið „Pönkið“ því hann var eins manns uppreisn í skáksamfélaginu! Kunni hann vel að meta þetta viðurnefni.

Skapaði ódauðleg listaverk á skákborðinu

Stefán var með gríðarlega meðfædda hæfileika sem skákmaður. Hann hafði frábæra getu til þess að reikna út leikjaraðir og sjá þær fyrir sér í huganum. Þá var minni hans afar öflugt auk þess sem hann hafði til brunns að bera mikla þolinmæði. Það gerði að verkum að hann var afar útsjónarsamur að bjarga sér úr erfiðum og leiðinlegum stöðum þar sem meðalmaðurinn bugast.

Einn helsti styrkleiki Stefáns var sá að hann var með stáltaugar. Það var á köflum töfrum líkast að sjá hann halda fullkominni ró sinni þegar skákklukkan taldi niður síðustu sekúndurnar í skákinni og andstæðingurinn taldi að sigur væri innan seilingar. Þá tók Stefán yfirleitt við sér og lék ógnarsterkum leikjum af mikilli yfirvegun. Í aðstæðum sem þessum skjálfa reyndir skákmeistarar oft af stressi en Stefán haggaðist ekki. Bar hann til dæmis sigurorð af hinum þekkta bosníska stórmeistara og Íslandsvini, Ivani Sokolov, í slíkum aðstæðum á Evrópumóti taflfélaga árið 2007. Skákin var frábærlega tefld af hálfu Stefáns, sérstaklega þegar haft er í huga að hann tefldi bróðurpartinn í bullandi tímahraki.

Eitt hið skemmtilegasta við skáklistina er sú staðreynd að haldið er utan um skákir í helstu mótum í sérstökum gagnagrunnum sem nokkur fyrirtæki gefa út. Þar eru hundruð listaverka Stefáns á hinum sextíu og fjórum reitum varðveitt og munu þau vonandi ylja vinum hans og ástvinum um ókomna tíð. Þar reisti Stefán sér marga glæsilega minnisvarða sem aldrei munu falla.

Fastamaður í landsliði Íslands

Stefán varð alþjóðlegur meistari í skák árið 2002, þá nítján ára gamall. Hann var á undan flestum af sinni
kynslóð og óumdeilt var að hann var orðinn sá sterkasti í hópnum og einn sá allra sterkasti á Íslandi. Hann hafði stungið okkur alla af. Hann reykspólaði síðan enn frekar yfir samkeppnina með því næla sér í þrjá áfanga af stórmeistaratitli á næstu árum en sá síðasti kom í hús árið 2006. Með réttu hefði Stefán átt að verða stórmeistari þá þegar.

Á þessum árum, 2000–2008, var Stefán fastamaður í landsliði Íslands. Hann tefldi níu sinnum fyrir Íslands hönd á þessum árum. Fimm sinnum á Ólympíuskákmóti og fjórum sinnum á Evrópumóti landsliða. Árangurinn var iðulega eftirtektarverður.

Skákin hafði hins vegar vikið fyrir öðru áhugamáli og því tefldi Stefán lítið næstu ár. Blessunarlega setti hann þó smá kraft í verkefnið að lokum og árið 2011 komst Stefán yfir 2.500 stiga markið og hafði þar með uppfyllt allar kröfur stórmeistaratitilsins. Hann var útnefndur stórmeistari á 82. þingi FIDE – alþjóða skáksambandsins sem haldið var dagana 15.–22. október 2011 í Kraká í Póllandi. Hann var tólfti íslenski skákmaðurinn sem hlaut þá tign. Fáa hefði grunað að Stefán yrði fyrsti íslenski stórmeistarinn til þess að falla frá.

Fórnarlamb fíknar

Stefán fékk mikinn áhuga á póker í kjölfar vinsælda íþróttarinnar í sjónvarpi. Á þeim vettvangi nýttust hæfileikar hans afar vel, frábær geta hans til útreikninga, þolinmæði og stáltaugar. Á stuttum tíma hagnaðist Stefán vel á spilamennskunni og varð eins konar goðsögn meðal íslenskra pókeráhugamanna. Sé leitað eftir notendanöfnum hans á netinu á Google má sjá umfjöllun um viðureignir hans við heimsþekkta pókerspilara þar sem háar fjárhæðir voru undir í hvert skipti.

Árið 2010 varð Stefán fyrir gríðarlegu áfalli þegar móðir hans, Margrét Stefánsdóttir, lenti í hræðilegu slysi. Margrét var að hjóla heim á leið í Vesturbæ Reykjavíkur þegar hún féll af hjólinu og slengdist utan í gangstéttarbrún. Afleiðingar slyssins urðu þær að Margrét hefur síðan þurft hjálp við allar athafnir daglegs lífs. Systur Stefáns, Lára Kristín og Anna Margrét, tjáðu sig um þessa erfiðu lífsreynslu í viðtali við DV árið 2014 sem vakti mikla athygli.

Í gegnum pókerinn komst Stefán í kynni við einstaklinga í undirheimum höfuðborgarinnar og hóf að fikta við neyslu fíkniefna. Sá djöfull læsti klóm sínum í hann og sleppti aldrei takinu. Fallinn er frá hæfileikamaður sem skaraði fram úr í öllu því sem hann hafði áhuga á. Hugur hans var engum líkur og það mun taka íslenskt skáklíf langan tíma að jafna sig á þessu reiðarslagi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Enn einu gjaldþrotinu hjá Birni Inga lokið

Enn einu gjaldþrotinu hjá Birni Inga lokið
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Viktoría var skilin eftir allslaus í flugstöðinni í Tbilisi – „Hún er peningalaus og kortalaus. Hrædd, kvíðin og ráðþrota“

Viktoría var skilin eftir allslaus í flugstöðinni í Tbilisi – „Hún er peningalaus og kortalaus. Hrædd, kvíðin og ráðþrota“
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Segir rússneska herinn vera eins og „hjólaskóflu“

Segir rússneska herinn vera eins og „hjólaskóflu“
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Segir að Úkraína hafi þörf fyrir skotfæri en ekki friðarferli

Segir að Úkraína hafi þörf fyrir skotfæri en ekki friðarferli
Fréttir
Í gær

Stjórnarmyndunarviðræður hefjast á morgun – „Valkyrjurnar eru komnar til að sjá og sigra“

Stjórnarmyndunarviðræður hefjast á morgun – „Valkyrjurnar eru komnar til að sjá og sigra“
Fréttir
Í gær

„Enginn á að vera hryggur um jólin“

„Enginn á að vera hryggur um jólin“