Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi er í öðru sæti á lista þingmanna yfir þá sem keyrðu mest á kostnað Alþingis í fyrra. Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokksins í sama kjördæmi og Vilhjálmur, hefur verið gagnrýndur harðlega í vikunni og jafnvel verið þjófkenndur fyrir að hafa keyrt 47.644 km árið 2017 og fengið fyrir það samtals 4,6 milljónir króna í greiðslur frá Alþingi.
Vilhjálmur staðfesti í samtali við DV að hann sé þingmaðurinn í öðru sæti og hafi keyrt 35.065 km í fyrra og fengið fyrir það 3,4 milljónir í greiðslur frá Alþingi. Hann segir gagnrýnina á Ásmund ekki vera réttmæta. „Það er allt í lagi að kalla eftir þessum upplýsingum og að það sé uppi á borðinu, en það sem vantar inn í umræðuna er að allar upplýsingar séu birtar saman í samhengi. Húsnæðisstyrkurinn, bílaleigukostnaðurinn, flugkostnaðurinn, hótelkostnaðurinn. Ég er í öðru sæti á þessum lista en yfir heildar aukagreiðslurnar þá er ég ekkert í öðru sæti,“ segir Vilhjálmur í samtali við DV.
Ekki liggur fyrir hvaða þingmenn eru í þriðja, fjórða og fimmta sæti. Vísir greindi frá því að Oddný G. Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar sé í sjötta sæti með 23 þúsund kílómetra og 2,4 milljónir í greiðslur. Silja Dögg Gunnarsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins er í áttunda sæti með 18 þúsund kílómetra og 1,9 milljónir. Páll Magnússon þingmaður Sjálfstæðisflokksins er svo í níunda sæti með 12 þúsund kílómetra og 1,1 milljón í greiðslur frá þinginu.