Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir að hann hafi aldrei þegið greiðslur vegna húsnæðis þó hann eigi rétt á því. Sigmundur Davíð hefur verið í fréttum vegna lögheimilisflutninga hans árið 2013. Á árunum 2009 til 2013 var hann þingmaður Reykjavíkur en árið 2013 flutti hann lögheimilið á Hrafnabjörg III í Jökulsárhlíð þar sem hann hefur aldrei haldið heimili. Í desember í fyrra flutti hann svo lögheimilið til Akureyrar eftir að fyrri lögheimilisskráning var kærð.
DV ræddi við nokkra þingmenn í Norðaustur- og Norðvesturkjördæmi sem sögðust allir þiggja greiðslur fyrir að halda tvö heimili, annað í kjördæminu og annað á höfuðborgarsvæðinu. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, hefur búið í Seljahverfinu í Breiðholti í minnst 30 ár ásamt því að vera með lögheimili í Þistilfirði og þiggur mánaðarlegar greiðslur fyrir.
Sigmundur Davíð segir að hann sjálfur hafi aldrei þegið neinar greiðslur frá Alþingi vegna húsnæðis þrátt fyrir að hann eigi rétt á að fá 134.041 krónur á mánuði í húsnæðis- og dvalarkostnað.