Í viðtalinu segir Bára að það hafi verið mikið áfall að heyra þingmennina sex hæðast að fötluðu fólki og hinsegin fólki og tala niðrandi um konur. Hún segist stundum hafa átt erfitt með að sitja á sínum stóra.
„Helst langaði mig bara að standa upp og spyrja: Heyriði ekki í sjálfum ykkur? Vitiði ekki að það er fleira fólk hérna inni?“
Segir Bára sem segist hafa verið í hálfgerðu áfalli þegar hún kom heim og hafi sagt konu sinni frá því sem hún hafði upplifað á barnum.
„Ég spilaði hluta af upptökunni fyrir hana og hún var orðlaus. Það sem okkur fannst svo ótrúlegt er að þau skyldu ná að pakka öllu þessu hatri og ógeði inn á aðeins örfáar klukkustundir.“
Segir Bára og spyr hvort hún eigi að trúa því að þessar umræður hafi verið algjört undantekningartilvik, að sexmenningarnir tali ekki svona venjulega? Að stefna þeirra og pólitík sé ótengd þessum viðhorfum sem komu fram í samræðum þeirra?