Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann hafnar því alfarið að hafa beitt Sigrúnu Helgu Lund andlegu ofbeldi eða áreitni af neinu tagi. Greint var frá því í morgun að hún hefði sagt upp starfi sínu við skólann vegna viðbragða við áreitni.
Sjá einnig: Sigrún löðrungaði yfirmanninn eftir áralanga áreitni í Háskólanum
„Eftir farsælt samstarf komu upp erfiðleikar á milli okkar, og ég neyddist á endanum til að víkja henni úr rannsóknahóp mínum. Í kjölfarið gerði hún sig seka um tilefnislausa líkamsárás á skrifstofu minni í vitna viðurvist og hafði í hótunum við mig. Sá atburður var mér og öðru samstarfsfólki okkar mikið áfall,“ segir Sigurður í yfirlýsingunni.
Hann segir að hann ekki viljað tjá sig opinberlega um samstarf sitt við Sigrúnu og ástæður þess að því samstarfi lauk. Í ljósi ásakanana vildi hann koma ákveðnum hlutum á framfæri og vísar í ákvörðun siðanefndar HÍ:
Siðanefndin gaf út ákvörðun sína í málinu 9. júlí síðastliðinn og eru ákvörðunarorð hennar eftirfarandi, samkvæmt Sigurði:
Siðanefnd Háskóla Íslands vísar frá þeim kæruatriðum sem fjallað er um undir liðum 1 og 2 þar sem kæran telst í þessum tilvikum hafa verið tilefnislaus, sbr. 4. gr. starfsreglna siðanefndar. Í lið 3 er fjallað um greinar 1.3.1 og 1.3.4., í siðareglum Háskóla Íslands. Niðurstaða nefndarinnar er að ekki sé um brot að ræða að hluta, en brot að hluta auk brots á jafnræðisreglu 1.3.2. Brotið telst ekki alvarlegt. Þá er hluta þessa liðar vísað frá vegna skorts á upplýsingum, sbr. 9. gr. starfsreglna nefndarinnar. Liðum 4 og 5 er vísað frá þar sem málsgrundvöllur er ekki til staðar, sbr. 9. gr. starfsreglna nefndarinnar.
„Eins og sést af ákvörðunarorðum nefndarinnar er öllum kæruatriðum hafnað eða vísað frá nema einu kæruatriði sem varðaði breytingu á skipan stýrihóps, sem fól í sér að Sigrún fór úr honum, sem siðanefndin taldi þó ekki alvarlegt, og var Sigrún tekin aftur inn í stýrihópinn síðar. Öllum ásökunum um áreitni var því hafnað enda enginn fótur fyrir slíkum ásökunum,“ segir Sigurður í yfirlýsingunni.
„Mér þykir leitt að Sigrún kjósi að fara fram með rangar ásakanir í minn garð en óska henni alls hins besta.“