„Enn jólin og alltaf jafn kær segir í fallegum jólatexta við eitt af mínum uppáhaldsjólalögum. Ég heyrði fyrir nokkrum dögum í ungri konu sem hefur af hlýju og alúð lagt sig fram um að hjálpa okkar minnstu bræðrum og systrum. Hún er ein af mörgum kærleiksríkum manneskjum sem telja ekki eftir sér að berjast gegn fátækt og fyrir því réttlæti sem við svo mörg erum að kalla eftir.“
Svona hefst grein eftir Ingu Sæland, þingmann og formann Flokks fólksins, í Morgunblaðinu í dag.
Inga segir að hún hafi verið á leið upp í þingsal en dagskrá þingfundarins hófst á dagskrárlið sem nefnist störf þingsins.
„Ég vissi hvað ég vildi tala um, þ.e. þau augljósu svik sem ríkisstjórnin hefur framið á öryrkjum og öllum þeim sem bágast standa í samfélaginu. Ég var og er að reyna að kyngja gallbragðinu sem nýja fjárlagafrumvarpið orsakaði,“ segir Inga sem bætir við að það feli í sér enga kjarabót fyrir öryrkja eða aldraða.
„Nei, einungis lögbundin leiðrétting á greiðslum úr almannatryggingum. Forgangsröðun fjármuna sú m.a að lækka frekar bankaskattinn um 63% sem kostar ríkissjóð sjö milljarða króna og veiðigjöldin um 4,3 milljarða króna sem nýtist að mestu leyti stórútgerð og sægreifum sem sannarlega eru ekki blankir fyrir,“ segir Inga og bætir við að hér sé verið að tala um 11,3 milljarða króna. „Hugsið ykkur bara hvað hefði verið hægt að ráðstafa þessu fé okkar á sanngjarnari hátt,“ segir Inga sem rifjar svo upp eftirminnilegt símtal sem hún fékk rétt áður en þingfundur hófst.
„Klukkuna vantaði 20 mínútur í þingfund þegar síminn minn hringdi. Það var góður vinur sem iðulega hefur spilað tónlist fyrir Hjálpræðisherinn. Hann bað mig að eiga orð við unga konu sem væri mikið niðri fyrir eftir fyrri jólaúthlutun Hersins í ár sem fram fór daginn áður,“ segir Inga sem ræddi við konuna.
„Ég og þessi huldukona, sem ég hef aldrei hitt, heilsuðumst og síðan tók hún til máls. Sagði mér hvað hlutirnir hefðu versnað frá því í fyrra, hvað hrikalega margir ættu bágt fyrir þessi jól. Fólk sem hefur 10-15 þúsund krónur á viku til að lifa af. Þetta er fólkið sem kvíðir jólunum. Okkar minnstu bræður og systur sem stjórnvöldum virðist sama um. Það hreinlega þyrmdi yfir mig. Af hverju er þetta svona í öllu þessu yfirlýsta góðæri? Er það kannski bara eintóm lygi eða er það eyrnamerkt græðgi og hagsmunagæslu fárra útvalinna? Svarið er já og aftur já,“ segir Inga sem er verulega ósátt við stöðu mála í dag. Ríkisstjórnin lækki skatta og álögur á þá ríku en heldur áfram að kúga þá sem minnst hafa. Inga endar grein sína á skilaboðum til þjóðarinnar, til þeirra sem ef til vill eru aflögufær.
„Okkur dreymir öll um gleðileg jól í faðmi fjölskyldu og vina. Þess vegna bið ég ykkur sem eruð aflögufær að styrkja það ómetanlega hjálparstarf sem unnið er í þágu þeirra sem eiga bágast í samfélaginu. Eitt er víst: sælla er að gefa en þiggja og við getum með gjafmildi og kærleika dimmu margra í dagsljós breytt. Guð gefi ykkur öllum gleðilega jólahátíð.“