Indigo Partners LLC og WOW air hafa komist að samkomulagi um að Indigo fjárfesti í félaginu. Frá þessu var greint í tilkynningu á heimasíðu WOW air skömmu fyrir klukkan 22. Skilmálar samkomulagsins eru ekki tíundaðir nánar á tilkyningunni og því liggur ekki fyrir um hversu stóra fjárfestingu er að ræða.
Í morgun var greint frá því að Icelandair og WOW air hefðu komist að sameiginlegri ákvörðun um að Icelandair hætti við kaupin á WOW air. Strax í kjölfarið sagði Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri WOW air, að hann vonaðist til að geta fært starfsfólki félagsins gleðifréttir í náinni framtíð.
Í tilkynningunni kemur fram að um bráðabirgðasamkomulag sé að ræða og munu fulltrúar Indigo og WOW setjast niður og vinna að endanlegu samkomulagi sem vonast er til að klárist fljótt. Haft er eftir Skúla að hann hlakki til að vinna með Indogo og kveðst hann sannfærður um að þetta sé besta lendingin fyrir félagið, starfsfólk og viðskiptavini þess. Eftirspurn eftir lággjaldaflugi sé enn mikil og með Indigo sér við hlið geti félagið haldið áfram að anna þessari eftirspurn.
Indigo Partners er framtaksfjárfestingarsjóður sem var stofnaður árið 2003. Hefur sjóðurinn einkum beint sjónum sínum að fjárfestingum í flugsamgöngum. Er félagið einn stærsti hluthafi Wizz Air en auk þess hefur félagið komið að fjárfestingum í félögum á borð við Tiger Airways í Singapúr og Spirit Airlines í Flórída í Bandaríkjunum.