„Það kristallast einna skýrast í 257 milljóna framúrkeyrslu þegar Reykjavíkurborg ákvað að verja, eða eyða eftir því hvernig á það er litið, fjármunum í endurbyggingu á bragga og tengibyggingum. Áætlað var að verja 158 milljónum króna í verkefnið en kostnaðurinn er nú þegar kominn í 415 milljónir – án þess að verkefnið sé fullklárað. Kostnaður braggans er enn eitt dæmið um forystuleysi í Reykjavík.“
Segir Áslaug og bendir á að enginn einstaklingur, fjölskylda eða einkafyrirtæki hefði þolað kostnað sem þennan eða umframkeyslu í tengslum við framkvæmd.
„Það virðist þó gilda önnur lögmál um hið opinbera þar sem alltaf er hægt að ganga lengra, seilast aðeins dýpra og virða að vettugi áætlanir og eðlilegan kostnað. Enginn kostnaðarliður fór í útboð, það kemur lítið á óvart þegar rýnt er í sundurliðun á kostnaðinum við verkið. Auðvelt er að reka í rogastans þegar ástandsskoðun ein og sér kostar 27 milljónir króna, eða um það bil jafn mikið og lítil íbúð í einu af nágrannasveitarfélögum borgarinnar. Ef við gefum okkur að tímagjald verkfræðings sé um 18.600 kr. á klukkustund (15 þús.kr. + vsk) þá má ætla að um 1.450 klst hafi farið í verkefnið, eða rúmir átta mánuðir fyrir einn mann í fullri vinnu. Líklega hefur ekkert hús á landinu farið í gegnum jafn dýra ástandsskoðun.“