Flugvélar fljúga allt of nálgægt Heklu og þar sem hún gýs með svo litlum fyrirvara gæti flugvél hæglega farist í Heklugosi. Að sögn Páls Einarssonar jarðfræðings býður það hættunni heim að ferðast um í Heklu því þar getur gosið með allt niður í 20 mínútna fyrirvara:
„Ef það er gönguhópur í hlíðum fjallsins þegar menn sjá þessi merki þá er of seint að láta þá vita því þeir eru þegar lentir í vandræðum,“ segir Páll í þættinum Kveik sem er á dagskrá RÚV í kvöld en efni þáttarins að þessu sinni eru íslensku eldfjöllin.
Um flughættu vegna eldgoss í Heklu segir Páll: „Það vill svo til að Hekla er beint undir flugleið, einni af aðalflugleiðunum yfir Atlantshafið, og það fljúga semsé flugvélar beint yfir toppinn á Heklu alltof oft. Líkurnar á því að Hekla skjóti niður farþegaflugvél hreinlega í byrjun næsta goss, þær eru semsé umtalsverðar.“
Hekla er eitt virkasta og þekktasta eldfjall á Íslandi og gaus síðast árið 2000 og þar áður árið 1991.