WOW air mun í dag hefja sölu á flugsætum til Vancouver í Kanada en áætlunarflug þangað hefst þann 6. júní. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu en þar segir að flogið verði sex sinnum í viku til að byrja með, á mánudögum, þriðjudögum, miðvikudögum, fimmtudögum, föstudögum og sunnudögum.
Flogið verður í Airbus A321 vélum og er brottför frá Keflavík kl 17:20. Flugtíminn er tæpir átta klukkutímar en lent er í Vancouver klukkan 18:15 að staðartíma.
„Í kjölfar mikillar velgengi í Kanada höfum við ákveðið að bæta Vancouver við leiðarkerfi okkar. Það er frábært að geta boðið enn fleirum upp á þann valkost að fljúga ódýrt yfir hafið,“ segir Skúli Mogensen, eigandi og forstjóri WOW air, í tilkynningunni.
„Vancouver er vinsæll áfangastaður meðal ferðalanga. Staðurinn státar af stórbrotinni náttúrufegurð auk þess sem Vancouver býr yfir öllu því besta sem einkennir stórborgir, fjölbreyttu mannlífi og menningu. Þá hefur Stanley Park notið mikilla vinsælda en þar er hægt að finna eitthvað við allra hæfi og til dæmis strendur, vatnagarða og golfvöll,“ segir að lokum.