Innan lokaða Facebook-hópsins Femínistapotturinn er hart tekist á um hvort tattú sem á stendur „Men are Trash“ eða „karlmenn eru rusl“ sé valdeflandi eða einfaldlega karlahatur. Áberandi er að sumir femínistar ráðast sérstaklega á karlmenn sem gagnrýna tattúið meðan lítið er sagt við konur sem telja tattúið vafasamt. Andrea Gunnarsdóttir hóf umræðuna fyrir helgi en hún deildi mynd af tattúinu umdeilda og sagði: „Vinkona mín fékk sér þetta í dag. Þvílík rokkstjarna.”
Málið minnir nokkuð á mál Kristins Sigurjónssonar en þrír kvenkyns kennarar lýsa sig á einhvern hátt sammála skilaboðunum. Kristinn sagðist helst ekki vilja vinna með konum innan lokaða Facebook-hópsins Karlmennskuspjallið og var í kjölfarið rekinn.
Tekist er á um myndina af húðflúrinu á ýmsum forsendum. Ein segir að húðfúrið sé ætlað til að fæla karlmenn frá og það komi ekki öðrum við hvaða húðflúr þeir setja á líkama sinn. Þá benda margir á að það sé auðvitað val konunnar hvaða húðflúr hún fær sér en sú hætta sé fyrir hendi að það sé líklegra til að draga að misvandaða menn en að fæla þá frá, sem vilji þá lesa yfir viðkomandi. Þá segja aðrir að þeir skilji þessa ákvörðun en sé ekki besta lausnin. Einnig má finna athugasemd þar sem bent er á að um listræna tjáningu einstaklings sé að ræða og ekki viðeigandi að taka það fyrir á netinu. Þessu eru margir í hópnum ekki sammála, finnst húðflúrið óviðeigandi og skilaboð sem þessi verði eingöngu til þess að skapa úlfhúð og tefja fyrir að jafnrétti verði náð.
Hrafn Malmquist var fyrstur til að gagnrýna tattúið og segir: „Ég er ekki hrifinn. Of neikvæð orka.“ Viðbrögðin innan hópsins voru nær alfarið á eina leið og gerðu femínistar lítið úr gagnrýni hans á kaldhæðinn máta. „Karlmaður ekki hrifinn? Ég er í sjokki!,“ skrifar Rut Einarsdóttir meðan Linda Sæberg segir: „Vá hvað þú ert næs gæji að segja henni hvernig tattooið hennar á að vera. ég vildi að það væru fleiri í heiminum eins og þú“.
Hrafn svarar fyrir sig og segir gert lítið úr hans skoðun. „Þetta er fátæklegur femínistaumræðuvettvangur ef því er alltaf snúið upp á karlmenn að þeirra skoðanir séu ómerkilegar vegna þess að þeir eru karlmenn.“ Þessu svarar Silja Ástudóttir: „Takk fyrir að vera til staðar Hrafn, fyrir alla konukjánana. Skoðun þín skiptir öllu máli.“
Hrafn fékk svo fleiri kaldhæðnisathugsemdir en athugasemdirnar telja tugum. Hann veitir því þó athygli að kona sem sagði það sama og hann fékk ekki sömu háðsglósur. „Það er mjög athyglisvert að efnislega er athugasemd Hrannar hérna fyrir neðan sú sama og mín en þar skapast engin umræða og hún ekki beðin um að gera grein fyrir hvað hún á við,“ segir Hrafn.
Hildur Ýr Ísberg, menntaskólakennari við Fjölbrautaskólann í Garðabæ, segist skilja konuna sem fékk sér tattúið. „Ég skil hana. Suma daga tekur það meiri orku en ég á til að vera kona í samskiptum við karlmenn. Til dæmis í dag,“ segir Hildur Ýr.
Annar kennari, Kristjana Ásbjörnsdóttir, lektor í Bandaríkjunum, segir grundvallarmun á því að segja að karlar séu rusl og konur séu rusl: „Mér finnst mjög áhugavert hversu mörg hérna inni fara beint í „væri women are trash í lagi?“ Mér finnst það grundvallaratriði í öllum aktivisma og ádeilu að það er tvennt ólíkt að kýla upp fyrir sig eða niður. Mér finnst t.d. The cis are at it again meme-ið beitt og fyndið, en þætti óásættanlegt að sís fólk notaði sams konar frasa um trans fólk. Mér finnst í góðu lagi að fólk segi að hvítt fólk sé rasískt eða klúless eða að steypa Bandaríkjunum í glötun en ekki að hvítt fólk tali svoleiðis um aðra hópa. Undirskipaðir hópar upplifa mikla og skiljanlega gremju í garð ríkjandi hópa og ádeila sem kýlir upp fyrir sig er birtingarmynd hennar. Það þarf ekki að hlaupa í hvað með syni okkar #notallmen gírinn.“
Þriðji kennarinn, Helga Þórey Jónsdóttir, stundakennari í Háskóla Íslands samkvæmt Facebook, tekur undir með þetta. „Ef ég sæi brúna manneskju með “white people are trash” myndi ég skilja það fullkomlega og langa til að gefa fimmu og segja sorrý eða bara eitthvað auðmjúkt. Hvítt fólk er í alvöru bara eitthvað að lulla sér við að smyrja nesti ofan í börnin og kaupa sé stærri bíla á meðan svart fólk berst fyrir tilverurétti sínum alla daga. Öll okkar vestrænu þægindi hvíla á herðum brúns láglaunafólks í þriðja heiminum. Að kalla okkur trash fyrir sinnuleysið er pínötts í samanburði við það er sem þau þola af okkur. Auðvitað eru allir karlar samsekir eins og allt hvítt fólk er samsekt, eða allt heterófólk er samsekt. Í hvert einasta skipti sem við látum einn einasta brandara slæda sem er á kostnað þessara hópa erum við samsek, og í hvert skipti sem við gagnrýnum reiði þeirra erum við eitthvað enn verra. Við fólkið á þessum þræði sem líkar eitthvað illa tónninn í konum að mótmæla aldalangri kúgun sinni og undirskipun hef ég þetta að segja: Bú-fokkíng-hú,“ skrifar Helga Þórey.
Hólmsteinn Eiður Hólmsteinsson segir þetta tattú rothögg á öll karlrembusvín. „Ég hef sagt það áður og ég segi það enn, þetta er flott húðflúr hjá þessari konu. Meirihluti nauðgara eru karlmenn. Þeir eru rusl. Kynferðisleg áreitni og önnur óásættanleg hegðun er að mjög stórum frá hendi karlmanna. Þeir eru rusl. Þetta húðflúr er gott rothögg á öll karlrembusvín og alla ofbeldisfulla karlmenn og ég tek ofan hatt minn fyrir þessari konu,“ skrifar Hólmsteinn.
Rétt er að taka fram að margir femínistar telja tattúið og skilaboðin vafasöm. Margrét Hlín Snorradóttir segir til dæmis. „Mér finnst þetta tattú ömurlegt og umræðan hérna gerir mig reiða og sorgmædda. Í hvert sinn sem karlmaður opnar á sér munninn hérna þá er ráðist á hann og gefið í skyn að hann sé að lítilsvirða konur eða hrútskýra. Karlmenn mega líka rökræða án þess að vera ásakaðir um svona. Við erum inni á feministahóp hérna og þetta eru karlarnir sem standa með okkur. Sem er það sem við viljum. Við viljum að karlmenn standi með konum í að vinna að betra samfélagi. Hvaða gagn gerir það að útmála alla karlmenn sem vonda? Ekkert ef þið spyrjið mig. Ég skil alveg punktinn með að það megi slá upp fyrir sig en ekki niður. En þá er nú yfirleitt verið að tala um grín og slíkt. Það ættu að vera einhver takmörk fyrir hversu andstyggilegur maður getur verið við annað fólk, sama hvaða hópi það tilheyrir,“ skrifar Margrét Hlín.
Halla Kolbeinsdóttir segir þetta ömurleg skilaboð: „Mér finnst þetta eiginlega bara soldið ömurlegt. Hún velur að sjálfsögðu hvað hún gerir með eigin líkama, en ég bara vil sjá jafnrétti og virðingu fyrir allt fólk sama hvernig litar, kynjar, hárlitar osfr. sem það er. Það þarf ekki að smætta aðra til að upphefja sjálfa sig.“