Kastljós var í kvöld helgað bankahruninu sem átti sér stað fyrir tíu árum síðan. Þar var rætt við fyrrverandi forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson og Geir Haarde. Þá voru Ólafur Þ. Harðarson, Kristrún Heimisdóttir og Gylfi Magnússon fengin í settið til að ræða hvað Íslendingar hefðu lært og hvað þeir hefðu ekki lært af hruninu. Sögðu þau að framkoma Breta hefði verið svívirðileg þegar sett voru hryðjuverkalög á landið vegna Icesave.
Miklar og fjörugar en hvassar umræður hafa átt sér stað á samskiptamiðlum eftir þáttinn og hefur gagnrýnin helst beinst að framgöngu Ólafs Ragnars og Geirs H. Haarde í Kastljósþættinum. Geir sagðist hafa verið blekktur þegar ákveðið var að lána Kaupþingi 500 milljónir evra daginn áður en neyðarlögin voru sett. Geir sagði:
„En það var minn skilningur að þetta fjármagn sem átti að fara til Kaupþings ætti að fara í að greiða úr þeim erfiðleikum sem bankinn átti við að stríða gagnvart breska fjármálaeftirlitinu. Hugmyndin var auðvitað sú að þá tækist að bjarga einum bankanum. Og þú getur gert þér í hugarlund að staðan hefði verið allt öðruvísi ef einn banki af þessum þremur stóru hefði lifað þetta allt saman af.“
Ólafur Ragnar sagðist síðan hafa farið út fyrir valdsvið sitt í Icesave-deilunni og „stigið inn á völl þar sem ekki var eðlilegt að forsetinn væri öllu jafnan,“ líkt og hann orðaði það og bætti við að fyrstu mánuðina eftir hrun hefði verið erfiðir fyrir þjóðina.
Eftir að þættinum lauk má segja að stormur hafi átt sér stað á Facebook og margir þekktir sem óþekktir Íslendingar sem hafa látið hátt í sér heyra. Við birtum hér helstu innlegg:
Miðað við þátt Ríkissjónvarpsins eru fréttamenn, stjórnmálamenn og álitsgjafar búnir að jafna sig á Hruninu. Skuldarar, leigjendur og láglaunafólk situr hins vegar enn fast í afleiðingum Hrunsins.
ÓRG hefur ekkert lært. Hann hefur í of langan tíma og allt of mörg ár komist upp með að halda einræður og skauta framhjá öllum krítískum spurningum og gagnrýni á hrokanum einum saman. Hélt uppteknum hætti í Kastljósi.
Að forseti Íslands skuli velja afmæli hrunsins til að taka fram sérstaklega fram, og óbeðinn, að „einhver sjálfumglaður nöldrandi fúll á móti [sé] slæmur leiðsögumaður“ fannst mér ekki gott.
Mér finnst alveg magnað að hægt sé að hafa heilan þátt um hrunið og fara beint í búsáhaldabyltinguna án þess að minnast á alla mótmælafundina á Austurvelli. Hvern einasta laugardag frá því fyrri hluta október og fram í mars. Ég stend föst á því að ef ekki hefðu verið mótmælafundir hefði engin búsáhaldabylting átt sér stað. Þeir voru undirbúningurinn, upptakturinn.
Horfði á langan og áhugaverðan RÚV þátt um Hrunið og áberandi var hversu sneitt var framhjá öllum útifundunum á Austurvelli og áhrifum þeirra. En örvæntið ekki. Ég hélt dagbók í þessa fimm mánuði sem ég stóð fyrir fundunum og sú bók kemur væntanlega úr prentsmiðunni fyrir helgi.
Fréttamenn, álitsgjafar og stjórnmálamenn tóku þessu sem reunion. Og þátturinn var þannig; fólk að hittast aftur sem fyrir tilviljun hafi rekist saman í bekk í menntó og hafði síðan þroskast hvert frá öðru. Niðurstaða þess hluta, sem var svo til allur þátturinn, var að Geir H. Haarde finnst að Hallgrímur Helgason ætti að skammast sín en Hallgrími finnur enga ástæðu til þess, afsakaði sig samt með því að það hefði verið karakter sem hann var að leika sem barði bíl Geirs en ekki hann sjálfur. Þegar almenningur fékk loks orðið vorum við hins vegar dregin að raunveruleikanum; venjulegt fólk er enn að borga Hrunið, hvern einasta dag. Og elítan er ekki með neitt jarðsamband.
Þið afsakið, en gengur þetta allt út á hvort við séum búin að fyrirgefa Geir Haarde og séum jafnvel tilbúin til að biðja hann innilega fyrirgefningar?
Til hvers eruð þið að horfa á þessa þvælu sem landsmenn hafa verið minntir á, á hverjum degi og oft á dag, síðan þessi ósköp urðu? Trúið þið því að það komi fram eitthvað nýtt. Lesiði frekar Njálu eða Brekkukotsannál, þar er alltaf eitthvað nýtt að finna.
Ég var að horfa á þætti um Hrunið, bæði á RÚV og Stöð 2. Eitt sem sló mig var hve borubrattir fjármálamenn og stjórnmálamenn voru þrátt fyrir að þeir vissu að það riðaði allt til falls. Þeir vissu sem var að það myndi hafa áhrif ef þeir væru heiðarlegir og útskýrðu hve alvarleg staðan væri. Í heimi fjármála og stjórnmála er höndlað með traust, það er það sem heldur þessum stofnunum saman og lætur þær virka sterkar. En traust getur farið skyndilega, sérstaklega ef almenningur sér glytta í tómið og sér að það eru engir fætur undir stofnunum.
Eftir Kastljósþáttinn í kvöld er ég hugsi. Mér finnst dálítið eins og hann hafi átt að segja mér að allt það vonda eftir hrunið sé farið og búið og núna eigum við bara að slaka á og vera róleg. Sofðu rótt þáttur. Það er bara ekki þannig. Ég finn enn grjótið í maganum eftir hrunið og allt sem ég sé gerast í kringum mig bætir bara í þunga þess. Svona söngvar duga ekki.
Var að horfa á áhugavert viðtal við Geir H Haarde í Kastljósi. Ágætlega gert hjá Einari Þorsteinssyni, en enn og aftur vantar svarið við því hvert fimmtíuþúsundmilljónirnar sem Davíð kastaði út um gluggann fóru. Geir vissi það ekki.
Ef ég skil Geir H. Haarde rétt þá virðist hann enga vitneskju hafa haft um að bankarnir væru að falla fyrr en eftir keðjuverkun Lehmans. Var hann aldrei viðstaddur neina fundi fyrr á árinu þar sem Davíð varaði víst alla við og hafði hann enga vitneskju um hvað væri í gangi t.d. þegar stjórnkerfi auk vissra þingmanna og ríkisstjórn vissu um stöðu Glitnis sem var tæknilega gjaldþrota í febrúar 2008?
Eða er sannleikurinn kannski að vefjast enn eina ferðina fyrir honum líkt og Vafningar Bjarna Ben í tengslum við Glitni?
Á laugardaginn er 10 ára afmæli ,,hrunsins“ og ég var að kaupa 14 ára tjaldvagn. Þetta er búið, byrjið að hamstra.
Kastljósið um hrunið einkennist af því að það er ritað um og af stjórnmálastéttinni. Ekkert rætt við talsmenn launamanna sem höfðu endurtekið bent hvert stefndi og voru beinir þátttakendur í lokasprettinum og stóðu m.a. mjög ákveðið gegn því að stjórnmálamennirnir hrifsuðu til sin allar erlendar eigur lífeyrissjóðanna (skyldursparnarnað launamanna) sem hefði farið sömuleið og 500 mia lánið til Kaupþings sem lenti á á einkareikingum á aflandseyjum. Þátturinn var af þessum ástæðum afskaplega lítils virði, því miður.