fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Hreggviður hlaut 30 daga dóm

Ætlar að áfrýja dómnum – Sakar lögreglu um misbeitingu valds

Björn Þorfinnsson
Laugardaginn 20. janúar 2018 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þetta kemur mér ekkert á óvart. Það er verið að reyna að brjóta mig niður en það mun ekki takast. Ég mun að sjálfsögðu áfrýja þessum dómi,“ segir Hreggviður Hermannsson, bóndi að Langholti 1b í Árnessýslu, í samtali við DV. Hreggviður var í vikunni dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að stela tíu bráðabirgðagirðingarstaurum, sófasetti og að hafa snúið upp á hönd nágrannakonu sinnar, Fríðar Sólveigar Hannesdóttur.

Segist ekki fá réttláta meðferð hjá lögreglu

Dómurinn yfir Hreggviði er ein af ótalmörgum uppákomum sem átt hafa sér stað í nágrannaerjum sem vart eiga sinn líka hérlendis og DV hefur aðeins fjallað um. Að mati Hreggviðs fær hann ekki réttláta málsmeðferð hjá Lögreglunni á Suðurlandi sem helgast af því að dóttir nágrannakonu hans er yfirmaður hjá embættinu. „Allar ákærur á hendur nágrönnum mínum eru látnar niður falla en hver einasti tittlingaskítur sem ég er sakaður um er keyrður af krafti í gegnum réttarkerfið,“ segir Hreggviður. Nefnir hann sem dæmi tvær kærur vegna alvarlegra líkamsárása sem hann og gestkomandi kona urðu fyrir en lögregla aðhefst ekkert í. Hann segir að nágrannar hans hafi yfir 50 sinnum kært hann til lögreglu og lögreglumenn hafi komið í rúmlega 170 útköll vegna ýmissa umkvartana nágrannanna.

Deilurnar milli Hreggviðs og nágranna hans, Ragnars Vals Björgvinssonar og Fríðar Sólveigar, ábúenda að Langholti 2, byrjuðu í deilum um veiðirétt í Hvítá árið 2005. Hreggviður vann málið fyrir dómstólum og síðan þá hafa samskiptin verið hatrömm, svo vægt sé til orða tekið. Nú deila nágrannarnir um landamerki spildu sem eitt sinn tilheyrði jörð Ragnars. Það mál verður senn tekið fyrir í héraðsdómi en út af þeirri deilu hafa ýmsar skærur átt sér stað milli Hreggviðs og nágranna hans.

Dæmdur fyrir að stela girðingu og sófasetti

Eins og áður segir er dómurinn yfir Hreggviði í þremur liðum. Í fyrsta lagi er hann sakfelldur fyrir að hafa, í október 2014, tekið niður og stolið tíu bráðabirgðarafmagnsstaurum og rafmagnsþræði sem Ragnar og Fríður höfðu sett upp. Kannaðist Hreggviður ekki við verknaðinn en var hann sakfelldur á grundvelli vitnisburðar annars nágranna. Kvaðst Hreggviður ekki muna eftir atvikinu fyrir dómi en kannaðist við að hafa tekið upp aðra girðingu ári fyrr, sem hann var einnig kærður fyrir.

Í öðru lagi var Hreggviður dæmdur fyrir að hafa flutt sófasett og stóla úr sumarhúsi í eigu annars manns og í sitt eigið veiðihús. „Þessi maður keypti sumarhús sem stóð á minni jörð. Hann ætlaði að flytja það í burtu en sveik það, ég losnaði ekki við húsið fyrr en eftir 20 mánuði. Hann var með húsið í sölumeðferð á sínum tíma og ég varð fyrir miklu ónæði út af hugsanlegum kaupendum sem voru að ráfa um jörðina og skoða húsið,“ segir Hreggviður. Hann hafi síðan tekið að sér að losa og rýma húsið fyrir flutning og þá fært húsgögnin í veiðihús sitt til geymslu. „Það vissu allir hvar húsgögnin voru og ekki voru þetta merkilegir munir,“ segir Hreggviður og hristir hausinn.

„Þau voru sturluð af bræði sem endranær“

Í þriðja lagi var Hreggviður sakfelldur fyrir líkamsárás gegn Fríði. Talið var sannað að hann hafi snúið upp á hönd hennar þegar, í eitt skipti af mörgum, skarst í odda milli nágrannanna. „Hún reif í skyrtuna á mér og hristi mig til, á meðan stóð eiginmaðurinn fyrir aftan hana með grjót í hönd. Þau voru sturluð af bræði sem endranær,“ segir Hreggviður. Hann heldur því fram að Fríður hafi tekið um gleraugu sem voru í brjóstvasa á skyrtunni. Hafi hann þá tekið í hægri hönd hennar með vinstri hendi og ýtt henni í burtu.

Í dómnum kemur fram að Fríður hafi ekki vitað á hvorri hönd hún hefði meitt sig þegar lögreglu bar að garði. „Hún hafi sagt hægri, nei vinstri hægri“ eins og þar stendur. Fyrir dómi kom fram að hún þjáðist af dyslexíu og ruglaðist því oft á hægri eða vinstri. Í læknisvottorði kemur fram að Fríður hafi fundið fyrir þreifieymslum á tveimur stöðum og á handlegg hennar hafi verið þrír ljósir marblettir en engin bólga. Niðurstaða læknakandídats var sú að áverkarnir samrýmdust best tognun eða ofreynslu á vöðva. Hreggviður segir niðurstöðuna vera algjöra þvælu. „Það er ekki furða að hún hafi ofreynt á sér vöðvana. Hún hafði eytt drjúgri stund í að henda grjóti úr vegghleðslu út á veg. Það er talsvert þrekvirki því þetta eru þungir steinar. Auðvitað var hún þreytt eftir átökin,“ segir Hreggviður.

Telur lögreglu misbeita valdi sínu

Hreggviður er hvergi banginn þrátt fyrir dóminn en telur lögreglu misbeita valdi sínu. „Ragnar réðst gegn gestkomandi konu með alvarlegum hætti í júní 2017. Hún kærði hann til lögreglu en ekkert hefur verið aðhafst í því máli,“ segir Hreggviður. Þá rifjar hann upp meinta árás Ragnars á hann rétt fyrir jól, sem DV fjallaði um. Sakaði Hreggviður Ragnar um að hafa reynt að drepa hann með því að keyra hann niður. „Ég kærði það mál, eins og mörg önnur, en það er augljóslega ekki í forgangi á hjá lögreglu. Þá hef ég óskað eftir að fá að skoða myndband, sem náðist á öryggismyndavél í eigu Ragnars og Fríðar, ásamt fjölskyldu minni, en það vill lögreglan ekki heimila,“ segir Hreggviður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 

Læknar tjá sig um „skelfileg skrif“ Áslaugar og saka hana um fáfræði og vanþekkingu – „Fyrst og fremst bruðl með ríkisfé“ 
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?
Fréttir
Í gær

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt

Enn fækkar í Þjóðkirkjunni og fjölgar í Siðmennt
Fréttir
Í gær

Reykjavíkurborg gafst upp á nágrannadeilum í Grafarholti

Reykjavíkurborg gafst upp á nágrannadeilum í Grafarholti