Nýr forseti Ekvador ákvað í mars að loka fyrir samskipti Assange við umheiminn frá sendiráðinu og því hefur Assange ekki netaðgang. Hann hefur dvalið í sendiráðinu árum saman, frá 2012, til að forðast handtöku en hann óttast að verða framseldur til Bandaríkjanna ef hann verður handtekinn. Málið hófst með að sænsk yfirvöld gáfu út handtökuskipun á hendur Assange vegna rannsókna á meintum kynferðisbrotum hans þar í landi. Hann var kærður fyrir nauðgun og fyrir kynferðislega áreitni. Sænsk yfirvöld hafa nú hætt rannsókn málsins en Assange heldur enn til í sendiráðinu.
Í tilkynningu WikiLeaks er haft eftir Kristni að hann fordæmi þá meðferð sem Assange hefur hlotið og hafi nú leitt til þess að hann taki við sem aðalritstjóri en fagni þeirri ábyrgð sem hann tekst nú á við til að tryggja áframhald þeirrar mikilvægu vinnu sem er byggð á hugmyndafræði WikiLeaks.