„Bróður míns, Andrius Zelenkovas, er saknað. Síðast sást til hans í Reykjavík á Íslandi þann 29. júlí. Hann sagði vinum sínum að hann ætlaði aftur til Litháen eða til Svíþjóðar. Við höfum engar upplýsingar um að hann hafi snúið til Litháen né hvar hann er niðurkominn. Vinsamlega hafið samband við mig ef þið hafið séð hann eða hafið upplýsingar um hann.“
Þetta skrifar kona að nafni Ausra Dawn á Facbook-síðu sína. Ausra er búsett á Englandi en bróðir hennar er íslenskur ríkisborgari miðað við þær upplýsingar að hann er skráður í þjóðskrá. Í þjóðskrá er hann skráður með lögheimili í Litháen. Í öðrum skrám kemur fram að hann hefur einhvern tíma haft aðsetur að Ránargötu í Reykjavík. Hann er tæplega 28 ára gamall.
Ausra Dawn segir í ummælum undir færslu sinni að hún hafi verið í sambandi við lögreglu á Íslandi vegna málsins en ekki hafi fengist nein svör um afdrif bróður hennar. Íslenska lögreglan hefur hins vegar ekki lýst eftir Andrius. Aftur á móti hefur verið lýst eftir Andrius í litháískum fjölmiðlum.
Ekki hefur náðst samband við lögreglu vegna málsins í dag en DV bíður svara við fyrirspurn til lögreglu um mál Andrius Zelenkovas.
DV hafði samband við Ausra Dawn vegna málsins en hún neitar að tjá sig við fjölmiðla um það og segir að fjölmiðlar verði að fá allar upplýsingar frá lögreglu. Er það í nokkurri mótsögn við að hún lýsir sjálf eftir honum í opnum færslum á samfélagsmiðlum. Þegar DV tjáði Ausra að Andrius virtist vera með íslenskan ríkisborgararétt útilokaði hún blaðamann frá Facebook-reikningi sínum.