Eyjan Vigur í Ísafjarðardjúpi er einstök náttúruperla og er til sölu. Frá því var greint fyrr í sumar. Um 10 þúsund gestir sækja eyjuna heim árlega. Húsakostur er um 700 fermetrar og býður uppá mikla möguleika í ferðaþjónustu. Eyjan sjálf er um 45 hektarar og ræktuð tún um 10 hektarar. Rafmagn er leitt úr landi og vatnsuppspretta er á eynni. Eyjan selst í heild sinni með öllum húsakosti og hlunnindum en byrjunartilboð er um 300 milljónir.
„Þetta er algjör paradís,“ sagði Davíð Ólafsson fasteignasali í samtali við Nútímann fyrr í sumar. Á eyjunni er viktoríuhús en það er eign þjóðminjasafnsins. Viðbygging sem er skráð veitingahús er í eigu ábúenda. Tvö salerni og sturta eru í veitingahlutanum. Þá er æðarvarp sem gefur um 50 – 60 kíló af hreinsuðum af dún á hverju sumri en sængur með kíló af æðardún eru seld á yfir hálfa milljón. Þá er einnig mylla á svæðinu, reykhús, fjárhús og kælihús. Mikið fuglalíf er í eyjunni og selir á skerjum og um 30 þúsund lundapör verpa í Vigur.
Í frétt RÚV í dag er greint frá því að mikill áhugi sé á Eyjunni enn ekkert formlegt tilboð hefur þó borist. Helst eru það útlendingar sem eru áhugasamir en Davíð Ólafsson segir að Íslendingar séu aðeins fjórðungur þeirra sem hafa áhuga á eyjunni. Segir Davíð að öll tilboð verði skoðuð en lágmarksboð sé eins og áður segir 300 milljónir.