fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Skjólstæðingur Fjölskylduhjálpar Íslands kærir Ásgerði Jónu

Björn Þorfinnsson
Sunnudaginn 17. júní 2018 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Mér líður mjög vel með að standa með sjálfri mér og svara fyrir mig. Ég gerði ekkert rangt,“ segir Kolbrún Dögg Arnardóttir í samtali við DV. Kolbrún hefur lagt fram kæru á hendur Ásgerði Jónu Flosadóttur, formanni Fjölskylduhjálpar Íslands. Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í næstu viku. Ástæðan er sú að Ásgerður Jóna nafngreindi Kolbrúnu sem skjólstæðing Fjölskylduhjálpar í útvarpsviðtali við Bylgjuna fyrir síðustu jól. „Þetta var hrein og klár hefndaraðgerð. Að vel athuguðu máli þá sá ég að ég yrði að leita réttar míns fyrir sjálfa mig, börnin mín og ekki síður aðra skjólstæðinga Fjölskylduhjálpar sem eru í viðkvæmri stöðu,“ segir Kolbrún Dögg.

Fékk útrunnar vörur í jólaúthlutun

Ásgerður Jóna Flosadóttir

Forsaga málsins er sú að Kolbrún Dögg hafði leitað sér aðstoðar fyrir jólin hjá hjálparsamtökunum sem Ásgerður Jóna er í forsvari fyrir. Hún fékk poka með matvörum en varð fyrir miklum vonbrigðum þegar heim var komið. Mikið af því sem hún fékk var útrunnið og ekkert kjötmeti fylgdi með, aðeins fiskur og kjötbollur. Kolbrún birti færslu á lokuðum Facebook-hópi þar sem hún lýsti yfir vonbrigðum sínum með úthlutunina og í kjölfarið ræddi hún nafnlaust við DV um málið.

Í kjölfarið tók blaðamaður DV viðtal við Ásgerði Jónu sem harmaði að Kolbrún hefði fengið útrunnar vörur og lýsti því um leið yfir að Fjölskylduhjálp væri að reyna að sporna við matarsóun en þarna hefðu mistök átt sér stað.

Ásgerður Jóna krafðist þess í viðtali við blaðamann að fá að nafngreina Kolbrúnu. Blaðamaður DV sagðist virða ósk viðmælanda síns um nafnleynd, enda væri málið sérstaklega viðkvæmt og neitaði Ásgerði um að fá að birta nafn Kolbrúnar, enda snerist frétt DV um að skjólstæðingur hennar hefði fengið útrunnar vörur og hefði myndir því til staðfestingar. Nafn og mynd Kolbrúnar var því aukaatriði í því samhengi. Ásgerður Jóna fór síðan í viðtal í þáttinn Í bítið á Bylgjunni þar sem hún tók þá ákvörðun að greina frá nafni Kolbrúnar án hennar samþykkis.

Kolbrún varð fyrir miklu áfalli þegar hún heyrði af afhjúpun Ásgerðar Jónu. „Ég brotnaði gjörsamlega niður. Ég glími meðal annars við alvarlegar kvíðaraskanir og þessi gjörningur Ásgerðar Jónu var sem olía á þann eld,“ segir Kolbrún. Hún steyptist út í útbrotum á líkamanum í kjölfarið og átti afar erfiðar stundir. Það sem hafi gert líf hennar bærilegra hafi verið viðbrögð alls konar fólks úr samfélaginu sem hafi rétt henni hjálparhönd. „Fólki var verulega misboðið og það rigndi yfir mig stuðningi í síma og í skilaboðum,“ segir Kolbrún. Hún segist sérstaklega vera þakklát meðlimum Facebook-hópsins Góða systir sem hafi einfaldlega bjargað jólunum hennar og margra annarra. „Ég fékk ógrynni af jólamat að gjöf og fékk strax nóg fyrir mig. Þá byrjaði ég að tengja fólk sem vildi gefa við aðra sem voru hjálpar þurfi. Ég var því orðin eins konar fjölskylduhjálp í nokkra daga fyrir jólin,“ segir Kolbrún.

Reyndu að nota fátæktina til að fá málinu vísað frá

Þegar hátíðin var yfirstaðin þá hafi Kolbrún þó áttað sig á því að hún yrði að grípa til einhverra aðgerða. „Ég upplifði þessa hegðun hennar á þá leið að hún hefði farið í fýlu og viljað hefna sín. Í starfi sínu hefur hún völd yfir fólki sem er í mjög viðkvæmri stöðu og að mínu mati má hún ekki komast upp með þetta. Það er alveg nógu erfitt að fara í biðröð hjá Fjölskylduhjálp og upplifa sig sem þriðja flokks fólk þó að maður þurfi ekki að hafa áhyggjur af hefndaraðgerðum ef maður tjáir sig. Ég fór því og leitaði mér ráðgjafar hjá lögfræðingi og niðurstaðan varð sú að kæra var lögð fram,“ segir Kolbrún.

Ef Kolbrún var einhvern tímann í vafa um hvort hún væri að feta rétt braut þá varð hún sannfærð eftir tilraunir Ásgerðar Jónu og lögfræðings hennar til þess að fá málinu vísað frá. „Þau fóru fram á að lögð yrði fram málskostnaðartrygging því að ég er með árangurslaust fjárnám á bakinu. Þarna var ætlun þeirra að nýta fátækt mína gegn mér og fá málið niðurfellt,“ segir Kolbrún. Hún náði þó að verjast atlögunni þegar í ljós kom að heimilistryggingar hennar mundu standa undir kostnaðinum ef dómurinn yrði henni í óhag.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Hafberg í Lambhaga lætur samkeppnisaðila sinn heyra það

Hafberg í Lambhaga lætur samkeppnisaðila sinn heyra það
Fréttir
Í gær

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“
Fréttir
Í gær

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá

Kæru vegna sjókvíaeldis í Seyðisfirði vísað frá