Olga Ricomà íbúi í Tarragona í Katalóníu hefur verið ákærð fyrir hatursglæpi gagnvart spænskum yfirvöldum.
Olga Ricomà hengdi borða utan á svalirnar hjá sér þar sem stóð „Police go home“ ásamt orðunum „som gent de pau“ sem þýðir „við erum fólk friðarins“ og póstaði í kjölfarið mynd af borðanum á samfélagsmiðla. Hún gerði þetta eftir að hafa séð í sjónvarpinu hið gegndarlausa og vægðarlausa lögregluofbeldi sem landar hennar urðu fyrir þ. 1. október síðastliðinn, daginn sem Katalónar gengu til atkvæða um lýðveldisstofnun.
Olga sagði við réttarhöldin í morgun ekki vera hatursfull manneskja og reyndi að verja rétt sinn til að tjá sig á þennan hátt. Hún sagðist hafa orðið fullkomlega miður sín yfir því sem hún sá og heyrði um ofbeldið sem spænska herlögreglan beitti friðsama landa hennar og þessi gjörningur hennar hafi verið friðsöm leið til að bregðast við lögregluofbeldinu. Olga hafði þetta að segja:
„Ákæran er bæði óréttlát og fáránleg.“
Lögfræðingur Olgu tjáði dómurum að ef málið verði ekki látið niður falla væri það fullkomin afbökun á spænskri refsilöggjöf. Hann sagði að þær athugasemdir sem myndin af borðanum fékk væri á engan hátt hatursglæpir og að tjáningarfrelsi hennar væri bæði varið í stjórnarskrá og mannréttindasáttmálanum.