fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fréttir

Beit tunguna úr eiginmanni sínum: Föst á Íslandi og borðar hjá Hjálpræðishernum – „Ég ætlaði aldrei að meiða neinn“

Auður Ösp
Miðvikudaginn 28. mars 2018 20:00

Nara Walker

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það sem kom fyrir manninn minn er hræðilegt. En ég valdi ekki að gera þetta við hann,“ segir Nara Walker sem þann 13. mars síðastliðinn hlaut 12 mánaða fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir líkamsárás og stórfellt ofbeldisbrot í nánu sambandi. Nara var sakfelld fyrir að hafa í nóvember síðastliðnum veist með ofbeldi að eiginmanni sínum og bitið í tungu hans þannig að hún fór í sundur. Þá var hún einnig sakfelld fyrir að hafa veist með ofbeldi að konu sem var gestur á heimili þeirra hjóna. Nara kveðst sjálf vera fórnarlamb áralangs heimilisofbeldis af hálfu eiginmanns síns og leggur áherslu á að tungubitið hafi verið ósjálfráð viðbrögð í hita leiksins. Hún hyggst áfrýja niðurstöðu héraðsdóms.

Í samtali við DV segist Nara hafa lagt fram kæru á hendur manninum sínum fyrir heimilisofbeldi í nóvember síðastliðnum. Hún kveðst um leið hafa lagt fram sannanir á borð við vitnisburð vinkonu sinnar og móður, auk einkasamtala á Facebook þar sem eiginmaður hennar játar að hafa beitt hana líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi og að hafa byrlað henni ólyfjan. Enn sem komið er hafi hún ekkert heyrt frá lögreglunni en hún segist vita að maður hennar hafi verið kallaður til yfirheyrslu tíu dögum áður en dómur féll í málinu. „Það var mjög erfitt að fara til lögreglunnar en ég er glöð að ég hafði mig í það. Ég vona að það verði hvatning fyrir aðrar konur í þessari stöðu.“

Nara fæddist í Ástralíu árið 1990 og ólst upp í strjálbýli suðaustur af Queensland hjá foreldrum sínum og á hún eldri systur. Strax í barnæsku fékk hún áhuga á listum. „Árið 2010 flutti ég til Óslóar og bjó þar í eitt ár og eftir það flutti ég aftur til Ástralíu, til Brisbane, og hóf háskólanám í myndlist.“

Elti eiginmann sinn til Íslands

Eiginmaður Nöru er franskur og kynntust þau að hennar sögn árið 2013, á háskólabar í Brisbane.

Í dómi kemur fram:

 Ákærða kvað B hafa orðið árásargjarnari með árunum, en þau hafi verið saman í fjögur og hálft ár. Í seinni tíð hafi ákærða orðið honum háð. 

Nara kveðst standa við þennan framburð sinn fyrir dómnum og segir að eiginmaður hennar hafi beitt hana andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi í fjölmörg skipti. Hún segir að fyrsta skiptið hafi verið nokkrum mánuðum eftir að samband þeirra hófst.

Hún fluttist til Íslands í október árið 2016, eftir að eiginmanni hennar bauðst tímabundið starf hér á landi. Hún segir að í upphafi hafi staðið til að þau myndu aðeins dvelja á Íslandi í þrjá mánuði. „Mig langaði að styðja við hann og hans feril og við vorum sammála um að þetta væri skref í rétta átt fyrir hann og okkur. Áður en ég flutti til Reykjavíkur þá bjuggum við í London og þar giftum við okkur í apríl 2016. Hann flutti til Íslands nokkrum mánuðum á undan mér og ég varð eftir í London og passaði húsbátinn okkar.

Á öðrum stað í dómnum segir:

Þau hafi flutt til Íslands. Við það hafi ákærða yfirgefið bakland sitt og starfsumhverfi. Hér á landi hafi B látið ákærðu fá peninga til að hafa fjármuni á milli handa.

Nara kveðst hafa verið í afar viðkvæmri stöðu eftir flutningana til Íslands. Hún hafi ekki verið með atvinnuleyfi eða íslenska kenntölu og ekki þekkt neinn hér á landi nema vinnufélaga eiginmannsins. Eiginmaður hennar hafi verið í vinnu sem verktaki hjá fyrirtæki sem hafði útvegað honum húsnæði og bíl. „Hann skammtaði mér vasapeninga mánaðarlega og ef ég hagaði mér ekki nógu vel að hans mati þá refsaði hann mér með því að láta mig ekki fá neitt.“

Í dómnum kemur fram að Nara hafi sagt lögreglu að eiginmaður hennar hafi í þrígang ráðist á hana hér á landi og lamið, að meðtöldu umræddu kvöldi. Á öðrum stað kemur fram að hún hafi lýst því að eiginmaður hennar hefði áður gefið henni fíkniefni án hennar vitundar. Nara segir þetta satt og rétt. Hún segir að á þeim tíma sem atvikið átti sér stað hafi hún verið farin að hugleiða alvarlega að yfirgefa eiginmann sinn.

„Ég var lengur með honum því við vorum gift og það var meiri skuldbinding. Ég var auðvitað bara ástfangin, ég var með þessi rósrauðu gleraugu. Ég vildi laga hann.“

Segist hafa verið byrluð ólyfjan

Nara Walker

Í niðurstöðu dómsins segir: „Annars vegar er ákærðu gefið að sök að hafa klórað brotaþolann B í andlitið, slegið hann og bitið í tungu hans þannig að tungan fór í sundur. B er eiginmaður ákærðu. Hins vegar er ákærðu gefið að sök að hafa veist að brotaþolanum C, m.a. tekið í hár hennar og haldið í það meðan hún hristi og ýtti henni til og frá, klórað í andlit hennar og bitið og klórað í fingur hennar.Ákærða neitar sök. Hefur hún lýst því að eiginmaður hennar og brotaþolinn C hafi veist að henni með líkamlegu ofbeldi umrætt sinn. Hafi hún gripið til neyðarvarnar gagnvart árásinni. Framburð hennar fyrir dóminum verður að skilja á þann veg að hún í raun viðurkenni að hafa bitið hluta tungunnar úr ákærða, en hún kveðst hafa verið í sjokki og ekki áttuð á því sem var að gerast.“

Hvað varðar atburði kvöldsins þann 9. nóvember síðastliðinn þá kveðst Nara standa við frásögn sína fyrir dómnum sem er á skjön við framburð eiginmanns hennar og hinnar konunnar. Fram kemur í dómnum að umrætt kvöld hafi hún og eiginmaður verið úti að skemmta sér ásamt umræddri konu og bandarískum karlmanni og var síðan haldið heim til þeirra hjóna. Þar hafi átök átt sér stað sem leiddu til þess að Bandaríkjamaðurinn yfirgaf samkvæmið. Hún bendir á að framburður hennar og Bandaríkjamannsins af atburðum kvöldsins hafi í meginatriðum verið sá sami.

Við yfirheyrslur sagði konan sem var gestur á heimili þeirra að eiginmaður Nöru hafi boðið upp á vodkaskot sem innihélt kókaín. Nara segir hann hafa byrlað henni eiturlyfinu. Hún hafi ekki vitað að kókaín var í drykknum.

Fyrir dómi hélt Nara því fram að hún og bandaríski karlmaðurinn hefðu reynt að yfirgefa íbúðina en eiginmaður hennar hafi meinað Nöru að fara. Bandaríkjamaðurinn hafi verið komin fram á ganginn fyrir utan íbúðina og segir Nara að eiginmaður hennar hafi ýtt honum niður stigann með þeim afleiðingum að Bandaríkjamaðurinn hlaut brákað rifbein.„Maðurinn minn stóð yfir honum og ég stillti mér upp á milli þeirra.“

Nara segir að maðurinn hennar hafi því næst kýlt hana margsinnis. Hún segir hann því næst hafa borið hana inn í íbúðina, lagt hana þar á sófa og varnað henni farar. „Ég náði andanum aftur og ætlaði að fara en hann hélt þéttingsfast um handleggina á mér.“

Nara segir að maðurinn hennar hafi komið með andlit sitt nær hennar og hún hafi grátið og viljað fara. „Ég var dauðskelkuð. Hann sagði upphaflega að hann hefði verið að reyna að róa mig en síðar meir sagði hann að ég hefði nálgast hann að fyrra bragði, sem mér finnst mjög undarlegt þar sem að hann er höfðinu hærri en ég. Ég held að hann hafi gert sér grein fyrir að ég væri að fara frá honum endanlega og að ég myndi ekki vera „hans“ lengur. Kannski var þetta eitthvað sem hann gerði í hita leiksins. Ég veit það ekki almennilega. Hann hélt svo fast í handleggina á mér að ég gat ekki hreyft mig. Ég fékk marbletti á handleggina eftir þetta. Ég var ekki í stöðu til að komast í burtu frá honum. Það var eins og hann yrði að fá mig.“

Nara kveðst hafa orðið stjörf af hræðslu með andlit mannsins svo nærri hennar og þegar hann hafi reynt að kyssa hana þá hafi það gerst, að hún beit helminginn af tungu hans, í einum bita.

„Hann þvingaði tungunni upp í mig og þetta voru ósjálfráð viðbrögð. Ég var í áfalli,“ segir Nara og bætir við að á þessum tímapunkti hafi hún ekki fundið fyrir tungu mannsins uppi í munninum á sér. Hún segist gera ráð fyrir að meint lyfjabyrlun fyrr um kvöldið hafi spilað þar inn í. Hún kveðst á einhverjum tímapunkti hafa spýtt tungubitanum út úr sér á gólfið og því næst hafi hin konan skellt henni niður í gólfið og haldið henni niðri, líkt og fram kemur í framburði Nöru fyrir dómnum. Þar segir að Nara hafi „reynt að ýta konunni af sér og þær hafi togað í hárið á hvor annarri.“ Margt hafi verið í gangi og „ákærða hafi gert allt til að ná C af sér.“

 

Nara segist hafa náð að rífa sig í burtu og farið að stiga upp á efri hæð í íbúðinni og sest þar. „Ég skalf og grét og líklega var ég að fá einhvers konar taugaáfall, ég átti allavega mjög erfitt með að anda. Þegar lögreglan kom á staðinn þá benti maðurinn minn á mig og sagði: „Hún gerði þetta, hún gerði þetta,“ en ég reyndi að segja þeim að ég hefði orðið fyrir árás þetta kvöld, að hann hefði ráðist á mig. Þetta endaði samt þannig að maðurinn minn og konan voru flutt á slysadeild en ég var flutt á lögreglustöð, sett í fangaklefa í 15 klukkutíma og yfirheyrð. Ég var mjög ringluð yfir því af hverju ég var tekin en ekki hann. Ég var í rosalega miklu áfalli og þó að ég hafi verið meidd þá hafði ég mestar áhyggjur af manninum mínum. Mér var þó ráðlagt af lögreglu að vera ekki í sambandi við hann og ég þurfti því að fá fréttir af honum utan úr bæ.“

Nara segir að það hafi ekki verið fyrr en nokkrum dögum síðar, eftir að henni var sleppt úr varðhaldi, að hún fékk að vita frá sameiginlegum félögum um þann skaða sem maður hennar beið af tungubitinu. „Það var ekki fyrr en nokkru síðar að ég fékk að vita að það hefði ekki verið hægt að sauma hluta tungunnar aftur á.“

Í niðurstöðu dómsins kemur meðal annars fram: „Læknir er annaðist brotaþolann hefur lýst því að mikinn bitkraft þyrfti til svo tungan færi alveg í sundur. Hefði læknirinn aldrei orðið vitni að slíku áður. Óhætt er að miða við að brotaþolinn B hafi verið að reyna að kyssa ákærðu þegar þessi atvik áttu sér stað.“

Heimilislaus

Nara Walker

Nara kveðst hafa staðið uppi heimilislaus og allslaus eftir atvikið. Lögreglan hafi haldlagt vegabréf hennar og hún hafi því ekki getað farið úr landi. Eiginmaður hennar hafi haldið eftir greiðslukorti hennar. Hún hafi þurft að fá lánaða peninga til leigja herbergi á gistiheimili og jafnframt hafi hún þurft að leita á náðir Félagsmálastofnunar. Í nokkur skipti hafi hún þegið máltíðir hjá Hjálpræðishernum.

Fyrir dómnum var lagt fram vottorð læknisvottorð vegna komu Nöru á slysadeild 3. nóvember 2017 þar sem meðal annars kemur fram að hún sé með eymsli yfir hryggjarliðum brjóskassa og eymsli yfir rifbeini, auk smá hrufls og marbletta á upphandleggjum á upphandleggjum beggja vegna. „Ákærða muni þurfa á sjúkraþjálfun að halda til að ná sér að fullu af þeim meiðslum. Þá sé ótalinn sálrænn skaði sem af árásinni hafi hlotist,“ segir jafnframt í læknisvottorði.

Niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur var sú að Nara skyldi sæta 12 mánaða fangelsi, en þar af eru 9 mánuðir skilorðsbundir. Þar að auki er henni gert að greiða eiginmanni sínum 1,2 milljónir króna í miskabætur og konunni, hinum brotaþolanum í málinu 450 þúsund krónur.

„Það kom mér ekki á óvart að ég skyldi vera kærð, enda skil ég að eftir að einhver hlýtur áverka þá þarf að rannsaka það og komast að niðurstöðu. Ég bjóst samt alls ekki við að fá dóm enda gerði ég ráð fyrir að það yrði tekið til greina ofbeldið sem ég var beitt áður en þetta átti sér stað. Ég get sætt mig við það ef ég þarf að sitja inni en mér finnst það ömurlegt að vera komin á sakaskrá.“ Hún segir að henni hafi fundist sárt að horfa upp á eiginmann sinn í vitnastúkunni. „Mér fannst eins og hann væri að taka mína sögu og nota hana sér til framdráttar.“

Í niðurstöðu dómsins segir að tungubitið hafi haft mikil áhrif á líf eiginmanns Nöru. „Hann talaði öðruvísi og andlegar afleiðingar hafi verið slæmar. Lífið hafi verið hrein martröð. Hann hafi verið frá vinnu í þrjár vikur vegna árásarinnar. Fyrst um sinn hafi hann einungis getað borðað eitthvað fljótandi. Í tvígang eftir árásina hafi hann farið til sálfræðings. B kvað vel geta verið að hann hafi boðið upp á ,,skot“ heima hjá sér þessa nótt en hann hafi ekki sett neitt kókaín út í drykki fólks þessa nótt. Þá kvað B rétt vera er ákærða héldi fram að hann hafi einhverju sinni sett LSD út í te hennar. Hann hafi sagt henni frá því áður en hún hafi drukkið af teinu.“

Nara kveðst vinna að því þessa dagana að byggja sig upp andlega og líkamlega. Hún hefur jafnframt tekið þá ákvörðun að áfrýja úrskurði héraðsdóms til Landsréttar. „Ég fæ oft martraðir á nóttunni og sé andlitið hans eins og ég man eftir því þetta kvöld.

Það var ekki ásetningur minn að ráðast á eiginmann minn. Ég ætlaði aldrei að meiða neinn, þetta voru bara mín viðbrögð. Ég hafði ekki hugmynd um að það væri hægt að bíta tunguna úr einhverjum. Ég sé afskaplega mikið eftir því sem gerðist og ég vildi óska að ég gæti tekið það til baka. Ég vildi óska að hann hefði leyft mér að fara úr húsinu þetta kvöld. Sem listamaður þá hef ég rödd og mig langar að nota hana til að hjálpa öðrum. Þetta gerðist og ég verð að sætta mig við það. En það hjálpar engum að sitja endalaust og dvelja við það sem er búið og gert.“

Eiginmaður Nöru vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað. Sömu sögu er að segja af hinum brotaþolanum í málinu, konunni sem var gestur á heimili hjónanna þetta kvöld.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fullyrt að Kristrún verði forsætisráðherra og eitt ráðuneyti verði lagt niður

Fullyrt að Kristrún verði forsætisráðherra og eitt ráðuneyti verði lagt niður
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Enn einn Snapchat-perrinn ákærður – Braut gegn 13 ára dreng

Enn einn Snapchat-perrinn ákærður – Braut gegn 13 ára dreng
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vaxtamálið fer fyrir Hæstarétt

Vaxtamálið fer fyrir Hæstarétt