fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Guðni segist miður sín: Vill hitta fórnarlömbin – Vonar að Róbert starfi ekki sem lögmaður

Ákvörðunin ekki tekin hjá embætti forseta – Vonar að stúlkurnar haldi áfram að sýna styrk

Einar Þór Sigurðsson
Föstudaginn 16. júní 2017 12:12

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, segist vilja hitta fórnarlömb lögmannsins Róberts Árna Hreiðarssonar og vonar að hann sjái sóma sinn í því að starfa ekki sem lögmaður. Þá segir Guðni að ákvörðun um uppreist æru hafi ekki verið tekin hjá embætti forseta Íslands. Þetta segir hann í viðtali við DV.

Eins og greint hefur verið frá staðfesti Hæstiréttur í gær úrskurð Héraðsdóms Reykjaness þess efnis að Róbert gæti aftur starfað sem lögmaður eftir að hafa hlotið uppreist æru í september síðastliðnum. Róbert var dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn fjórum stúlkum og missti hann lögmannsréttindi sín í kjölfarið.

Í samtali við DV segir Guðni að ákveðin lög gildi um uppreist æru og þeir sem sækist eftir slíku geri það hjá dómsmálaráðuneytinu. Þar sé hin eiginlega stjórnarathöfn tekin og hann fái svo beiðnina til undirskriftar. Hann segir að þann 16. september síðastliðinn hafi hann fengið fjórar slíkar beiðnir inn á borð til sín og ein þeirra hafi varðað Róbert Árna, eða Robert Downey. Þeim hafi ekki fylgt rökstuðningur heldur einungis nöfn viðkomandi einstaklinga og lengd dóms. Þannig hafi málum háttað að daginn áður hafi hann verið staddur erlendis og þá hefði undirskriftin fallið í skaut handhafa forsetavalds.

Í samtali við DV segir Guðni:

„Í ráðuneytinu er ákvörðunin tekin út frá lögum og reglum. Þar er stjórnarathöfnin tekin. Svo berst hún mér því að ég þarf að skrifa undir. Ég er ábyrgðarlaus eins og stendur í stjórnarskrá og þegar ég fæ þessa tillögu eins og 16. september þegar fjórir fengu uppreist æru, þá fæ ég engar frekar upplýsingar en nafn og kennitölu og lengd dóms. Ég fæ engar upplýsingar um upphaflegt afbrot. Engin fylgigögn eða rökstuðning, ekkert frekar en forverar mínir í þessari stöðu. Mín undirskrift er formlegs eðlis arfur frá liðinni tíð þegar litið var á að forseti hefði náðunarvald.“

„Það breytir því ekki að ég hef hina dýpstu samúð með fórnarlömbum þessa brotamanns og vona að hann taki ekki til starfa sem lögmaður.“

Er þetta skynsamlegt fyrirkomulag?

„Nei, enda hef ég lengi talað um að því þurfi að breyta. Bæði í fræðimennsku og í framboði til Forseta Íslands. Núna líka í þessu embætti að mér finnst ákvæði um völd og verksvið Íslands óskýr að mörgu leyti. Að þegar stendur að forseti geri hitt og þetta þegar hann gerir það ekki í raun vegna þess að hann er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum. Ráðherrar framkvæma vald sitt, veldur því að sá misskilningur verður uppi að ég taki ákvarðanir sem ég geri í raun ekki. Ég viðurkenni hins vegar fúslega að ég skrifaði undir. Hvað hefði gerst ef ég hefði ekki skrifað undir. Ég veit núna hver þessi maður er. Ég veit ekki hver hinir þrír eru. Ég gæti svo sem reynt að gúggla það. Þá gæti fólk spurt, skrifar þú undir hvað sem er. Eins og stjórnkerfið er er ætlast til þess af mér því ég er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum og læt ráðherra framkvæma vald mitt sem þýðir að ákvörðunin er tekin í ráðuneytinu.“

Hvað myndi gerast ef þú myndir neita?

„Það eru engin fordæmi fyrir slíku. Hugsanlega yrði ég sakaður um stjórnarskrárbrot. Hugsanlega yrði ég sakaður um lagabrot, því þessi maður, samkvæmt lögum uppfyllir öll skilyrði til að fá uppreist æru. Látum þetta mál þá verða til þess að breyta því sem fólkið í landinu vill breyta. Ég vil breyta því. Ég á nóg með bera ábyrgð á mínum eigin ákvörðunum þó að ég þurfi ekki að bera ábyrgð á því sem er ákveðið annar staðar samkvæmt lögum og hefðum. Ég myndi vilja breyta lögum um völd og verksvið forseta Íslands.

Ég sem almennur borgari myndi vilja sjá einhver ákvæði að sumar tegundir afbrota séu þess eðlis að almenn ákvæði um uppreist æru eigi ekki við. Ég er ekki að biðja um meðaumkun. Ég bið um að fólk sýni því skilning hvernig kerfið virkar í raun. Ég er ekki fórnarlamb. Það eru þau sem þessi maður braut á, sem eru fórnarlömb. Það er einstaklega sárt að þau þurfi að þola þessa upprifjun núna. Maður finnur afskaplega vel í dag að það er enginn dans á rósum að gegna þessu embætti. Eina sem ég bið um er að fólk sýni þessu skilning í raun.“

Ef þú myndir lenda í því aftur á morgun að þurfa að veita manni uppreist æru og þú vissir að viðkomandi væri dæmdur barnaníðingur, myndir þú skrifa nafnið þitt undir?

„Það væri poppúlist svar að segja að ég myndi aldrei skrifa undir svoleiðis. Ætli ég myndi ekki segja að þetta sé ekki sú staða sem ég vilji vera settur í og eigi forseti að bera ákvörðun um uppreist æru, þá skuli umsóknir sendar hingað, og þá skuli vera hér á skrifstofu forseta Íslands, nefnd mannanna sem geti hjálpað mér að leggja mat á þetta, eigi þetta að vera mín ákvörðun. Því að viljum við að þetta sé geðþóttaákvörðun eins manns hvernig farið er með umsóknir fólks í réttarríki. Þannig að eigi það að vera ákvörðun forseta frá A til Ö þá vil ég að umsóknir um það séu sendar hingað og hér sé þá það kerfi sem nú er í ráðuneytinu. Til að svo verði þarf að breyta stjórnarskrá og almennum lögum.“

Hvernig líður þér að hafa sett nafnið þitt á þetta plagg? Hvernig er tilfinningin eftir á?

„Tilfinningin er alls ekki góð. En ég sóttist eftir þessu embætti og stend og fell með því. Ég á sjálfur fimm börn. Ég get ekki ímyndað mér hversu sárt það er að hafa þurft að þola svona brot. Ég get ekki ímyndað mér hvernig ég myndi bregðast við sem foreldri. En við lifum samt í réttarríki og viljum ekki að geðþótti ráði för í því, þannig að þó að mér líði mjög illa yfir því að hafa staðfest með formlegum hætti staðfest ákvörðun ráðuneytisins þá, lít ég svo á að það hafi verið í mínum verkahring að ljúka því ferli með þessum formlega hætti. Það breytir því ekki að ég hef hina dýpstu samúð með fórnarlömbum þessa brotamanns og vona að hann taki ekki til starfa sem lögmaður. Ég fæ ekki séð að það sé samfélaginu til gagns.“

Tvær af konunum fjórum heita Glódís Tara og Nína Rún. Ertu með skilaboð til þeirra tveggja og allra fórnarlamba mannsins?

„Það væri þá það, að ég myndi að sjálfsögðu vilja tala við þær hafi þær áhuga á því og útskýra augliti til augliti eða í einkasamtali afstöðu mína. Ég vona að þær haldi áfram að sýna þann styrk sem ég veit að þær hingað til sýnt þrátt fyrir þau afbrot sem á þeim voru framin. Þær bera enga sök á neinn hátt. Geti ég eitthvað gert til að láta þeim líða betur, geri ég það, hvernig sem er. Þá spyr fólk, af hverju skrifaðir þú undir. Þá bið ég um það eitt að fólk átti sig á því sem ég var að rekja áðan.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Mannskæður hernaður Rússa í Úkraínu – „Við nálgumst tölur eins og voru í síðari heimsstyrjöldinni“

Mannskæður hernaður Rússa í Úkraínu – „Við nálgumst tölur eins og voru í síðari heimsstyrjöldinni“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Sýknaður að hluta eftir bílaeltingaleik í Kjós – Þótti ekki líklegur til stórræða á 19 ára gömlum bíl

Sýknaður að hluta eftir bílaeltingaleik í Kjós – Þótti ekki líklegur til stórræða á 19 ára gömlum bíl
Fréttir
Í gær

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán

Vilhjálmur bendir á hvað vaxtahækkun Íslandsbanka þýðir fyrir 45 milljóna króna lán
Fréttir
Í gær

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið
Fréttir
Í gær

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund

Gosið fór yfir Grindavíkurveg í nótt – Fer 300 metra á klukkustund
Fréttir
Í gær

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?

Er þriðja heimsstyrjöldin í uppsiglingu? Hvað segja sérfræðingar?