fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Fréttir

Segir íslamista vilja rústa vestrænni menningu innan frá en þeim muni ekki takast það

„Fáránlegt að kalla mig rasista,“ segir Robert Spencer í viðtali við DV

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 3. maí 2017 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Væntanlegur fyrirlestur bandaríska trúarbragðafræðingsins Robert Spencer, sem verður í Reykjavík fimmtudaginn 11.
maí, hefur þegar vakið töluverða athygli því Spencer er mjög umdeildur maður. Fyrirlestur Spencers ber yfirskriftina Íslam og framtíð evrópskrar menningar. Einnig mun flytja fyrirlestur hin kanadíska Christine Williams undir heitinu Er hægt að nútímavæða Íslam? Williams er blaðamaður og skrifar fyrir marga þekkta fjölmiðla en hún er einnig í stjórn félagsins Canadian Race Relations Foundation og vinnur þar að því að milda kenningar íslams á Vesturlöndum í samvinnu við stjórnvöld og múslima í Kanada.

Robert Spencer hefur verið sakaður um fjandsamlegar alhæfingar um múslima og íslam, hefur verið sakaður um íslamófóbíu og rasisma. Árið 2013 var honum meinað að koma til Bretlands til að tala á fundi samtakanna English Defense League eða EDL. Það var þáverandi innanríkisráðherra og núverandi forsætisráðherra Bretlands, Theresa May, sem stóð að banninu og taldi að Spencer breiddi út boðskap sem væri óæskilegur í samfélaginu. Væntanleg heimsókn hans olli mikilli ólgu meðal múslima og vinstri sinnaðs fólks á Bretlandi.

Christine Williams
Christine Williams

Grunnástæðan fyrir neikvæðri gagnrýni í garð Spencers er að hann, eins og margir gagnrýnendur á íslamisma, neitar að líta á íslamska öfgahyggju sem verk örfárra manna heldur telur rót öfganna liggja í trúnni sjálfri og íslömskum trúarsetningum, og að mjög stór hluti múslima aðhyllist óæskileg viðhorf. Þetta telja margir jafngilda rasisma.
Margir véfengja gæði fræðimennsku Spencers, segja hann ekki fræðimann heldur bara bloggara en hann heldur úti vefsvæðinu jihadwatch.org sem er þyrnir í augum margra. Hér verður að sjálfsögðu ekki reynt að leggja mat á fræðimennsku Spencers en fullyrða má að hann njóti almennt ekki viðurkenningar í háskólasamfélaginu.

Það eru samtökin Vakur sem standa fyrir heimsókn Spencer og Williams en nánar er fjallað um þau og fyrirlestrana á heimasíðu samtakanna.

DV hafði samband við þennan umdeilda rithöfund, Robert Spencer, og lagði fyrir hann nokkrar spurningar. Fyrsta spurningin var hvað svokölluð íslamsvæðing Vesturlanda feli í sér og hvort hún sé mikil ógn:

„Múslimska bræðralagið hefur lýst því yfir að það stefni að eyðileggingu vestrænnar menningar innan frá og að lög Allah taki yfir, en þetta kemur fram í skriflegu skjali sem hefur lekið út frá samtökunum. Ég held ekki að þessum öflum muni takast að þurrka út og eyðileggja vestræna menningu innan frá en þau valda miklum vanda með tilraunum sínum til þess. Íslamsvæðing felur í sér almenna viðurkenningu á íslömskum lögum og siðum, t.d. takmörkun á réttindum kvenna, en þannig byrjar það vanalega.“

Hvernig telur þú að bregðast eigi við neikvæðum hliðum íslams?

„Vestræn ríki eiga að framfylgja sínum landslögum og koma í veg fyrir að svæði byggð múslimum vaxi og þau eiga að standa vörð um grunngildi sín og mannréttindi.“

Þú hefur verið sakaður um íslamófóbíu og jafnvel rasisma. Hvers vegna? Hvernig svarar þú þeim ásökunum?

„Ég hef fengið yfir mig slíkar ásakanir vegna þess að þær eru partur af aðferðum þeirra sem styðja hryðjuverk jihadista og kúgun Sharia-laga. Þessir aðilar ráðast stöðugt á persónu þeirra sem dirfast að segja sannleikann um hugmyndafræðina sem liggur á bak við hryðjuverk jihadista. Íslamófóbía er bara áróðurshugtak sem er hannað til að fæla fólk frá því að berjast gegn jihad-isma og hryðjuverkum. Íslam er ekki kynþáttur og múslimar eru af öllum kynþáttum, því er fáránlegt að kalla mig rasista en sýnir hve kunnáttusamlega Bræðralag múslima og hópar því tengdir hafa tileinkað sér tungumál borgararéttar og spila á strengi sögu mannréttindabaráttu Vesturlanda.“

Ertu sekur um að alhæfa um alla múslima?

„Nei. Þeir sem halda því fram hafa aldrei lagt fram eina einustu tilvitnun frá mér til að styðja slíkar ásakanir.“

Neikvæðar hliðar íslams, eins og hryðjuverk og óásættanleg viðhorf til mannréttinda, stafa þær bara af öfgum og mistúlkunum á íslam eða er sjálfri trúnni og trúarritunum um að kenna?

„Íslömsk lög, sem sögð eru vera lög Allah, mæla fyrir um hernað gegn og undirokun hinna vantrúuðu og þau afneita réttindum kvenna og þeirra sem eru ekki múslimar. Slíkar kenningar eru kjarni íslamskra trúartexta og ekki bara viðhorf einhvers sértrúarsöfnuðar, eða einhver afbökuð útgáfa af íslam. Ég er ekki fyrstur til að uppgötva þessar kenningar og ekki spann ég þær upp.“

Veistu eitthvað um Ísland? Þurfa Íslendingar að vera á varðbergi gagnvart öfga-íslam?

„Ég var ekki beðinn um að koma til landsins þín vegna þess að ég hefði þekkingu á sögu þess eða stöðu mála þar og ætla heldur ekki að ræða slíkt. Ég hef heyrt að Ísland sé afskaplega fallegt og ég hlakka til ferðarinnar. Hins vegar þurfa allir að vera á varðbergi gagnvart þessari hugmyndafræði sem hefur mikinn metnað gagnvart öllum heiminum.“

Tommy Robinson - stofnandi EDL
Tommy Robinson – stofnandi EDL

Nokkur orð um EDL

Eins og áður sagði var Robert Spencer meinað að koma til Bretlands og tala á fundi samtakanna EDL, The English Defense League. EDL eru umdeild og af mörgum illa þokkuð samtök. Hins vegar hafa samtökin verið kölluð nýnasistasamtök í umfjöllun ýmissa miðla um Robert Spencer en ekki er hægt að kalla þau það án þess að nota alveg nýja skilgreiningu á hugtakinu nasismi. Tommy Robinson heitir stofnandi hreyfingarinnar sem varð þekkt fyrir mótmælagöngur gegn íslamisma um hverfi múslima í Luton og Birmingham. Robinson sagði sig úr hreyfingunni árið 2014 þar sem hann taldi of marga ofstækismenn hafa slæðst inn í hana og gekk til liðs við hreyfingu hófsamra múslima sem berjast gegn öfgum innan íslam. Því næst stofnaði hann Englandsdeild samtakanna Pegida sem hafa beitt sér mjög gegn íslamisma og eru mjög umdeild. Tommy Robinson hefur oft verið úthrópaður sem íslamófób og rasisti en hann öðlaðist aukna virðingu margra er hann flutti fyrirlestur við The Oxford Union þar sem hann meðal annars fjallaði um kerfisbundin kynferðisbrot pakistanskra innflytjenda gegn breskum stúlkubörnum og unglingsstúlkum, uppgang öfgahyggju meðal múslima í heimaborg hans, Luton, sem og tilurð EDL. Þrátt fyrir harða gagnrýni á Tommy Robinson eru fáir sem kalla hann nasista í fullri alvöru enda er hann mjög hliðhollur gyðingum og Ísraelsríki.

Óskar Steinn Ómarsson
Óskar Steinn Ómarsson

Verða mótmæli fyrir utan Grand Hótel?

Ritari Samfylkingarinnar, Óskar Steinn Ómarsson, fer hörðum orðum um Spencer og heimsókn hans til landsins í grein á vefsvæðinu medium.com. Bendir Óskar á að skrif Spencers hafi verið norska hægriöfgamanninum og fjöldamorðingjanum Anders Breivik innblástur fyrir illvirki sín. Einnig hvetur Óskar til mótmæla fyrir utan Grand Hótel þegar fyrirlestrarnir verða haldnir.

Sema Erla Serdar, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar og stofnandi Solaris – hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, skrifar grein um Spencer og væntanlega komu hans hingað til lands á vefnum Kvennablaðið. Þar segir meðal annars:

„Samtökin Vakur og Robert Spencer eiga ekkert erindi við íslenskan almenning. Við höfum ekkert að gera við einstaklinga sem hafa sitt lifibrauð af því að selja ótta og hatur í garð fólks. Við erum lýðræðisríki þar sem trúfrelsi, mannréttindi og bann við mismunun eru varin í stjórnarskrá og landslögum. Við erum þjóð mannréttinda, frelsis og réttlætis. Það eru ekki múslimar sem ógna friði, öryggi og almannahagsmunum á Íslandi, það eru menn eins og Robert Spencer og þeir sem standa að baki samtakanna Vakur!“

Sema Erla Serdar
Sema Erla Serdar

Mynd: sr-photos.com

Segir ekki Spencer að kenna þó að Breivik hafi misnotað skrif hans

Sigurfreyr Jónasson
Sigurfreyr Jónasson

Sigurfreyr Jónasson er einn af forsvarsmönnum Vakurs sem standa að heimsókn Spencers og Williams til landsins. Sigurfreyr er síðuhaldari vefsvæðisins sigurfreyr.is þar sem hann hefur skrifað mikið um íslam, moskubyggingu í Reykjavík og fleira. Um gagnrýni á komu Spencers til landsins segir Sigurfreyr meðal annars í samtali við DV:

„Það er vissulega rétt, að Andres Breivik sendi frá sér 1500 bls. ,,greinargerð“ stuttu áður, en hann framdi fjöldamorðin í Noregi. Þar vitnar hann í Robert Spencer, ásamt fjölda annarra kunnra fræðimanna, t.d. vitnar hann í rithöfundana George Orwell og Ayan Rand, hagfræðinginn Adam Smith, stjórnmálavitringinn Edmund Burke og heimspekinga á borð við Thomas Hobbes, John Stuart Mill, John Locke og William James. Einnig í Barack Obama og skrif margra annarra. Tekur heilu kaflana úr verkum rithöfunda og blaðamanna, án þess að geta hver höfundurinn er. Breivik er augljóslega ekki heill á geði, og auðvitað er ekki hægt að gera neitt af þessu fólki, sem hann vitnar í, ábyrgt fyrir voðaverkunum í Útey. Í gær birtu fjórir íslenskir fjölmiðlar, keimlíkar greinar, á nær sama tíma, og með sömu staðreyndavillunum. Fólk sér í gegnum svona. Íslendingar eru engin fífl. Það kom mér reyndar á óvart hvað margir Íslendingar þekktu til Spencers og höfðu lesið bækur hans.“

Sem fyrr segir verða fyrirlestrar þeirra Robert Spencer og Christine Williams að Grand Hótel Reykjavík fimmtudaginn 11. maí kl. 20.00 – 22.00, í salnum Gullteigur. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir. Sjá nánar á Vakur.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Árni bendir lögreglu á að hann gengur enn laus – „Hvað veldur?“

Árni bendir lögreglu á að hann gengur enn laus – „Hvað veldur?“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Óánægjualda vegna nafnsins á Pablo Discobar – Jón Bjarni segir merkilegt að vera slaufað í Kólumbíu

Óánægjualda vegna nafnsins á Pablo Discobar – Jón Bjarni segir merkilegt að vera slaufað í Kólumbíu
Fréttir
Fyrir 2 dögum

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ákæran gegn Sigurði Fannari birt: Játar hvorki né neitar því að hafa banað dóttur sinni

Ákæran gegn Sigurði Fannari birt: Játar hvorki né neitar því að hafa banað dóttur sinni