Íbúar í nágrenninu áhyggjufullir og hafa fengið sig fullsadda af sóðaskapnum – Verslunarhúsnæðið staðið autt um nokkurt skeið
Mannaskítur, kassar fullir af notuðum sprautum, rusl og annar óþrifnaður er meðal þess sem íbúar í nágrenninu hafa ítrekað fundið á lóð atvinnuhúsnæðis við Norðurbrún 2 í Reykjavík að undanförnu. Þeir hafa fengið sig fullsadda af sóðaskapnum í kringum húsið sem verið hefur í niðurníðslu síðan verslun lagðist þar af fyrir nokkrum misserum. Áhyggjufullir íbúar í grenndinni hafa gert Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur viðvart um málið.
Í samtali við DV segir kona sem býr í nágrenninu að í minnsta kosti þrígang hafi fundist gulir förgunarkassar fyrir sprautur og nálar við húsið. Í tvígang hefur hún persónulega farið um og tínt hinar varhugaverðu notuðu nálar upp.
Fyrsta tilfellið sem hún man eftir var fyrir nokkrum mánuðum þegar nágranni hennar fann nálar sem dreift hafði verið við húsgaflinn.
„Ég tók til minna ráða, fór í hanska, sótti ísbox og tíndi þetta upp. Hélt auðvitað að þetta væri einstakt tilfelli. Það er búið að vera afskaplega draslaralegt þarna, húsið í niðurníðslu og alltaf að verða ógeðfelldara. Síðan gerðist það um daginn að þarna var gulur förgunarkassi, opinn, og nálar og sprautur bókstaflega úti um allt. Aftur tíndi ég þetta upp og gekk frá þessu. Loks var á dögunum búið að planta þarna öðrum kassa, af stærstu gerð, sem að vísu var ekki opinn. Það er hreinlega eins og einhver sé að skila af sér þarna úti á horni,“ segir konan sem kveðst vön að umgangast sprautur og nálar við hinar ýmsu aðstæður.
„En fólk í kringum mig, sem ekki er vant þessu, fer á taugum við að sjá svona.“
Hún segir alltaf einhvern sóðaskap vera þarna í kring og fólk sé að skila af sér pokum og drasli, að því er virðist í skjóli nætur. „Þetta er orðið verulega óhugnanlegt.“ Konan segir að Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hafi verið tilkynnt um málið.
Vart þarf að fjölyrða um hætturnar sem fylgt geta notuðum sprautunálum og því ef börn, fullorðnir eða fjórfætlingar stinga sig á þeim þegar þær liggja eins og hráviði úti um allt við fjölfarna götu.
Samkvæmt fasteignaskrá er húsnæðið að Norðurbrún 2 í eigu samnefnds félags, Norðurbrún 2 ehf. Húsnæðið er um 460 fermetra verslunarhúsnæði sem hefur meðal annars hýst nytjamarkað Vonar og bjarga og þar áður verslun 11-11 svo eitthvað sé nefnt. Ekki náðist í forsvarsmann félagsins við vinnslu þessarar fréttar.
Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðiseftirlitinu skoðuðu fulltrúar Norðurbrún 2 á þriðjudag. Í svari við fyrirspurn DV segir að eftirlitið geri þá kröfu á skráðan eiganda húsnæðisins að þarna verði hreinsað í kringum húsið og á lóð og gripið til ráðstafana til að koma í veg fyrir uppsöfnun á úrgangi og rusli til frambúðar. Bréf með þessum kröfum um úrbætur voru póstlagðar til eiganda á miðvikudag en eftirlitinu hafði ekki tekist að ná í hann símleiðis.