„Vantrú“ grefur um sig við Öxarfjörð vegna brostinna vona – Ráðherra vill klára Dettifossveg á kjörtímabilinu
„Undanfarin ár hefur allt okkar starf byggst á því að þessi vegur komi,“ segir Axel Yngvason, ferðaþjónustubóndi í Skúlagarði í Kelduhverfi. Óvissa er uppi um hvenær vegurinn á milli Ásbyrgis og Dettifoss verður kláraður en hann yrði lífæð fyrir brothætta byggð við Öxarfjörð og nágrenni. Vegarkaflinn, samtals um 18 kílómetrar, myndi leysa af hólmi niðurgrafinn moldarveg, sem opinn er yfir hásumarið, og um leið hleypa ferðamannastraumi úr Mývatnssveit niður í Ásbyrgi og nágrenni. Jón Gunnarsson samgönguráðherra segir við DV að hann vilji klára veginn á kjörtímabilinu.
DV hefur ítrekað fjallað um málið undanfarin misseri en í september var sú ákvörðun tekin í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis að ljúka við á næstu tveimur árum. Sú tillaga var samþykkt á þingi en það kom heimamönnum í opna skjöldu þegar í ljós kom að ekki var gert ráð fyrir fjárframlagi til vegarins í fjárlagaáætlun fyrir árið 2017, sem þingið samþykkti í desember. Það var gífurlegt áfall fyrir heimamenn, sem telja að vegurinn muni skilja á milli feigs og ófeigs þegar kemur að framtíð atvinnuuppbyggingar á norðausturhorninu. Áhrifa hans muni gæta á stóru svæði; í Öxarfirði, á Kópaskeri, á Raufarhöfn og á Langanesi.
„Við bættum við 320 milljónum vegna framkvæmda við veginn á þessu ári. Síðan hef ég óskað eftir því við Vegagerðina að í árslok verði tilbúið útboð fyrir næsta áfanga,“ segir Jón Gunnarsson í samtali við DV. Á þessu ári verður lokið við veginn frá Ásbyrgi að Hljóðaklettum, með bundnu slitlagi. Áfram verður ófært stærstan hluta ársins á milli Hljóðakletta og Dettifoss, en þar er um að ræða 18 kílómetra kafla.
Jón segist skilja gremju íbúa við Öxarfjörð og átta sig á mikilvægi þeirrar vegaframkvæmdar sem Dettifossvegur er. „Við gerum okkur grein fyrir mikilvægi hans fyrir mjög stórt svæði, en það er víða sem skóinn kreppir,“ segir Jón.
Hann bendir á að tíu milljarða hafi vantað upp á til að hægt væri að framfylgja samgönguáætlun. Samkvæmt upplýsingum DV kostar um fjóra milljarða að ljúka við Dettifossveg. Jón segir að stjórnvöld séu eftirá þegar kemur að samgöngumálum. Ef önnur leið fyndist til fjármögnunar á uppbyggingu stofnæða til og frá höfuðborgarsvæðinu, myndi það létta mjög á fyrirliggjandi verkefnum á samgönguáætlun. Þá væri hægt að beina fjármagninu sem losnar í þau verkefni.
Aðspurður segist Jón ekki geta lofað því hvenær Dettifossvegur verður tilbúinn í heild sinni. Hann ítrekar að áframhald verði á þessu verkefni á næsta ári, í kjölfar útboðs. „Ég vil sjá þennan veg klárast á þessu kjörtímabili. Hann er mjög ofarlega á forgangslista.“
„Ég veit ekki hvað við höfum hangið hér í mörg ár í þeirri von og vissu að þessi vegur kæmi innan örfárra ára. En þau eru orðin ansi mörg.“
Í Skúlagarði í Kelduhverfi er hótel og gistihús. Axel heldur úti 17 herbergjum. En vertíðin er stutt. „Við erum með rekstur í þrjá til fjóra mánuði en það myndi breytast ef vegurinn kæmi. Þá værum við að horfa upp á rekstur í sex til átta mánuði,“ segir hann og vísar þar í áhrif annarra samgöngubóta, svo sem Héðinsfjarðarganga, á ferðaþjónustubændur. „Það yrði gífurleg breyting. Ég er búinn að vera hérna í tíu ár. Mér hefði aldrei dottið í hug að þetta yrði raunin. Það sem er verst núna er að það er allt í lausu lofti,“ segir Axel við DV.“
Hann segir að ferðaþjónustuaðilar og aðrir heimamenn séu orðnir langþreyttir á ástandinu en DV hefur undanfarna mánuði rætt við marga Öxfirðinga sem segja allir sömu söguna. Ævar Ísak Sigurgeirsson, verslunarmaður í Ásbyrgi, þurfti til að mynda að hafa verslunina í Ásbyrgi lokaða síðasta vetur, í fyrsta skipti í 41 ár. Og aftur núna í vetur, að langmestu leyti. Sú er raunin þrátt fyrir að hann reki verslun innan marka þjóðgarðs, á einhverjum fegursta ferðamannastað landsins, á mesta uppgangstíma ferðaþjónustu í sögunni. „Maður veit ekkert hvernig maður á lengur að smæla framan í heiminn,“ sagði hann við DV. Benedikt Björgvinsson, sem rekur gistiþjónustu á Kópaskeri sagði við DV í fyrra að vegurinn væri iðulega notaður sem kosningaloforð, en síðan yrði ekkert um efndir. Hann virðist, eins og sakir standa, hafa hitt naglann á höfuðið hvað það varðar.
„Það er skrýtið ef ríkisvaldið er ekki með okkur í þessu. Hér binda menn miklar vonir við ferðaþjónustu. Þetta hefur áhrif alveg austur til Raufarhafnar.“
Axel segir að hann sé tekjulaus við reksturinn. Hann sjái ekkert eftir vinnuframlaginu en honum svíði mest að geta ekki gert vel við þá sem hjálpa honum að reka gistiþjónustuna. „Ég er kauplaus við þetta. Ég vissi það svo sem alltaf. Ég er ekki að tala um neitt gullgrafaraæði. En þú átt að geta haft sæmilegt kaup og greitt einhvern arð af af fjárfestingunni.“ Hann segir að fólk á þessu svæði sé á barmi þess að gefast upp.
Mjög margir ferðamenn sem fara um Norðausturland heimsækja Mývatnssveit og Dettifoss, áður en þeir halda austur á land. Frá Dettifossi niður í Ásbyrgi eru 37 kílómetrar en til þess að komast þangað þurfa ferðamennirnir – níu mánuði á ári – að aka til baka um Mývatnssveit, Húsavík, Tjörnes og Kelduhverfi. Sú leið telur um 150 kílómetra og annað eins ef miðað er við að ekið sé aftur til baka. Axel segir að ferðaþjónustuaðilar forðist að bóka hjá honum gistingu á jaðartímum, þegar ekki er hægt að treysta því að komast leiðar sinnar. Þá vilji hann helst ekki taka á móti bókunum frá ferðamönnum sem bóka hjá honum gistingu vegna nálægðar við staði sem ekki eru aðgengilegir.
„Maður finnur mun þegar þessir gömlu vegir – sem lagðir voru í upphafi bifreiðaaldar – eru opnaðir. Þá eykst umferðin. Þingmenn verða örugglega aftur orðnir jákvæðir fyrir kosningar næsta haust. Þetta gufar upp þess á milli.“
Axel segir að mjög mikil aukning hafi verið í ferðaþjónustu á svæðinu yfir sumartímann og á þeim mánuðum dragi heimamenn fram lífið. En þegar vegurinn lokast á hausti, oftast snemma í september, skrúfast fyrir allt. Opnun vegarins myndi þýða að hægt væri að halda úti rekstri á jaðarmánuðum, að vori og að hausti, og fyrir vikið væri hægt að halda úti verslun allt árið um kring, eða því sem næst. Það skiptir heimamenn miklu, sem von er. „Vegurinn myndi skapa mikil atvinnutækifæri á svæðinu og myndi þýða að fólk gæti átt hér von um bjarta framtíð. Eins og ástandið blasir við núna er ekki bjart framundan.“
Axel er búinn að senda öllum þingmönnum kjördæmisins bréf vegna málsins og hefur að sögn skrifast á við tvo, Bjarkeyju Olsen og Valgerði Gunnarsdóttur. Hann segir það engu hafa skilað. Hann íhugar að grípa til róttækari aðgerða til að setja þrýsting á stjórnvöld að bregðast við. „Ég er að hugsa um að fara suður og beita þrásetu til að fá botn í þetta.“
„Ég er að hugsa um að fara suður og beita þrásetu til að fá botn í þetta.“
Hann segir að verkefni stjórnvalda um eflingu brothættra byggða sé hjómið eitt þegar svona er komið. „Ef þetta er útkoman úr verkefninu þá er ekki von að fólk sé í standi til að taka gríni. Það grefur um sig vantrú í samfélaginu hér og fólk missir trú Alþingi og stjórnkerfinu.“ Engin uppbygging eigi sér stað á meðan staðan sé svona en til viðbótar má nefna að sveitarfélagið Norðurþing sótti ekki um styrk vegna uppbyggingu ljósleiðara við Öxarfjörð fyrir þetta ár, auk þess sem hitaveita er ekki komin í gagnið í Kelduhverfi.
Spurður um ljósleiðaravæðingu svæðisins segir Jón Gunnarsson að þau mál séu í mjög góðum farvegi. Þó Norðurþing hafi ekki sótt um styrk vegna ljósleiðaratengingar í Öxarfirði þetta árið eigi hann von á umsókn á því næsta. Hann fullyrðir að ljósleiðaravæðingu landsins alls, þar á meðal á norðausturhorni landsins, muni ljúka á þessu kjörtímabili.
Á meðan ráðherra ræður fram úr fjármögnun stórra vegaframkvæmda, og skiptingu kökunnar, bíður fólkið í brothættu byggðinni við Öxarfjörð átekta. Á því má glöggt heyra vonleysistón. „Fólk þorir ekki að fjárfesta og við erum að missa fólk af svæðinu. Það er allt stopp. Við viljum bara að þessi vegur verði kláraður og þá sjáum við um rest,“ segir Axel í Skúlagarði.
„Ég veit ekki hvað við höfum hangið hér í mörg ár í þeirri von og vissu að þessi vegur kæmi innan örfárra ára. En þau eru orðin ansi mörg.“