Fjarskipti og 365 miðlar hafa undirritað samning um kaup Fjarskipta á öllum eignum og rekstri 365 miðla, að undanskildum eignum er varða útgáfu Fréttablaðsins. Hinar keyptu eignir eru meðal annars fjarskipta-, sjónvarps- og útvarpsrekstur 365 miðla auk vefmiðilsins Vísis.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Fjarskiptum.
Helstu sjónvarpsstöðvar eru Stöð 2, Stöð 2 Sport, Stöð 3 og Bíórásin. Helstu útvarpsstöðvar eru Bylgjan, FM957 og X-ið. Fréttastofa 365 miðla, að undanskilinni ritstjórn og rekstri Fréttablaðsins, er hluti hins keypta. Aðilar hafa áður upplýst um gang viðræðna með tilkynningum þann 31. ágúst 2016 og 22. desember 2016. Helsta breytingin frá því sem áður hefur verið tilkynnt er að Vísir og fréttahluti ljósvakamiðla eru nú hluti af kaupunum sem hækkar kaupverð frá áður tilkynntum forsendum.
Kaupverð er á bilinu 3.125-3.275 milljónir króna og mun endanlegt kaupverð ráðast af rekstrarárangri hins keypta fram að afhendingu, að því er segir í tilkynningunni.