Lamborghini-stríðið við Lýsingu reið fyrirtækinu að fullu
Fyrirtækið S-19 ehf., sem áður hét Fjarðargrjót ehf., hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Þetta er í annað sinn sem fyrirtækið fer í þrot en eftir fyrra skiptið, sem átti sér stað árið 2010, var rekstrinum haldið áfram á annarri kennitölu. Fyrirtækið komst í fréttirnar árið 2014, fyrst þegar að hæstaréttardómur féll þar sem fyrirtækið þurfti að skila þrettán tækjum, þar á meðal Land Cruiser og Lamborghini, til fjármögnunarfyrirtækisins Lýsingar. Skömmu síðar notaði Sjálfstæðismaðurinn Jón Gunnarsson mál Fjarðargrjóts sem dæmi um óásættanlega framgöngu fjármögnunarfyrirtækja gegn skuldurum. Síðar var ljóstrað upp um að Fjarðargrjót hefði styrkt prófkjörsbaráttu þingmannsins.
Gjaldþrotaúrskurður Héraðsdóms Reykjaness á hendur S-19 ehf., áður Fjarðargrjóti, var kveðinn upp þann 25. janúar síðastliðinn. Fyrirtækið er í eigu hjónanna Þorsteins Arnar Einarssonar og Hildar Magnúsdóttur en eins og áður segir er þetta í annað sinn sem fyrirtækið fer í þrot.
Fyrirtækið var stofnað árið 1999 og sérhæfði sig í jarðvegsvinnslu. Ekki er annað að sjá samkvæmt ársreikningum en að reksturinn hafi gengið bærilega. Á árunum 2001–2007 greiddu eigendur sér á bilinu 4–8 milljónir í arð árlega. Greinilegt er að umsvif fyrirtækisins hafi aukist jafnt og þétt á þessum árum en allt gekk á afturfótunum á hrunárinu 2008. Afkoman fyrir afskriftir, fjármunatekjur og fjármagnsgjöld var tæpar 59 milljónir króna en þrátt fyrir það var tap ársins alls um 114 milljónir. Munaði þar mest um gjaldfært tap upp á 180 milljónir vegna gengismunar en langtímaskuldir fyrirtækisins uxu úr 152 milljónum upp í 340 milljónir. Stærstur hluti þeirra var tilkominn vegna kaupleigusamninga vegna tækjakaupa. Þrátt fyrir skelfilegt ár greiddu eigendurnir sér 34 milljónir króna í arð. Í kjölfarið var nafni fyrirtækisins breytt í B3 ehf. og 7. október 2010 var félagið tekið til gjaldþrotaskipta.
Sama ár hóf Fjarðargrjót rekstur undir annarri kennitölu. Sú kennitala hafði eitt sinn verið verið með rekstur undir nafninu Víkurlyftur (2003–2005) en síðar var nafninu breytt í Víkurturn og var enginn rekstur í fyrirtækinu, sem var í 100 prósenta eigu Deloitte hf. Hið nýja Fjarðargrjót yfirtók áðurnefnda kaupleigusamninga þrotabús B3 ehf. enda voru þeir endurreiknaðir þannig að upphæðin lækkaði um 93 milljónir. Samkvæmt ársreikningum hefur hinn nýi rekstur gengið illa því samkvæmt ársreikningum tapaði fyrirtækið umtalsverðum fjárhæðum á hverju ári. Afleiðing þess varð að fyrirtækið komst í talsverð vanskil við Lýsingu vegna tækjanna. Vanskilinn leiddu til þess að Hæstiréttur úrskurðaði þann 10. júlí 2014 að Fjarðargrjót þyrfti að skila alls þrettán tækjum, þar á meðal Land Cruiser-jeppa og Lamborghini-dráttarvél, til Lýsingar. Samkvæmt frétt RÚV var markaðsvirði eignanna áætlað um 120 milljónir en Lýsing tók þau yfir á 46 milljónir. Þau seldust síðan á nauðungaruppboði fyrir 73 milljónir.
Niðurstaða Hæstaréttar fór illa í Jón Gunnarsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, sem steig í pontu Alþingis í desemberlok 2014 og gagnrýndi framgöngu Lýsingar harkalega. Sagði þingmaðurinn að þetta tiltekna dæmi væri sláandi og hafði hann reynt ítrekað að fá svör frá forystumönnum Lýsingar án árangurs. Síðar var greint frá því að Fjarðargrjót hefði styrkt prófkjörsbaráttu Jóns um 50 þúsund krónur. Í samtali við RÚV vísaði hann því alfarið á bug að hann beitti sér sérstaklega í þágu þeirra sem styrktu hann.