Ársins 2017 verður ef til vill minnst sem árs óstöðugleika á sviði stjórnmála, efnahagsuppgangs en einnig ársins þar sem konur hættu að láta karla vaða yfir sig á skítugum skónum. Það hafa því verið ýmis tilefni fyrir þjóðþekkta einstaklinga til að tjá sig í ræðu og riti um málefni líðandi stundar. Mörg eftirminnileg ummæli féllu á árinu; jákvæð, neikvæð og sum kannski eilítið kjánaleg. Hvað sem því líður hefur DV tekið saman eftirminnilegustu ummæli ársins og er af nógu að taka.
„Þeir hvöttu til nauðgana á mér.“ – RÚV
Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fyrrverandi þingmaður og borgarstjóri, gerði upp áreiti sem hún varð fyrir eftir hrun. Hópur fólks safnaðist saman fyrir utan heimili hennar svo vikum skipti, sagði hún að þjóðþekktir nafngreindir menn hafi hvatt aðra menn til að fara heim til hennar og nauðga henni.
„Nú bíð ég bara eftir að einhver kenni mér að loka þessum fjanda“
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, tók þá ákvörðun að hætta á Facebook eftir kosningar í haust. Skrafað var um það að Brynjar hafi verið beðinn um að hætta vegna óheflaðra skoðana sem hann lét gjarnan falla á Facebook. Sjálfur sagðist Brynjar hætta af heilsufarsástæðum.
„Vond tilfinning að hafa verið lélegt foreldri.“
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, talaði tæpitungulaust þegar hann viðurkenndi að hafa verið lélegt foreldri þegar hann var ungur.
„Maðurinn var elskulegur og bauð mér bílstjórann sinn því hann veit að ég er ekki með bílpróf“
Það vakti athygli þegar Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, komu saman til fundar við forseta eftir kosningarnar í haust. Var jafnvel talið að með því að koma saman væru þau að senda skýr skilaboð um viljann til myndunar kosningabandalags. Inga sagði þó að Sigmundur hefði einfaldlega boðið henni far.
„Þetta er reyndar kjóll og dáldið stuttur í þokkabót.“
Fjölmiðlamaðurinn Eiríkur Jónsson vakti athygli á brjóstaskoru Kolbrúnar Benediktsdóttur varahéraðssaksóknara í dómsal í sumar. Lét Eiríkur að því liggja að Kolbrún væri djörf að mæta í svo flegnum bol í dómsal. Sjálf sagði Kolbrún að um kjól væri að ræða.
„Hvað er það oft sem við erum með tíu þúsund kall í vasanum? Það er nánast aldrei.“
Benedikt Jóhannesson, þáverandi fjármálaráðherra, vildi taka fimm og tíu þúsund króna seðla úr umferð. Hugmynd Benedikts féll í grýttan jarðveg víða.
„Hugur Grænlendinga er með ykkur í dag.“
Vittus Qujaukitsoq, utanríkisráðherra Grænlands, sendi Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra bréf eftir að lögregla tilkynnti að Birna Brjánsdóttir hefði fundist látin.
„Ég er bara eins og aðrir Íslendingar, held ég, að þegar kynferðisafbrot eru annars vegar þá vill maður helst að brotamaðurinn sé læstur inni og lyklinum hent.“
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, um mál Róberts Downey í sumar.
„Ég er að horfast í augu við að ég á við skapgerðarvandamál að stríða og hef leitað mér aðstoðar í þeim efnum.“
Leikarinn og vöðvafjallið Hafþór Júlíus Björnsson steig fram eftir að hafa verið ásakaður um ofbeldi gegn fyrrverandi kærustum sínum.
„Fólk á bara að láta manninn í friði.“
Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, í viðtali við Eyjuna um málefni Róberts Downey.
„Ég var í ofbeldissambandi við fyrrum vinnustaðinn minn, Stígamót.“
Helga Baldvinsdóttir Bjargardóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtakanna 78, sagðist hafa orðið fyrir andlegu ofbeldi og einelti af hálfu yfirmanna Stígamóta meðan hún starfaði þar.
„Ég sagði til dæmis að ef ekkert yrði gert fyrir þetta fólk þá væri ég tilbúinn að fórna lífi mínu fyrir framan Alþingishúsið. Ég sagði það og meinti það. Bara fyrirfara mér fyrir framan Alþingishúsið í mótmælaskyni.“
Gylfi Ægisson tónlistarmaður í viðtali við DV um stöðu húsnæðismála á Íslandi. Sjálfur hefur Gylfi búið í húsbíl í Laugardalnum að undanförnu.
„Þá erum við að leita að pókemon“
Vigfús Jóhannesson var sakaður um að elta fyrrverandi bocchia-liðsmenn á Lödu Sport.
„Skal ég láta orðsveðju hvína yfir stjórnarmönnum.“
Ljóðskáldið Bjarni Bernharður var lokaður inni á geðdeild eftir ummæli á Facebook.
„Hefur endalaus áhrif að verða vitni að dauða fólks.“ – DV
Birna Hrönn Gunnlaugsdóttir var í Stokkhólmi þegar bifreið var ekið á hóp fólks í borginni í apríl. Fjórir létust og tugir slösuðust.
„Ég bara hnoðaði, hnoðaði og hnoðaði“.
Brynjólfur Jónsson læknir bjargaði lífi drukknandi drengs í Taílandi.
„Ég hef verið pedófíll alveg frá upphafi.“
Gunnar Jakobsson, dæmdur barnaníðingur, talaði tæpitungulaust um barnagirnd sína í umfjöllun DV fyrr á árinu.
„Ég er ekkert merkilegri en aðrir í fyrirtækinu.“
Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA, í viðtali við DV um starfsmannastefnu fyrirtækisins.
„Mamma hringdi hissa og spurði hvað væri að vera epla-hommi“.
Sindri Sindrason var kallaður Epalhommi eftir viðtal hans við Töru Margréti Vilhjálmsdóttur fyrr á árinu.
„Ég naut þess að vera með þessu fallega ljósi.“
Sigurlaug Hreinsdóttir í viðtali við DV þar sem hún biðlaði til Íslendinga að muna eftir dóttur sinni, Birnu Brjánsdóttur, sem góðhjartaðri, fyndinni og sterkri ungri konu sem stóð með sínum.
„Ég bað lögregluna um far í vinnuna“
Magnús Ólafur Garðarsson, oft kenndur við United Silicon, eftir að hafa verið staðinn að ofsaakstri á Teslunni sinni á Reykjanesbraut. Sjálfur þvertók hann fyrir að hafa verið handtekinn og sagðist hafa beðið lögregluna um far í vinnuna.
„Hvítur miðaldra karl verður voða veikur, batnar og fer að ausa yfir pöpulinn“.
María Lilja Þrastardóttir gagnrýndi í september Stefán Karl Stefánsson á Facebook-síðu sinni fyrir að nota forréttindastöðu sína til að að hnýta í mannréttindabaráttu fatlaðra, feitra og kvenna.
„Ég veit ekki hvenær það verður. En mannskepnan gerir mistök og græðgin mun leiða til slæmra ákvarðana hjá fólki. Þetta mun gerast aftur.“
Bjarni Benediktsson í viðtali við Sky News, þar sem hann spáði öðru bankahruni í framtíðinni.
„Við höfum verið vinir.“
Hjalti Sigurjón Hauksson í viðtali við DV í september, aðspurður um samband hans við Benedikt Sveinsson, föður þáverandi forsætisráðherra, Bjarna.
„Ég hef oft lent í því að eftir að ég sest í heitan pott tæmist hann á tveimur mínútum […] Þetta er mest særandi rasisminn.“
Pape Mamadou Faye, þeldökkur framherji knattspyrnuliðs Víkings í Ólafsvík, í viðtali við DV.
„Það er því mögulegt að ég sé með verðmætasta typpið á Alþingi.“
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, á Facebook í september, í tengslum við fyrirsætustörf hans hjá Myndlistaskólanum á Akureyri, þar sem ýmsir nafntogaðir myndlistarmenn fengu að mála hann í Adamsklæðum.
„Mamma ekkert hoppandi glöð“
Stefan Octavian Gheorge í samtali við DV um viðbrögð móður hans um þau tíðindi að hann væri að leika í klámmyndum.
„Við erum sorgmædd og reið.“
Ágúst Ævar Guðbjörnsson, eigandi tíkarinnar Tinnu, sem fannst dauð af mannavöldum og var falin undir steini.
„Ég var bara að leggja.“
Zulmu Ruth Torres í viðtali við DV eftir að hafa velt bíl sínum á stæðinu við verslun Bónus í Árbæ.
„Lýsti hvernig hann ætlaði að borða mig með hníf og gaffli.“
Diljá Tara Helgadóttir sem opnaði sig um ofbeldi sem hún varð fyrir af hendi fyrrverandi sambýlismanns, Björns Daníels Sigurðssonar.
„Viltu vera vinkona mín?“
Yfirmaður í þekktu fyrirtæki við 14 ára tálbeitu DV. Hann var síðar rekinn úr vinnunni vegna málsins.
„Sjálfstæðisflokkurinn er meinsemd í samfélaginu.“
Guðbjörn Guðbjörnsson, sem var í Sjálfstæðisflokknum í 30 ár en varð síðar afhuga honum og telur flokkinn hættulegan samfélaginu.
„Myndbandið er ein píka nánast allan tímann“
Tónlistarkonan og Reykjavíkurdóttirin Anna Tara Andrésdóttir birti sennilega klámfengnasta tónlistarmyndband Íslandssögunnar. Uppistaða þess er nærmynd af píku.
„Ofboðslega harkaleg aðgerð“
Leifur Runólfsson héraðsdómslögmaður um aðgerðir Barnaverndar á Landspítalanum þegar barn var tekið á fæðingardeildinni af þeim hjónum Arleta og Adam Kilichowska.
„Hvað ætlum við að missa marga einstaklinga áður en við vöknum“
Haraldur L. Haraldsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði. Haraldur hafði misst bróðurson sinn, Andra Ágústsson. Haraldur fór ófögrum orðum um geðheilbrigðiskerfið sem hann sagði hafa brugðist.
„Ég vona að síminn hjá mér sé ekki hleraður. Mér leið ekkert voðalega vel þarna í gær.“
Þetta sagði tæplega sextugur leigusali sem gekk í gildru DV og bauð ungri konu í örvæntingarfullri leit að húsnæði lægra leiguverð gegn því að hann fengi að stunda með henni kynlíf.