fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fréttir

Bergljót og Ólína stíga fram: Segir Hannes réttlæta nauðgun og tala illa um geðsjúka – DV birtir áður óbirt bréf

Hannes: „Ég veit ekki í hvaða umræðu ég er kominn.“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Miðvikudaginn 20. desember 2017 14:22

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Framkoma kennara í kennslustundum er á mörgum tímum vafasöm þar sem hann talar ógætilega um geðsjúkdóma og kynferðisofbeldi. Hann talar til að mynda um fólk með geðsjúkdóma sem aumingja og letingja og réttlætir kynferðisofbeldi með því að segja að þeir sem geta ekki varið sig eigi það skilið að vera nauðgað.“

Þetta sögðu nemendur sem sátu áfanga Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar í stjórnmálaheimspeki haustið 2015 í formlegri kvörtun. DV hefur undir höndum tvær formlegar kvartanir nemenda á hendur Hannesi. Til stóð að ræða við Hannes vegna málsins. Sjálfur kannast Hannes ekki við neitt slíkt en hann ræddi málið sem upp er komið stuttlega við DV. Það var Bergljót Mist Georgsdóttir, fyrrverandi hagsmunafulltrúi 2. – 3. árs stjórnmálafræðinemenda, sem sendi annað bréfið fyrir hönd nemanda, en bréfið sem aldrei hefur verið birt opinberlega er að finna í frétt DV.

Ólína Lind Sigurðardóttir, sem var nemandi Hannesar og sat áfanga síðastliðið haust, segir í samtali við DV:

„Í kennslubók Hannesar kallar hann nauðgun „örþrifaráð“ og segir að það sé hægt að réttlæta nauðgun. Mér hefur verið nauðgað og ég, sem nemandi á háskólastigi, vil ekki lesa um hvernig það er hægt að færa rök fyrir því að nauðgunin á mér hafi átt rétt á sér,“ segir Ólína Lind.

DV hafði samband við Hannes sem kannast ekki við málið. „Ég man bara ekki eftir þessu. Svo þegar ég fer að velta þessu fyrir mér þá hef ég náttúrlega heyrt einhverjar óánægjuraddir.“

Vafasöm framkoma Hannesar

Í formlegri kvörtun nemenda sem sátu námskeið Hannesar haustið 2015 kemur fram að nemendur telja Hannes mjög hlutdrægan í kennslu. Einnig kemur fram að námið hvetur ekki til sjálfstæðrar hugsunar eða gagnrýni, heldur ýta kennsluaðferðir og nálgun Hannesar undir páfagaukalærdóm.

„Einnig talar [Hannes] um að oft sé hamingja nauðgarans einfaldlega meiri en sorg þolanda. Þetta er aðeins brot af því sem kennari lét út úr sér sem fór fyrir brjóstið á mörgum. Nemendur eiga ekki að þurfa að sitja tíma þar sem þessu er teflt fram, þar sem margir þeirra hafa lent í kynferðisofbeldi og/eða glíma við geðsjúkdóm.“

Einnig kemur fram í bréfinu að mörgum nemendum leið illa eða óþægilega í tímum hjá Hannesi vegna framkomu hans og yfirlýsinga.

Hér að neðan má lesa bréfið í heild sinni:

„Til þeirra sem málið varðar,

Fyrir hönd nemenda vil ég koma á framfæri formlegri kvörtun vegna námskeiðs Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, Stjórnmálaheimspeki, sem var kennt haustið 2015.

Nemendur vilja koma á framfæri nokkrum punktum sem eru varhugaverðir í kennslu og framkomu Hannesar í tímum sem þeim finnst ekki eiga heima í akademískri stofnun líkt og Háskóla Íslands.

1. Kennari er mjög hlutdrægur í kennslu en aðeins er efni kennt sem hentar nálgun hans á þau málefni sem fjallað er um. Þar af leiðandi eru spurningar í prófum mjög leiðandi og ýta undir þessa sömu nálgun.

2. Námið hvetur ekki til sjálfstæðrar hugsunar eða gagnrýni, heldur ýta kennsluaðferðir og nálgun kennara undir páfagaukalærdóm, sem er allra síst viðeigandi í námsgrein eins og heimspeki. Með þessu fá nemendur ekki tækifæri til að móta og setja fram sína eigin túlkun á námsefninu.

3. Námsefni sem sett er fram í kennsluáætlun eru bækur þekktra fræðimanna sem fjallað er um í námskeiðinu. Hins vegar þarf í raun að vitna, jafnvel orðrétt, í bók Hannesar Hvar á maðurinn heima? (sem er flokkuð sem ítarefni, enda illfáanleg) til þess að fá rétt fyrir svör á prófum. Komi ekki allir þeir punktar fram á prófi sem skrifaðir eru í bók kennara getur nemandi verið dreginn niður fyrir það.

a. Dæmi: Nemandi fór á prófsýningu hjá Hannesi þar sem hann sagði nemanda að lesa bókina sína vildi hann fá betri einkunn á næsta prófi.

b. Dæmi: Annar nemandi sem fór á prófsýningu fékk þau svör frá aðstoðarkennara námskeiðsins að rökin sem vantaði upp á svar hans í prófinu væri að finna á ákveðnum stað í Hvar á maðurinn heima?

4. Framkoma kennara í kennslustundum er á mörgum tímum vafasöm þar sem hann talar ógætilega um geðsjúkdóma og kynferðisofbeldi. Hann talar til að mynda um fólk með geðsjúkdóma sem aumingja og letingja og réttlætir kynferðisofbeldi með því að segja að þeir sem geta ekki varið sig eigi það skilið að vera nauðgað. Einnig talar hann um að oft sé hamingja nauðgarans einfaldlega meiri en sorg þolanda. Þetta er aðeins brot af því sem kennari lét út úr sér sem fór fyrir brjóstið á mörgum. Nemendur eiga ekki að þurfa að sitja tíma þar sem þessu er teflt fram, þar sem margir þeirra hafa lent í kynferðisofbeldi og/eða glíma við geðsjúkdóm.

a. Margir nemendur sögðu að þeim hafi liðið illa eða óþægilega í tímum hjá Hannesi vegna framkomu hans og yfirlýsinga.

Vegna þeirra atriða sem hér hafa komið fram vilja nemendur að Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni verði gert að bæta námsefni og kennsluhætti í námskeiðinu Stjórnmálaheimspeki samanber lið 1., 2. og 3. Einnig vilja nemendur að kennari bæti framkomu sína og taki í það minnsta út það sem sagt er um geðsjúkdóma og kynferðisofbeldi líkt og segir í lið 4.

Er þetta formlegt kvörtunarbréf til að hægt sé að taka á þessu máli innan stjórnmálafræðideildarinnar fyrir næsta námsár 2016 – 2017.

Fyrir hönd nemanda,

Bergljót Mist Georgsdóttir, hagsmunafulltrúi 2. og 3. árs stjórnmálafræðinema námsárið 2015 – 2016.

ATH. Þetta bréf var skrifað í samráði við nemendur Stjórnmálafræðideildar sem sátu námskeiðið haustið 2015.“

Ákveðið að ræða við Hannes

„Þegar ég var hagsmunafulltrúi, árið eftir að ég sat áfangann sjálf, þá komu margir nemendur til mín og voru mjög ósáttir við hvernig námskeiðið hafi farið fram. Þá fór ég að skoða málið fyrir hönd nemanda. Ég endaði með því að skrifa kvörtunarbréf með hjálp nemenda. Ég sendi bréfið til skrifstofustjóra stjórnmálafræðideildar og forseta félagsvísindasviðs. Í kjölfarið fékk ég fund með þeim þar sem við ræddum málið. Á fundinum var ákveðið að Hannes yrði áminntur og honum yrði gert að taka þetta úr áfanganum. Það sem snýr að geðsjúkdómum, kynferðisofbeldi og því sem kvörtunin fjallar um,“ segir Bergljót Mist.

DV hefur í höndunum yfirlit frá fundinum sem Bergljót fékk sent frá skrifstofustjóra. Þar stendur meðal annars:

„Viðstaddir voru sammála um að málalok væru að forseti Félagsvísindasviðs mun ræða við kennara námskeiðsins.“

„Hins vegar erum við að bíða eftir staðfestingu að hann hafi fengið þessa áminningu út af því að eins og við erum að sjá núna, samkvæmt nemendum sem sátu námskeiðið síðastliðna önn, að ekkert hefur breyst. Þannig Hannes er annað hvort að virða áminningu skólans að vettugi og það er ekkert gert til að ítreka þessa áminningu, eða það sé þetta „boys will be boys“ viðhorf til staðar í kringum Hannes. Svo virðist sem það hugarfar til staðar að „þetta sé bara Hannes.“ Ég tel andrúmsloftið vera pínu þannig um hann sem kennara. Því þetta myndi ekki líðast annars staðar að ég tel,“ segir Bergljót.

Kennslubók styrkt af pólitískum samtökum

„Þetta er hans helsta kennsluefni en hann setur það ekki upp þannig. Í kennsluskrá setur hann bókina upp sem stuðningsefni. En allir sem hafa setið þennan áfanga geta tekið undir það að þetta er eina bókin sem hann notar. Við fengum fyriruppgefnar spurningar fyrir bæði hlutaprófin á önninni og þær voru allar úr bókinni hans,“ segir Ólína Lind Sigurðardóttir. Ólína sat áfanga Hannesar haustið 2017. Bókin sem um ræðir, Saga stjórnmálakenninga, er endurprentuð 2017 með leiðréttingum.

„Það sem er einnig áhugavert er að bókin er styrkt af AECR samtökunum. Sjálfstæðisflokkurinn er í þessum samtökum og einnig pólski flokkurinn sem vildi banna fóstureyðingar. Kennslubók í stjórnmálafræði er styrkt af þessum samtökum sem er rosa mál. Ég hef verið að kafa dýpra í þetta og mér finnst málið vera sífellt flóknara,“ segir Ólína Lind.

AECR – Samtök evrópskra íhaldsmanna og umbótasinna

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í samtökunum síðan 2011. Árið 2014 gengu danskir og finnskir öfgaflokkar við samtökin. Báðir flokkarnir hafa verið kenndir við öfgahyggju og stefna þeirra borið vott um kynþátta- og útlendingahatur.

Endurprentuð með leiðréttingum 2017
Endurprentuð 2017 Endurprentuð með leiðréttingum 2017

Pólski íhalds- og þjóðernisflokkurinn, Lög og réttlæti, tilheyrir einnig flokknum. Árið 2017 setti flokkurinn fram frumvarp sem myndi banna fóstureyðingar með öllu í landinu. Ef lagafrumvarpið hefði verið samþykkt gætu konur sem gangast undir ólöglega fóstureyðingu átt yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsi. Flokkurinn hefur einnig verið harðlega gagnrýndir fyrir hatursáróður gegn hinsegin fólki.

Kallar nauðgun örþrifaráð

„Í bókinni kallar Hannes nauðgun „örþrifaráð“ og segir að það sé hægt að færa rök fyrir því að nauðgað. Mér hefur verið nauðgað og ég, sem nemandi á háskólastigi, vil ekki lesa um hvernig það er hægt að færa rök fyrir því að nauðgunin á mér hafi átt rétt á sér,“ segir Ólína.

„Ef maður fær að skoða klámblöð eða klámmyndir eða kaupa blíðu af konu í vændishúsi, þá ættu líkru að minnka á því, að hann beiti örþrifaráðum eins og nauðgun eða lostugu athæfi á almannafæri til þess að svala kynhvöt sinni.“
Örþrifaráð „Ef maður fær að skoða klámblöð eða klámmyndir eða kaupa blíðu af konu í vændishúsi, þá ættu líkru að minnka á því, að hann beiti örþrifaráðum eins og nauðgun eða lostugu athæfi á almannafæri til þess að svala kynhvöt sinni.“

Hannes kannast ekki við kvartanir

DV hafði samband við Hannes sem kannaðist ekki við málið né hinar formlegu kvartanir sem nemendur greindu stjórnendum frá.

Starfsárið 2015-2016, fékkst þú þá aldrei kvörtun frá nemendum, eða heyrðir aldrei af kvörtunum?

„Nei, ég heyrði aldrei af því.“

Hannesi er greint frá því að hagsmunafulltrúi hafi sent kvörtun fyrir hönd nemenda sem sátu áfangann haustið 2015. Þeir hafi í kjölfarið farið á fund með skrifstofustjóra stjórnmáladeildar og forseta félagsvísindsviðs.

„Ég vissi það ekki.“

Það kemur fram í fundaryfirliti að það átti að ræða við þig en þú segir að það hafi aldrei verið gert?

„Ég hef ekki hugmynd um hvað málið snýst. Þess vegna hef ég ekkert um það að segja.“

Þannig þú hefur aldrei fengið neina áminningu?

„Ég hef ekki hugmynd um þetta mál. Ég kem alveg af fjöllum.“

Blaðakona greinir Hannesi frá því að kvörtunin snúist um á hvaða hátt hann hafi rætt um kynferðisofbeldi og andlega veikt fólk við nemendur. Eftir að hafa hlýtt á blaðakonu lesa hluta af kvörtuninni segir Hannes:

„Ég er nú að vísu að rökræða sjónarmið sem tengjast Mills, bæði með og á móti. Og þetta eru ekki nauðsynlega mín orð. Ég er að rökræða. Stjórnmálaheimspeki geymir ekki í sér neinn endanlegan sannleika. Hún er vígvöllur eða samræða kynslóðarinnar um ýmsar röksemdir. Ég er að rökræða í kaflanum um Mills, um ýmis sjónarmið sem tengjast nytjastefnu og frelsislögmáli Mills. Þá tefli ég fram ýmsum rökum sem eru ekki nauðsynlega mínar skoðanir. Ég vona það sé ekki ætlast til þess að maður kenni bara sínar skoðanir. Ég kannast ekki við neitt af þessu. Þetta er eitthvað alrangt. Ég bara þekki þetta ekki.“

Hannes heldur áfram:

„Ég veit ekki í hvaða umræðu ég er kominn. Ég er eingöngu að benda á að nytjastefnu, maðurinn, hann væri í nokkrum erfiðleikum með að andmæla þeirri nauðgun sem væri þannig ánægjuauki nauðgarans væri meiri en ánægjumissir þolandans. Þetta er punktur á móti nytjastefnu. Ég bara botna ekkert í þessu,“ segir Hannes.

„Ég man bara ekki eftir þessu. Svo þegar ég fer að velta þessu fyrir mér þá hef ég náttúrlega heyrt einhverjar óánægjuraddir en ég man samt ekki svona eftir neinu af þessu þannig, svona bara. Já ég man eiginlega ekki eftir þessu. Ég vil ekki láta draga mig í neinar umræður um námskeiðið. Það er bara kennt nákvæmlega það sama efni og í stjórnmálaheimspeki alls staðar annars staðar.“

Er þín kennslubók þá notuð í öðrum stjórnmálaheimspeki áföngum?

„Að sjálfsögðu ekki, ekki erlendis. Hún er nú á íslensku. Þetta er bara samskonar efni og er alls staðar kennt. Þetta er um frelsi og siðferði og hvað langt ríkisvaldið megi ganga í að takmarka aðgengi einstaklinga.“

Blaðakona les upp málsgrein úr bók Hannesar þar sem hann kallar nauðgun örþrifaráð.

„Já, já, það er eitt sjónarmið sem kemur fram hjá þeim sem vilja leyfa þetta. Þeir halda því fram og raunar er það stutt nú einhverjum rökum með rannsóknum þarna aftast, en þetta er bara sjónarmið sem þarna er kynnt.“

Finnst þér rétt að kalla nauðgun örþrifaráð?

„Ég bara ætla ekki að fara út í umræðu af þessu tagi. Þetta kemur mér algjörlega í opna skjöldu. Ég kem alveg af fjöllum um þetta mál.“

Kúgun karla

Hannes Hólmsteinn hefur verið pistlahöfundur hjá Pressunni og Morgunblaðinu. Hann birti pistillinn „Kúgun karla?“ 2014 og fjallaði þar um hvað karlmenn „eiga undir högg að sækja“ í nútímasamfélagi og „hversu miklu erfiðara er á okkar dögum að vera karl en kona og hvers vegna karlmennskuhugsjónin íþyngir körlum frekar en kvenleikahugsjónin konum.“

Sem dæmi nefnir Hannes meðal annars að karlmenn eru skammlífari en kvenmenn, lenda frekar í slysum og hvernig launamunur kynja sé tölfræðileg tálsýn. Hannes flutti einnig erindi um málefnið á alþjóðlegri ráðstefnu sem haldin var sama ár í júní í Háskóla Íslands.

Ólína segir pistil Hannesar, „Kúgun karla?“, vera sama efni og er sett fram í kennslubók hans.

Hannes segir líf karla hættulegra en kvenna.
Fleiri láta „breyta sér“ í konur Hannes segir líf karla hættulegra en kvenna.
Hannes tekur slysatíðni karla sem dæmi um hvað karlmenn eiga undir högg að sækja í nútímasamfélagi. Hann notar einnig þessi rök í pistli sínum: „Kúgun karla?“
Slysatíðini Hannes tekur slysatíðni karla sem dæmi um hvað karlmenn eiga undir högg að sækja í nútímasamfélagi. Hann notar einnig þessi rök í pistli sínum: „Kúgun karla?“

Í pistli Hannesar sem birtist á mbl.is 6. júní 2014 segir hann:

„Víðast hvar eru lífslíkur kvenna nokkrum árum meiri en karla. Meðaltalið í OECD-löndum 2011 var 77 ár fyrir karla og 83 ár fyrir konur. Hér á landi var það þetta sama ár 81 ár fyrir karla og 84 ár fyrir konur. Hins vegar er ekkert tillit tekið til þessa munar á lífslíkum kynjanna við innheimtu lífeyrisgjalda, svo að segja má, að karlar greiði niður lífeyri fyrir konur.“

Skylduáfangi

„Háskóli Íslands ætlar að vera með þeim 200 bestu í heiminum, en síðan er bók eins og þessi námsefni í skylduáfanga. Það væri áhugavert að sjá hvernig yrði tekið á þessu í öðrum Norðurlöndum og öðrum skólum. Hvort bókin myndi viðgangast sem skyldunámsefni,“ segir Ólína.

„Þessi áfangi, Stjórnmálaheimspeki, er skylduáfangi. Þú kemst ekki í gegnum stjórnmálafræði í HÍ nema með vottun frá Hannesi Hólmsteini. Sama hvort stjórnmálafræði sé tekin sem aukagrein þá er þessi áfangi skylduáfangi. Ég er búin að heyra frá fólki, sem var að spá í stjórnmálafræði, að það sé hætt við og geti ekki hugsað sér að fara í þennan áfanga. Svo heyri ég einnig að fólk sé stressað fyrir því að fara í þennan áfanga.“

Yfirlýsing nemanda

„Ég sendi Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, kvörtun 14. desember og fékk þau svör að ábending mín væri móttekin og hafi verið komið á framfæri við forseta Stjórnmálafræðideildar og forseta Félagsvísindasviðs,“ segir Ólína Lind.

DV hefur í höndunum yfirlýsingu sem 65 fyrrverandi og núverandi nemendur stjórnmálafræðideildar hafa skrifað undir. Yfirlýsingin hefur verið send á forseta félagsvísindasviðs, deildarstjóra stjórnmálafræðideildar og rektor Háskóla Íslands. Þar kemur meðal annars fram að kennslubók og kennsluhættir Hannesar innihalda kvenfyrirlitningu, fitufordóma, kynþáttafordóma og niðurlægjandi orðræðu um fatlað fólk.

„Við krefjumst þess að Háskóli Íslands og stjórnmálafræðideild taki ábyrgð. Tíðar kvartanir hafa ekki skilað árangri og tökum við því þetta skref.“

Hér að neðan má sjá yfirlýsingu stjórnmálafræðinemenda í heild sinni:

„Í stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands er kennslubók og kennsluhættir sem innihalda kvennfyrirlitningu, fitufordóma, kynþáttafordóma og niðurlægjandi orð um fatlaða.

Við krefjumst þess að Háskóli Íslands og stjórnmálafræðideild taki ábyrgð.

Tíðar kvartanir hafa ekki skilað árangri og tökum við því þetta skref.

Lítilsvirðing á hópa og einstaklinga í kennslutímum og kennslugögnum í áfanganum Stjórnmálaheimspeki undir stjórn Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar er ólíðandi.

Í Háskóla sem stefnir að því að vera meðal þeirra 100 bestu í heiminum getur þetta ekki viðgengist.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson var dæmdur í Hæstarétti árið 2008 fyrir brot á höfundarréttarlögum.

Við krefjumst þess að Hannes Hólmsteinn Gissurarson verði formlega áminntur.

Við krefjumst þess að Hannes Hólmsteinn Gissurarson kenni ekki skyldunámskeið við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.

Við krefjumst þess að bókin Saga stjórnmálafræðikenninga eftir Hannes Hólmstein Gissurarson verði tafarlaust tekin úr umferð sem kennslugagn.

Við krefjumst þess að við getum stolt sagt frá því að hafa útskrifast frá stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.

Okkur er misboðið.

Við stöndum saman.

Fyrir hönd 65 nemenda sem skrifuðu undir yfirlýsinguna sem send var á stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands,

Ólína Lind Sigurðardóttir.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Trump náðar Ross Ulbricht – Fékk lífstíðardóm árið 2015

Trump náðar Ross Ulbricht – Fékk lífstíðardóm árið 2015
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Ökukennari segir illa komið fram við eldri ökumenn: „Að mínu mati al­gjör­lega út í hött“

Ökukennari segir illa komið fram við eldri ökumenn: „Að mínu mati al­gjör­lega út í hött“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Höfuðkúpubrotnaði í stórfelldri líkamsárás

Höfuðkúpubrotnaði í stórfelldri líkamsárás
Fréttir
Í gær

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“

Gróf pólitísk ritskoðun vekur reiði og vangaveltur um endalok tjáningarfrelsisins – „Eitthvað hræðilegt átti sér stað á meðan við vorum í burtu“
Fréttir
Í gær

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“

Guðmundur segir að ósanngjörn umfjöllun RÚV um Trump geti skaðað samskipti við Bandaríkjamenn – „Þessu verður að linna“