fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Samfélagið brást Andra: Jarðsunginn í dag – „Hvað ætlum við að missa marga einstaklinga áður en við vöknum“

„Hvað ætlum við að missa marga einstaklinga áður en við vöknum og mætum þörfum þessara barna og þessa fólks?“

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Mánudaginn 30. október 2017 23:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Allt of oft höfum við brugðist algjörlega sem samfélag þar sem ramminn sem reynt er að vinna eftir ræður ekki við eða viðurkennir ekki umfang vandans“

„Af þessu stutta æviágripi Andra má ljóst vera að við sem samfélag brugðumst honum. Hvað ætlum við að missa marga einstaklinga áður en við vöknum og mætum þörfum þessara barna og þessa fólks?“

Þetta skrifar Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri í Hafnarfirði. Í dag fylgdi hann bróðursyni sínum Andra Ágústssyni til grafar en Andri var aðeins 22 ára þegar hann lést. Haraldur fer ófögrum orðum um geðheilbrigðiskerfið sem hann segir hafa brugðist. Hann birtir einnig á Facebook-síðu sinni minningargrein sem hann skrifaði um Andra. Hann gaf DV góðfúslegt leyfi til að birta skrifin til að vekja athygli á því að margt megi betur fara í samfélaginu. Þá minnast margir Andra með fallegum orðum. Haraldur segir:

„Ef þið lesið greinina þá bið ég ykkur að skoða myndirnar og hafa í huga að það er erfitt að útskýra eitthvað fyrir einhverjum – þegar það er ekki sýnilegt utan frá. Lífið er hrikalegt þegar það er dagleg barátta að vera veikur innanfrá og líta eðlilega út utanfrá“.

Haraldur: Það er erfitt að útskýra eitthvað fyrir einhverjum - þegar það er ekki sýnilegt utan frá
Andri við smíðar Haraldur: Það er erfitt að útskýra eitthvað fyrir einhverjum – þegar það er ekki sýnilegt utan frá

Andri var eins og hvert annað barn. Á fyrstu skólaárum fór svo að bera á fötlun hans. Haraldur segir:

„Þá hófst barátta hans og foreldra fyrir réttlátri meðferð. Barátta sem stóð síðan yfir alveg til dauðadags. Fyrst var barátta fyrir greiningu sem tók nokkur ár og fékkst síðar í nokkrum áföngum. Þegar hún lá fyrir var ljóst að vinna þyrfti að lausn fyrir ungan dreng sem greindur hafði verið með ódæmigerða einhverfu, geðraskanir, athyglisbrest, ofvirkni og misþroska. Dagleg barátta að vera veikur innanfrá en líta eðlilega út utanfrá.“

Segir Haraldur að á óskiljanlegan hátt hafi verið byggt samfélag sem hvorki hafi getu eða vilja til að takast á við geðheilbrigðismál. Til allrar lukku séu til undantekningar.

Andri naut þess að stunda líkamsrækt
Stundaði lyftingar Andri naut þess að stunda líkamsrækt

„Allt of oft höfum við brugðist algjörlega sem samfélag þar sem ramminn sem reynt er að vinna eftir ræður ekki við eða viðurkennir ekki umfang vandans. Afleiðingarnar fyrir viðkomandi og aðstandendur verður þrautaganga sem oft hefur endað með skelfingu.“

Fram undir fermingu tókst foreldrum Andra að skapa honum skipulagt og agað líf. Daglegt líf var í föstum skorðum.

Glaður með góða veiði
Andri var eins og hvert annað barn Glaður með góða veiði

„Fljótlega eftir fermingu fer Andri að brjótast út úr þeirri umgjörð sem búið var að setja honum. Heimurinn verður honum of stór sem m.a. fólst í einelti. Án aðstoðar réði hann ekki orðið við þær aðstæður sem hann var komin í. Spennan verður mikil, halla fer undan fæti í námi og eitt leiðir af öðru. Ýmislegt kemur upp á og sá veiki oftar en ekki situr einn eftir og sagður bera sökina.“

Á þessum tímapunkti hófst barátta foreldra við skólakerfið. Afleiðingin af því að ekki fékkst viðhlítandi meðferð var oftar en ekki neyðarvistun á Stuðlum. Þannig gekk lífshlaupið fram að 18 ára aldri. Segir Haraldur að starfsfólkið á Stuðlum hafi reynst Andra mjög vel. Þá hafi foreldrar hans sýnt honum mikla umhyggju og barist fyrir rétti hans til þess að fá viðeigandi meðferð og reyndu að veikum mætti að bæta honum það upp sem á vantaði. Allt sem var gert var til bráðabirgða.

„Hann oftar en einu sinni settur í aðstæður sem hann réði ekki við,“ segir Haraldur og heldur áfram: „Þá í stað þess að fá viðhlítandi aðstoð var honum „refsað“. Eitt bráðabirgða heimilið tók við af öðru eftir mikla baráttu og eftirfylgni foreldra hans. Af mörgu er að taka hvað vistun varðar þegar farið er yfir stutta æfi Andra.“

Þá segir Haraldur:

„Árið sem Andri varð 17 ára var hann á sveitaheimili sem gekk vel í fyrstu. Tók virkan þátt í heimilisstörfum, fór á milli bæja, aðstoðaði bændur við sauðburð og fleira. Gekk vel þar til upp kom aðstaða sem hann réði ekki við. Hann tók afleiðingunum sem m.a. leiddi til þess að ný barátta hófst fyrir úrræði. Fyrst á eftir dvelur Andri í foreldrahúsum þar sem haldið var vel utan um hann. Hann stundar lyftingar, fær vinnu hjá Öskju um nokkurra mánaða skeið, sem gekk vel. Móðir hans keyrði hann á æfingar í lyftingum, í vinnu og fór með honum á aðra þá staði sem hann þurfti að fara á. Henni var ljóst að hann gat ekki gert þessa hluti einn. Þegar hér var komið gekk ágætlega hjá Andra.“

Haraldur segir: „Megir þú, kæri vinur, eftir þína miklu baráttu fyrir betra lífi hvíla í friði.“
Fallegur og glaður drengur Haraldur segir: „Megir þú, kæri vinur, eftir þína miklu baráttu fyrir betra lífi hvíla í friði.“

Næst fékk Andri heimili í búsetukjarna við Njálsgötu. Að sögn Haraldar skiluðu foreldrar Andra honum í góðu formi. Sjálfur hafði Andri lagt sig fram í að ná bata og stundaði einnig lyftingar. Lögð var áhersla á að hann fengi áfram þann stuðning við að fara úr og í vinnu og æfingar eins og hann hafði áður. Á þessu heimili í miðbænum fór allt úr skorðum hjá Andra. Í framhaldi af þessu kemur Hólabrekka við Hornafjörð upp sem möguleg úrlausn eftir hálfs mánaðar dvöl á geðdeild, vistun í foreldrahúsum, hjá ömmu og hjá afa.

„Staðan á Hólabrekku var þannig að ekki var laust pláss og þurfti undanþágu ráðuneytisins til að samþykkja vistun hans þar. Eftir mikla þrautagöngu fékkst undanþágan með því skilyrði að um bráðabirgða vistun væri að ræða, að hámarki í eitt ár, meðan sveitarfélagið væri að byggja upp búsetukjarna sem sagt var að Andri fengi að fara á. Aðstæður á Hólabrekku voru ekki að öllu leyti hentugar fyrir Andra. Þar var heimilisfólkið m.a. mun eldra en hann, 19 ára drengurinn, og ljóst að ekki gat verið um að ræða heimilisfestu nema til skamms tíma. Andri dvaldi á Hólabrekku í tæp tvö ár. Lausnin sem undanþágan var veitt út á kom aldrei.“

Skilaði sér ekki heim

„Hvað ætlum við að missa marga einstaklinga áður en við vöknum og mætum þörfum þessara barna og þessa fólks?“

Nú hófst nýr kafli í baráttu fyrir heimili. Niðurstaðan varð heimili í Svíþjóð fyrir fatlað fólk. Haraldur segir:

„Þangað lá leið hans næst í mars 2016 í framandi land og mikilli fjarlægð frá hans nánustu. Andra leið þar vel og komu foreldrar og systir hans í heimsókn til hans. Áttu þau þar góðan tíma saman s.l. sumar um nokkurra vikna skeið. Fyrir nokkru var ákveðið að hann færi heim til Íslands til að leita læknis.“

Andri átti ekki eftir að skila sér til Íslands. Haraldur segir:

„Fljótlega eftir fermingu fer Andri að brjótast út úr þeirri umgjörð sem búið var að setja honum."
Andra leið vel í Svíþjóð „Fljótlega eftir fermingu fer Andri að brjótast út úr þeirri umgjörð sem búið var að setja honum.“

„Á leið til Íslands á flugvellinum skilar hann sér ekki um borð í flugvélina. Hvert Andri fór eða hvað hann gerði fáum við aldrei að vita því nokkru síðar fannst Andri látinn. Á þessari 8 ára hörðu baráttu leið Andra líklega einna best á heimilinu í Sviðþjóð.“

Haraldur bætir við að ljóst sé á stuttu æviágripi Andra að samfélagið hér brást honum. Geðheilbrigðiskerfið sem oft hefur verið gagnrýnt gerði það líka. Haraldur sendir foreldrum og skyldmennum Andra innilegar samúðarkveðjur.

„Hvað ætlum við að missa marga einstaklinga áður en við vöknum og mætum þörfum þessara barna og þessa fólks?“

Þá segir Haraldur að lokum um sorglega sögu Andra:

„Megir þú, kæri vinur, eftir þína miklu baráttu fyrir betra lífi hvíla í friði.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“

Erna segir skilið við Miðflokkinn en hafði sóst eftir oddvitasæti – „Miðflokkurinn gekk úr mér“
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“

Össur tætir Pírata í sig: „Málefnalega skipta þau ekki lengur máli“
Fréttir
Í gær

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
Fréttir
Í gær

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“