VG leggja til lengingu fæðingarorlofs – Píratar vilja skylda ráðherra til að mæta á fundi
Stjórnarandstöðuflokkarnir leggja nú línurnar fyrir þingstörf sem hefjast í dag, þriðjudag. Málefnaskrá ríkisstjórnarflokkanna er tilbúin en ekki hefur verið gefið upp hvaða mál þar er um að ræða í heild sinni. Hún er þó yfirgripsmikil og telur yfir eitt hundrað mál, mismikil að vöxtum.
Forsvarsfólk stjórnarandstöðuflokkanna hefur fundað til að stilla saman strengi um þingstörfin framundan. Það er þó ljóst að fyrsta kastið munu flokkarnir leggja áherslu á að setja fram sín eigin forgangsmál og koma þeim á dagskrá.
Vinstri græn setja þrjú mál á oddinn í þingstörfunum framundan, að því er Katrín Jakobsdóttir formaður greindi DV frá. „Við munum annars vegar leggja áherslu á mál sem lúta að auknum jöfnuði og aukinni velferð og hins vegar umhverfismál og loftslagsmál. Meðal þess sem við munum leggja fram er lenging fæðingarorlofs, sem ekki er getið í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þar er um að ræða frumvarp til laga um lengingu upp í eitt ár á næstu þremur árum og samhliða því yrði sá hluti tryggingargjalds sem að þessu snýr hækkaður.
Svo munum við leggja fram mál er snýr að keðjuábyrgð á vinnumarkaði. Það mun þá snúa að því að þau fyrirtæki, þeir verktakar, sá sem efstur er í röðinni, beri ábyrgð á undirverktökum sínum, hvað varðar að þeir fylgi íslenskum lögum og reglum þegar kemur að launagreiðslum, vinnutíma og svo framvegis. Þetta er mál sem ég tel að sé gríðarlega þýðingarmikið fyrir íslenskan vinnumarkað.
Þriðja málið er nýtt og snýr að fríverslunarsamningunum TISA og TTIP. Við munum leggja til að skipuð verði sérstök þingnefnd til að leggja mat á hvort rétt sé að Ísland eigi aðild að þeim. Það hefur ríkt ákveðin leyndarhyggja yfir þessum samningum og erfitt að nálgast um þá upplýsingar, einkum TISA. Við teljum því rétt að þingið fjalli um þá með upplýstum hætti.“
Auk þessara mála hyggjast Vinstri græn meðal annars leggja fram þingsályktunartillögu sem lýtur að því að fundnar verði leiðir til að gera Ísland kolefnishlutlaust innan ákveðins árafjölda. Sömuleiðis verði lagt fram þingmál um reglur hvað varðar sölu á jörðum, meðal annars í því skyni að tryggja að jarðir haldist áfram í landbúnaðarnotum þegar slíkt á við.
„Við í Samfylkingunni knýjum ekki fram samþykkt slíkrar tillögu ein og sér, alla vega ekki í augnablikinu“
Samfylkingin mun, að sögn Loga Más Einarssonar, leggja áherslu á mál er snúi að heilbrigðiskerfinu. „Við munum ræða töluvert um hættuna á því að hér muni ójöfnuður aukast áfram og menn hafi ekki nýtt sér þau tæki til tekjuöflunar sem tiltæk eru, til að jafna kjör og til að standa að þeirri uppbyggingu sem sannarlega var lofað fyrir kosningar. Í framhaldinu munum við síðan leggja fram mál sem snúa að heilbrigðiskerfinu og greiðsluþátttöku í því. Sömuleiðis kann að vera að við leggjum fram mál er snúi að hugmyndum um uppboð á fiskveiðiheimildum, í auknum mæli.
Orðrómur hefur verið um að þingmenn Samfylkingarinnar hyggist leggja fram þingsályktunartillögu þess efnis að fram skuli fara þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna Íslands við Evrópusambandið. „Við munum skoða það mjög alvarlega,“ segir Logi en bætir við að leitað verði samstarfs annarra flokka í þeim efnum. „Því breiðara sem baklandið er við slíka tillögu, því líklegra er að hún fáist samþykkt. Við í Samfylkingunni knýjum ekki fram samþykkt slíkrar tillögu ein og sér, alla vega ekki í augnablikinu,“ segir Logi í léttum tóni. Spurður hvort að framlagning slíkrar tillögu gæti verið einhvers konar yfirlýsing og stöðutékk, til að knýja þingmenn stjórnarflokkanna til að sýna hug sinn, segir Logi að slíkt sé hugsanlegt og verði skoðað. Hins vegar verði fyrst og fremst að huga að því að tillagan þjóni málinu á endanum. „Þetta mál verður samt tekið á dagskrá og örugglega með öðrum hætti en um er rætt í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þetta er mál sem allir flokkar ættu auðvitað að vera sammála um. Það voru allir flokkar búnir að lofa því meira og minna fyrir kosningar að þjóðin ætti að fá að ráða þessu. Það er langheiðarlegast.“
Framsóknarflokkurinn mun fyrsta kastið leggja áherslu á tvö mál, segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður flokksins, og hafa þegar verið útbúin drög að þingsályktunartillögum er þau varða. Annars vegar er um ræða tillögu að heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. „Við gerð heilbrigðisáætlunar skal m.a. taka tillit til landfræðilegra þátta eins og samgangna og fjarlægða milli byggðarlaga. Jafnframt skal taka tillit til íbúaþróunar á starfssvæðum heilbrigðisstofnana, aldurssamsetningar íbúa, staðsetningu sjúkrabifreiða og aðgang að sjúkraflugi, svo eitthvað sé nefnt.“ Þá vilja framsóknarmenn jafnframt að litið verði til þess hvort hægt sé að létta álagi af Landspítala með því að nýta auð sjúkrarými á heilbrigðisstofnunum á landsbyggð.
Hitt málið sem um ræðir snýr að skipun starfshóps sérfræðinga sem kanni hvaða áhrif það hafi að taka húsnæðislið út úr vísitölu neysluverðs og taka upp samræmda vísitölu.
Píratar munu gera upplýsinga- og sannleiksskyldu ráðherra að forgangsmáli, „sérstaklega í ljósi ítrekaðrar ósannsögli og upplýsingaundanskoti ráðherra síðustu misseri,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður Pírata. Þá vilja Píratar einnig skylda ráðherra til að mæta á fundi fastanefnda Alþingis sem þeir eru boðaðir til. „Okkur finnst það mikilvægt vegna eftirlitshlutverks Alþingis og ítrekaðs flótta ráðherra frá nefndarfundum sem þeir eru boðaðir á.“