Bjarni Benediktsson leiðir listann í Kraganum og Páll Magnússon í Suðurkjördæmi
Þær konur sem buðu sig fram í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins um helgina hlutu ekki náð fyrir augum kjósenda. Framkvæmdastjórn Landsambands sjálfstæðiskvenna sendi út fréttatilkynningu þar sem fram kom að stjórnin harmaði þá staðreynd að fjórir karlmenn væru í efstu sætum flokksins í Suðvesturkjördæmi.
Bjarni Benediktsson varð efstur í kjördæminu, Jón Gunnarsson í öðru sæti, Óli Björn Kárason í því þriðja og Vilhjálmur Bjarnason í fjórða sæti. Efsta konan var Bryndís Haraldsdóttir í fimmta sæti en hún skaust fram úr stöllu sinni, Kareni Elísabetu Halldórsdóttur á lokametrunum. Athygli vakti að alþingiskonan Elín Hirst fékk slæma kosningu.
Niðurstaðan í Suðurkjördæmi var ekki heldur beysin fyrir Sjálfstæðiskonur. Páll Magnússon vann öruggan sigur, Ásmundur Friðriksson varð annar og Vilhjálmur Árnason þriðji. Sitjandi ráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir, galt afhroð og varð í fjórða sæti. Unnur Brá Konráðsdóttir, alþingismaður, varð síðan í því fimmta.
Í samtali við Visir.is segir Helga Dögg Björgvinsdóttir, formaður Landssambands Sjálfstæðiskvenna að hún sé „í sjokki yfir þessu. Okkur finnst þetta ekki nægilega sterkur listi til þess að ná árangri í kosningunum og skiljum hreinlega ekki hvernig svona getur gerst.“
Ljóst er að mikill þrýstingur verður á forystu Sjálfstæðisflokksins að bregðast við niðurstöðunni og rétta hlut kvenna á listum flokksins.