fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fréttir

Fjórir stjórnendur geta fengið hundruð milljóna í bónus á mann

Bónuskerfi fyrir stjórn og framkvæmdastjóra LBI samþykkt í vor – Bónuspotturinn gæti numið milljörðum – Fá hærri bónus ef Landsbankinn fyrirframgreiðir skuldabréf

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 30. ágúst 2016 07:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Umfangsmikið bónuskerfi til handa þremur stjórnarmönnum og framkvæmdastjóra gamla Landsbankans (LBI), sem var samþykkt á aðalfundi LBI í apríl síðastliðnum, opnar á þann möguleika að stjórnendur félagsins geti hver um sig fengið samtals mörg hundruð milljónir króna í bónusgreiðslur á komandi árum. Á meðal þeirra sem falla undir skilmála bónuskerfisins, sem DV hefur undir höndum, eru lögmennirnir Kolbeinn Árnason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og núverandi stjórnarmaður í LBI, og Ársæll Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LBI. Fyrir utan væntanlegar bónusgreiðslur þá fær Kolbeinn einnig um 23 milljónir í þóknun á ári fyrir stjórnarsetu í LBI og miðast þau laun við að hann starfi fyrir stjórnina að hámarki 40 daga á hverju almanaksári.

Aðrir sem eiga rétt á slíkum bónus eru stjórnarmennirnir Richard Katz, sem er jafnframt formaður stjórnar félagsins, og Christian Anders Digemose, danskur ráðgjafi sem hefur starfað sem lögmaður fyrir kröfuhafa föllnu íslensku bankanna á undanförnum árum. Markmið bónuskerfisins (e. Long Term Incentive Plan, LTIP) er að búa til hvata fyrir æðstu stjórnendur LBI sem miða að því að hámarka virði óseldra eigna félagsins og þar með endurheimtur kröfuhafa sem tóku formlega við stjórn LBI í kjölfar þess að slitabúið lauk nauðasamningum í lok síðasta árs. Gangi tilteknar forsendur eftir sem bónuskerfið grundvallast á þá gætu heildarbónusgreiðslur til þessara fjögurra æðstu stjórnenda félagsins hæglega hlaupið samtals á milljörðum króna. Stærstu hluthafar LBI eru í dag bandarísku vogunarsjóðirnir Davidson Kempner og Anchorage Capital.

Hærri bónus en hjá Kaupþingi

Þær bónusgreiðslur sem örfáir lykilstjórnendur LBI geta fengið í sinn hlut á næstu árum eru margfalt hærri í samanburði við það sem starfsmenn eignarhaldsfélagsins Kaupþings kunna að fá í bónus samkvæmt tillögu að starfskjarastefnu sem til stendur að samþykkja á aðalfundi Kaupþings í dag, þriðjudag. Rétt eins og upplýst var um í forsíðufrétt DV í síðustu viku þá gera tillögur stjórnar Kaupþings ráð fyrir því að starfsmenn og tilteknir verktakar félagsins geti fengið úthlutað samtals tæplega 1.500 milljónum króna í bónus sem verður greiddur út ekki síðar en í lok apríl 2018. Samkvæmt heimildum DV er áætlað að sá fjöldi starfsmanna sem getur átt rétt á því að fá bónus verði um 20 manns – sá fjöldi kann hugsanlega að verða lítillega meiri – og í sumum tilfellum gætu tilteknir starfsmenn fengið um og yfir 100 milljónir í sinn hlut.

Dótturfélag Seðlabankans á um 6% hlut í LBI.

Seðlabankinn greiddi atkvæði gegn bónusum

Tillaga stjórnar LBI um bónuskerfi til handa fjórum æðstu stjórnendum félagsins var samþykkt með tæplega 90% greiddra atkvæða á aðalfundi LBI um miðjan apríl fyrr á þessu ári. Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ), sem á um 6% hlut í LBI, greiddi hins vegar atkvæði gegn tillögunni ásamt einum þýskum heildsölubanka. Fram kemur í fundargerðinni, sem DV hefur undir höndum, að engar athugasemdir eða spurningar hafi borist frá hluthöfum á fundinum þegar tillagan var lögð fyrir.

Fulltrúi ESÍ á fundinum var Ástríður Gísladóttir, hæstaréttarlögmaður og eigandi að Íslögum. Ástríður er eiginkona Steinars Þórs Guðgeirssonar, en hann hefur starfað undanfarið sem lögmaður og ráðgjafi Seðlabankans. Miðað við áætlaðar endurheimtur almennra kröfuhafa þá getur ESÍ vænst þess að fá um 14 milljarða í erlendum gjaldeyri í sinn hlut þegar búið verður að umbreyta öllum eignum LBI í reiðufé og greiða út til hluthafa.

Stærstu hluthafar LBI eru bandarísku vogunarsjóðirnir Anchorage Capital og Davidson Kempner. Fulltrúar þessara sömu vogunarsjóða unnu að útfærslu bónuskerfisins og eiga sæti í þeirri nefnd sem hefur það hlutverk að hafa umsjón með að bónusgreiðslur til stjórnenda LBI séu í samræmi við skilmála kerfisins.

Samkvæmt skilmálum bónuskerfis LBI, sem eru mjög ítarlegir og telja fjórtan blaðsíður, þá geta fyrstu bónusgreiðslur til lykilstjórnenda verið inntar af hendi annaðhvort frá og með 1. janúar árið 2019 eða þegar búið verður að umbreyta eignum í reiðufé fyrir að lágmarki 180 milljónir evra, jafnvirði um 24 milljarða króna, og greiða út til hluthafa og eigenda breytanlegra skuldabréfa LBI. Frá því að LBI tók formlega til starfa sem eignarhaldsfélag, samhliða því að ný stjórn var kjörin á fyrsta aðalfundi félagsins 14. apríl síðastliðinn, hafa greiðslur til hluthafa numið liðlega 60 milljónum evra. Heildareignir LBI voru um 1.435 milljónir evra, jafnvirði um 190 milljarða króna, um mitt þetta ár en langsamlega stærsta eign félagsins er 118 milljarða skuldabréf í erlendri mynt á hendur nýja Landsbankanum.

Græða á fyrirframgreiðslu

Bónusgreiðslur til handa stjórnarmönnum og framkvæmdastjóra LBI munu meðal annars ráðast af því hvenær Landsbankinn greiðir skuldabréfið til baka en miðað við núverandi skilmála á eftirstandandi skuld bankans við LBI að borgast upp á árunum 2020 til 2026. Samkvæmt bónuskerfi LBI þá munu stjórnendur félagsins fá tiltekinn hluta hverju sinni af þeirri fjárhæð sem Landsbankinn kann að fyrirframgreiða inn á þá skuld. Á síðasta ársfjórðungi greiddi Landsbankinn 20 milljónir evra inn á skuldabréfið en slíkar fyrirframgreiðslur geta aukið áætlaðar endurheimtur hluthafa LBI að teknu tilliti til núvirðis fjárstreymis af þessari stærstu eign félagsins.

Samkvæmt þessu ákvæði í bónuskerfinu þá hafa æðstu stjórnendur LBI með öðrum orðum ríka persónulega hagsmuni af því að Landsbankanum takist á næstu misserum og árum að sækja sér lánsfé á erlendum lánamörkuðum – á hagstæðari kjörum en núverandi skuldabréf – í því skyni að greiða upp skuldina við LBI fyrr en ella. Sé litið til þess að ávöxtunarkrafan á skuldabréfaútgáfur íslensku bankanna á erlendum mörkuðum hefur farið lækkandi að undanförnu þá eru allar líkur á því að Landsbankinn muni leitast eftir því að endurfjármagna skuldabréfið við LBI. Slíkt mun að óbreyttu þýða að stjórnendur LBI geta vænst þess að fá enn hærri bónusgreiðslur í sinn hlut.

Sú heildarfjárhæð sem verður innt af hendi í bónusa til stjórnarmanna og framkvæmdastjóra LBI er vitaskuld háð umtalsverðri óvissu og ræðst sem fyrr segir af því hvernig þeim tekst til við að hámarka virði óseldra eigna félagsins. Til viðbótar við endurheimtur af skuldabréfi Landsbankans þá gera skilmálar bónuskerfisins annars vegar ráð fyrir því að æðstu stjórnendur LBI geti fengið tiltekna hlutdeild af uppsöfnuðum útgreiðslum til hluthafa og hins vegar eiga þeir rétt á að fá 4,5% af þeim fjármunum í erlendri mynt sem skila sér til félagsins í tengslum við margvísleg óleyst ágreiningsmál fyrir dómstólum. Samkvæmt sérfræðingum á fjármálamarkaði, sem DV leitaði til í því skyni að fá aðstoð við að leggja mat á fjárhæð mögulegra bónusgreiðslna til stjórnenda LBI, þá þykir ljóst að miðað við útfærslu og umfang kaupaukakerfisins þá sé raunhæft að áætla að þær greiðslur kunni að nema samtals hundruðum milljóna á mann. Ef bónuspotturinn verður að lokum samtals um tveir milljarðar króna, svo dæmi sé tekið, þá myndi það jafngilda um einu prósenti af núverandi heildareignum félagsins.

Fær 72 þúsund á tímann fyrir stjórnarsetu

Hundruð milljóna bónusgreiðslur sem stjórnarmenn LBI geta átt í vændum á komandi árum munu koma til viðbótar við þau ríflegu laun sem þeir þiggja sem stjórnarmenn í félaginu. Þannig var upplýst um það í DV þann 12. apríl síðstliðinn að Kolbeinn Árnason, sem sagði upp störfum sem framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi fyrr á árinu, fái að jafnvirði 23 milljónir króna í þóknun á ári fyrir stjórnarsetu í gamla Landsbankanum (LBI). Þau laun miðast við að Kolbeinn starfi fyrir stjórnina að hámarki 40 daga á ári – átta vinnustundir á dag – en ef hann vinnur meira fær hann tæplega 600 þúsund króna greiðslu fyrir hvern dag umfram þessa 40 daga.

Þessar tillögur að stjórnarlaunum voru samþykktar tveimur dögum síðar á fyrsta aðalfundi LBI en fulltrúi Seðlabankans var hins vegar í þeim hópi hluthafa sem greiddi atkvæði gegn tillögunni. Auk Kolbeins er stjórn LBI skipuð þeim Richard Katz, sem tók sæti í slitastjórn bandaríska fjármálafyrirtækisins MF Global eftir að það lýsti sig gjaldþrota árið 2011, og Christian Anders Digemose, danskur ráðgjafi sem starfar í London og vann fyrir kröfuhafa föllnu bankanna.

Bandaríkjamaðurinn Richard Katz, sem var kjörin stjórnarformaður LBI, fær 400 þúsund Bandaríkjadali, jafnvirði 47 milljóna króna, í þóknun á ári. Digemose fær um 200 þúsund dali, jafnvirði 23 milljóna króna, í þóknun fyrir stjórnarsetuna en auk þess á hann rétt á umtalsverðum viðbótargreiðslum ef hann vinnur meira en 40 daga á ári, rétt eins og Kolbeinn.

Áður en Kolbeinn tók til starfa sem framkvæmdastjóri SFS sumarið 2013 hafði hann verið framkvæmdastjóri lögfræðisviðs slitabús Kaupþings. Kolbeinn var einn af lykilstarfsmönnum Kaupþings og vann náið með slitastjórn og helstu ráðgjöfum kröfuhafa við að útbúa þann nauðasamning sem var lagður fyrir Seðlabankann í október 2012 en hlaut aldrei brautargengi. Þá var hann einnig fenginn til að vera slitastjórn Kaupþings innan handar sem ráðgjafi um tíma eftir að hann hafði látið þar af störfum.

Miðað við að stjórnarlaun Kolbeins og Digemose eru 23 milljónir fyrir að vinna að hámarki 40 daga á ári, eða sem nemur 320 vinnustundum, þá fá þeir 575 þúsund krónur í þóknun á dag. Það jafngildir tímagjaldi upp á 72 þúsund krónur. Til samanburðar var tímagjald slitastjórnar Glitnis jafnvirði um 57 þúsunda króna á síðasta ári og hafði þá hækkað um 250% frá árinu 2009.

Gætu mögulega greitt bónus 2017

Fyrir utan skuldabréfið á hendur Landsbankanum og bundið innlán hjá sama banka þá samanstanda eignir LBI einkum af lánum til erlendra fyrirtækja og kröfum á þrotabú. Samkvæmt viðskiptaáætlun LBI er gert ráð fyrir því að um helmingur af útistandandi lánum félagsins til fyrirtækja muni innheimtast á næstu mánuðum þannig að virði slíkra eigna verði komið niður fyrir 90 milljónir evra áður en árið er liðið. Á tímabilinu frá og með júlí á þessu ári og fram til júní árið 2017 er áætlað að sala eigna, afborganir, vaxtagreiðslur og aðrar endurheimtur muni skila LBI um 172 milljónum evra í reiðufé. Þegar horft er til þess að félagið hefur nú þegar greitt eigendum breytanlegra skuldabréfa LBI um 60 milljónir evra gætu fyrstu bónusgreiðslur til stjórnenda LBI verið inntar af hendi á seinni árshelmingi næsta árs enda hefðu hluthafar félagsins þá fengið að lágmarki greitt til sín 180 milljónir evra.

Rétt er að taka fram að ólíkt því sem á við um íslensk fjármálafyrirtæki, sem mega ekki greiða meira en sem nemur 25% af árslaunum starfsmanna sinna í kaupauka, þá gilda engar slíkar reglur um hámark á bónusgreiðslur til starfsmanna eignaumsýslufélags á borð við LBI. Fyrir þá sem fá slíkan bónus þarf að greiða 46,25% tekjuskatt eins og um sé að ræða launatekjur. Í skilmálum bónuskerfis LBI er ekki tilgreint hvernig bónusgreiðslurnar muni skiptast á milli þeirra fjögurra stjórnenda sem eiga rétt rétt á slíkum greiðslum á næstu árum.

Vogunarsjóðir fyrirferðarmestir

Slitabú LBI lauk nauðasamningum í lok desembermánaðar á síðasta ári og skömmu síðar var innt af hendi síðasta hlutagreiðslan – samtals um 211 milljarðar króna – til forgangskröfuhafa sem fengu kröfur sínar greiddar að fullu. Í kjölfarið færðist eignarhaldið á LBI í hendur almennra kröfuhafa en miðað við samþykkt nauðasamningsfrumvarpsins er áætlað að endurheimtur þeirra verði um 14,38%. Yfir 90% hluthafa LBI eru erlendir aðilar, einkum og sér í lagi vogunarsjóðir og fjármálafyrirtæki, en þá er Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ) einnig í hópi stærstu eigenda félagsins.

Við staðfestingu nauðasamnings gaf LBI út skuldabréf í evrum og nýja hluti í félaginu, sem voru afhentir þeim kröfuhöfum sem voru hluti af nauðasamningnum í hlutfalli við fjárhæð krafna þeirra. Samkvæmt nauðasamningsfrumvarpinu var um að ræða vaxtalaus skuldabréf upp á 2.041 milljón evra að nafnvirði með lokagjalddaga á árinu 2035. Afborganir af bréfinu til hluthafa ráðast af því hvernig stjórn LBI tekst til við að umbreyta óseldum eignum í reiðufé á komandi misserum og árum.

Öll félögin áforma milljarða bónusgreiðslur

Öll félögin áforma milljarða bónusgreiðslur

Ólíkt því bónuskerfi sem til stendur að samþykkja á aðalfundi Kaupþings í dag, þriðjudag, þá eru það aðeins stjórnarmenn og framkvæmdastjóri LBI – fjórir æðstu stjórnendur félagsins – sem geta fengið bónusgreiðslur í sinn hlut takist þeim að ná tilteknum markmiðum sem miða að því að hámarka virði óseldra eigna. Aðrir starfsmenn félagsins falla ekki undir bónuskerfið líkt og gert er ráð fyrir við útfærslu á bónuskerfinu til handa hópi um og yfir 20 starfsmanna Kaupþings.

Áform Kaupþings um að greiða þessum starfsmönnum allt að 1.500 milljónir í bónus, ekki síðar en í lok apríl 2018, hafa verið gagnrýnd harðlega eftir að DV upplýsti um málið í forsíðufrétt í síðustu viku. Þannig sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í viðtali við RÚV að það væri ekkert að því að menn hagnist í samfélaginu okkar ef þeir hafi tekið áhættu eða lagt fjármagn sitt undir. „En þegar menn taka enga áhættu, eru bara að mæta í vinnuna, og eru að semja við jafnfurðuleg fyrirbæri og þessar skeljar af gömlu bönkunum eru í einhverju svona lokuðu mengi, þá verður allt málið að skoðast í öðru ljósi. Þess vegna kemur strax upp í hugann orðið „sjálftaka“ þegar maður sér svona niðurstöðu.“

Eignarhaldsfélög gömlu bankanna – LBI, Glitnir HoldCo og Kaupþing – hafa núna öll fylgt í fótspor íslenska félagsins ALMC, áður Straums-Burðaráss fjárfestingabanka, sem samþykkti umfangsmikið bónuskerfi fyrir fjölmarga stjórnendur og lykilstarfsmenn félagsins fljótlega eftir að bankinn lauk nauðasamningi haustið 2010. Á grundvelli þeirrar kaupréttaráætlunar, sem DV greindi frá í maí síðastliðnum, greiddi félagið út yfir þrjá milljarða króna til starfsmanna. Þannig fengu fjórir æðstu stjórnendur ALMC, meðal annars Óttar Pálsson, sem situr núna í stjórn Kaupþings, samtals um 1.600 milljónir í sinn hlut. Námu bónusgreiðslur til þeirra 300 til 500 milljónum króna á mann. Það bónuskerfi sem núna hefur verið tekið upp fyrir æðstu stjórnendur LBI svipar um margt til þess sem var samþykkt á sínum tíma fyrir lykilstarfsmenn ALMC.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sýknaður að hluta eftir bílaeltingaleik í Kjós – Þótti ekki líklegur til stórræða á 19 ára gömlum bíl

Sýknaður að hluta eftir bílaeltingaleik í Kjós – Þótti ekki líklegur til stórræða á 19 ára gömlum bíl
Fréttir
Í gær

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Björn Valur líkir ferð Sigmundar Davíðs í VMA við æluferð Ásmundar Einars

Björn Valur líkir ferð Sigmundar Davíðs í VMA við æluferð Ásmundar Einars