fbpx
Fimmtudagur 02.janúar 2025
Fréttir

Fjárfestar vilja byggja 75 námsmannaíbúðir

– Bíða samþykkis Hafnarfjarðarbæjar – Eigandi nærliggjandi lóðar ósáttur við áformin

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 28. ágúst 2016 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ingi Guðjónsson, lyfjafræðingur og fyrrverandi forstjóri Lyfju, leiðir hóp fjárfesta sem vilja byggja allt að 75 námsmannaíbúðir á bílastæði Tækniskólans í Hafnarfirði. Fjárfestingarfélag þeirra hefur skilað inn kynningu á verkefninu til bæjaryfirvalda og óskað eftir samþykki fyrir breytingum á skipulagi svæðisins. Eigandi einbýlishúss sem stendur á nærliggjandi lóð krefst þess að Hafnarfjarðarbær hafni hugmyndum fjárfestanna.

„Markmiðið með framkvæmdunum er að styðja við framtíðarveru Tækniskólans í Hafnarfirði. Meðal þess er að geta boðið nemendum íbúðir á lóð skólans. Arkitektinn nálgast verkefnið þannig að við erum að brúa bilið á milli einbýlishúsa sem þarna eru og stærri blokka og horft er til lágmarks ónæðis við íbúa,“ segir Ríkharð Ottó Ríkharðsson, framkvæmdastjóri Taper ehf. og hluthafi í verkefninu.

Á húsnæði skólans

Taper sendi Hafnarfjarðarbæ fyrirspurn um skipulagsbreytingu í byrjun júní vegna lóðarinnar Flatahraun 12. Félagið er með lóðarleigusamning við sveitarfélagið en um er að ræða 13.640 fermetra svæði. Um 250 bílastæði eru á lóðinni en eigendur Taper sjá fyrir sér að nýta hluta hennar undir 60 til 75 íbúðir fyrir ungt fólk og nemendur sem yrðu 40 til 80 fermetrar að stærð. Vilja þeir byggja tveggja og fjögurra hæða fjölbýlishús.

Taper á húsnæði Tækniskólans í Hafnarfirði en félagið er í eigu Lyklafells ehf. Að sögn Ríkharðs er Ingi Guðjónsson stærsti hluthafi Lyklafells en upplýsingar um eigendur þess hafa ekki verið uppfærðar hjá fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra. Ingi Guðjónsson er menntaður lyfjafræðingur og einn stofnenda Lyfju. Árin eftir hrun var hann ítrekað á lista Ríkisskattstjóra yfir hæstu skattgreiðendur landsins. Þá hefur hann komið að ýmsum fasteignaverkefnum í Reykjavík, er hluthafi í Skeljungi og var um tíma einn eigenda spænska lyfjafyrirtækisins Invent Farma. Ríkharð Ottó starfar einnig sem framkvæmdastjóri Nýs Norðurturns við Smáralind.

„Hugmyndafræðin er að nýta þessa stóru lóð sem þarna er og fara í þéttingu byggða með þessum hætti. En við erum einungis á fyrstu stigum þessa ferlis og það mun væntanlega taka tólf til átján mánuði að vinna þetta með bænum,“ segir Ríkharð og svarar aðspurður að kostnaður verkefnisins liggi ekki fyrir.

Ósáttur íbúi

Í fyrirspurn Taper til skipulags- og byggingaráðs Hafnarfjarðar er spurt hvort bærinn sjái einhverja annmarka á að félagið ráðist í vinnu við breytingar á deiliskipulagsáætlun svæðisins og aðalskipulagi. Er þar vísað í nýlega greinargerð sveitarfélagsins þar sem lóðin er skilgreind sem mögulegt nýbyggingasvæði. íbúabyggð á henni geti uppfyllt ýmis markmið greinargerðarinnar eins og að koma til móts við íbúðaþörf vegna fólksfjölgunar.

Ekki var tekin afstaða til fyrirspurnarinnar á síðasta fundi ráðsins á þriðjudag en það óskaði þá eftir umsögn Tækniskólans um verkefnið. Þá var skipulagsfulltrúa bæjarins falið að svara Guðmundi Siemsen, lögmanni hjá Advel lögmönnum, sem sendi bænum bréf í lok júlí fyrir hönd Arnars Þórs Gíslasonar, veitingamanns í Reykjavík og eiganda einbýlishúss við Mávahraun. Fyrirspurn Taper er mótmælt í bréfinu og segir þar að hugmyndir forsvarsmanna félagsins fari í engu saman við gildandi skipulagsáætlanir svæðisins.

„Umbjóðandi minn leggst eindregið gegn framkomnum hugmyndum lóðarleigutaka um svo umfangsmiklar breytingar á skipulagsáætlun svæðisins og krefst þess að skipulags- og byggingarráð hafni þeim að öllu leyti,“ segir Guðmundur í bréfinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Fundu tengsl milli árásarinnar við Trump-hótelið og árásarinnar í New Orleans

Fundu tengsl milli árásarinnar við Trump-hótelið og árásarinnar í New Orleans
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

FBI gerði óhugnanlega uppgötvun í Airbnb-íbúð hryðjuverkamannsins í New Orleans

FBI gerði óhugnanlega uppgötvun í Airbnb-íbúð hryðjuverkamannsins í New Orleans
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Háskaleikur ungmenna kallaði á afskipti lögreglu

Háskaleikur ungmenna kallaði á afskipti lögreglu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Fjarskiptafyrirtæki mátti bjóða bróður viðskiptavinar betri kjör

Fjarskiptafyrirtæki mátti bjóða bróður viðskiptavinar betri kjör