Verkamaður var hlunnfarinn á kúabúi föður Ásmundar Einars – Stéttarfélagið rukkaði – „Tilkomið vegna bókhaldsmistaka“
Stórbýli Þverholt hafa undanfarin ár verið eitt af stærri kúabúum landsins. Ásmundur Einar Daðason átti lögheimili þar eftir að faðir hans keypti býlið og þegar verkamaðurinn fékk greitt undir taxta.
Íslenskur verkamaður sem sinnti bústörfum á stórbýlinu Þverholtum á Mýrum í Borgarbyggð þurfti að leita til Stéttarfélags Vesturlands til að fá greidd lágmarkslaun. Athugun félagsins leiddi í ljós að vinnuveitandi mannsins hafði ekki greitt honum dagvinnulaun samkvæmt kjarasamningi allt árið í fyrra. Kúabúið er í eigu Daða Einarssonar, bónda og föður Ásmundar Einars Daðasonar, þingflokksformanns Framsóknarflokksins.
Þingmaðurinn og eiginkona hans, Sunna Birna Helgadóttir, áttu lögheimili á bænum þegar verkamaðurinn var þar í vinnu. Sunna er einnig prókúruhafi og stjórnarmaður Þverholtabúsins ehf. sem heldur utan um rekstur kúabúsins. Daði segir að málið megi rekja til bókhaldsmistaka. Öllum starfsmönnum hans sé greitt samkvæmt kjarasamningum.
„Það gildir um þessi störf kjarasamningur milli Starfsgreinasambands Íslands og Bændasamtakanna og þessum manni var ekki greitt samkvæmt þeim samningi,“ segir Signý Jóhannesdóttir, formaður Stéttarfélags Vesturlands.
Fékk dagpeninga
Verkamaðurinn, sem er á þrítugsaldri og vill ekki láta nafns síns getið, leitaði til Stéttarfélags Vesturlands í lok síðasta árs. Samkvæmt upplýsingum frá formanni félagsins gerði hann það til að sækja þar menntastyrk svo hann gæti tekið meirapróf. Kom þá í ljós að hann hafði ekki greitt iðgjöld til stéttarfélagsins og við nánari athugun uppgötvaðist að mánaðarlaun hans voru lægri en hann átti rétt á samkvæmt kjarasamningi.
„Það var verið að greiða undir lágmarkslaunum en starfsmaðurinn hætti í framhaldinu. Mánaðarlaunin fyrir dagvinnu voru leiðrétt og aðra umkvörtun höfum við ekki fengið sem tengist þessu tiltekna býli,“ segir Signý og svarar aðspurð að maðurinn hafi átt rétt á um 245 þúsund krónum í mánaðarlaun fyrir dagvinnu.
„Það er fyrir dagvinnu en hluti af vandanum er að það er langur vinnudagur í sveitum og það þarf líka að mjólka kýr á laugardögum og sunnudögum. Hluti af því sem stráknum var greitt í hverjum mánuði voru dagpeningar til að lyfta laununum upp. Það eru skattsvik. Það er ekki greidd staðgreiðsla af dagpeningum eða greitt orlof eða í lífeyrissjóð. En dagpeningarnir komu honum heldur ekki yfir lágmarkslaunin,“ segir Signý.
Hluti af því sem stráknum var greitt í hverjum mánuði voru dagpeningar til að lyfta laununum upp. Það eru skattsvik.
Bjó á býlinu
Daði Einarsson vildi ekki svara spurningum blaðamanns í gegnum síma. Óskaði hann eftir skriflegri fyrirspurn sem var svarað með tölvupósti. Tveimur spurningum var ekki svarað sem lúta að því hversu langur vinnudagur verkamanna, bæði íslenskra og erlendra, á býlum hans er að meðaltali og hvort Ásmundur Einar hafi haft vitneskju um mál verkamannsins áður en laun hans voru leiðrétt.
„Mál það sem um ræðir var tilkomið vegna bókhaldsmistaka. Þegar það komst upp var það leiðrétt strax og í góðri sátt við umræddan starfsmann. Undirritaður rekur kúabú á Mýrunum og sauðfjárbú í Dalasýslu og heildarstarfsmannafjöldi er níu nú yfir háannatímann en fækkar síðan. Um er að ræða bæði innlenda og erlenda starfsmenn. Öllum starfsmönnum eru greidd laun samkvæmt kjarasamningum. Bókhaldsfyrirtækið KPMG hefur séð um launauppgjör frá 1. janúar á þessu ári. Ég er sjálfur forsvarsmaður og eigandi Þverholtabúsins og málið tengist því engum öðrum en undirrituðum,“ segir Daði Einarsson.
Ásmundur Einar staðfesti í samtali við blaðamann að hann og eiginkona hans hafi um tveggja ára tímabil leigt hús á Þverholtum á Mýrum. Þar hafi þau átt lögheimili þangað til nú í sumar. Ásmundur vildi ekki svara því hvort hann kannaðist við mál verkamannsins og vísaði á föður sinn. KPMG sæi um launamál kúabúsins og hann vissi ekki betur en að þar væri allt greitt samkvæmt kjarasamningum.
„Leitaðu bara til pabba. Hann er rekstraraðili búsins en ekki ég,“ sagði Ásmundur Einar.
Keypti kúabúið
Þverholt á Mýrum hafa verið í eigu Daða í fjögur ár eða síðan hann og bróðir hans, Valdimar Einarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda, keyptu býlið af Jóhannesi Kristinssyni, athafnamanni í Lúxemborg sem oft var kenndur við fjárfestingarfélagið Fons. Samkvæmt frétt Bændablaðsins frá 3. maí 2012 hafði kúabúið þá verið til sölu um nokkurt skeið og „gengu sögur“ um að verðmiðinn væri frá 300 og til 450 milljóna króna. Auk þeirra bræðra hefðu nokkrir minni hluthafar komið að kaupunum. Ekki hefði fengist uppgefið hverjir það væru og kaupverðið væri trúnaðarmál.
Daði er í dag eini hluthafi Þverholtabúsins ehf. og framkvæmdastjóri. Sunna Birna Helgadóttir, eiginkona Ásmundar, er varamaður í stjórn félagsins og prókúruhafi eins og áður segir. Daði á og rekur að auki þrjú önnur býli á Vesturlandi. Sauðfjárbúið Lambeyrar í Dalasýslu er þar á meðal en þar bjó Ásmundur Einar og starfaði þegar hann var fyrst kjörinn á þing árið 2009. Þingmaðurinn rak þar að auki um tíma innflutnings- og sölufyrirtækið Jón Bóndi sem þeir feðgar stofnuðu og seldi rekstrarvörur fyrir bændur og aðra dýraeigendur. Fyrirtækið seldu þeir sumarið 2012 en það rataði í fjölmiðla tveimur árum áður þegar í ljós kom að Ásmundur Einar hafði ekki greint frá fjórðungshlut sínum í því í hagsmunaskrá Alþingis.