Á leið til Noregs – Kirkjunni sýnt mikið þakklæti
Tveir flóttamenn sem komið höfðu sér fyrir í Laugarneskirkju voru fluttir úr landi í nótt. Mennirnir koma frá Írak, en Útlendingastofnun hefur vísað hælisumsóknum þeirra frá.
Á Facebook síðunni Ekki fleiri brottvísanir er birt mynd af því þegar annar mannanna, sem er sextán ára gamall, er fluttur úr kirkjunni af lögreglu. Mennirnir eru nú á leið til Noregs, en yfirvöld þar í landi telja Írak vera öruggt land fyrir þá.
DV fjallaði um málið í gær, en þar greindu Toshiki Toma, prestur innflytjenda á Íslandi og Kristín Þórunn Tómasdóttir, sóknarprestur í Laugarneskirkju, frá því að kirkjan yrði opin í nótt fyrir mönnunum í von um að fornar venjur um kirkjugrið hefðu getað knúið yfirvöld til að taka ábyrga og efnislega afstöðu til málefna einstakra hælisleitenda.
Þá er greint frá því á Facebook að lögreglubíll og svartur jeppi hafi komið að kirkjunni rétt fyrir klukkan fimm í morgun og í dregið síðan flóttamennina út, eftir að sóknarprestur hafði útskýrt stöðu mála.
„Fólk sem fylgdist með var slegið enda var ljótt á þetta að horfa. Þetta er þó eitthvað sem flóttamenn fá oft að sjá, enda eru þeir geymdir saman í húsum Útlendingastofnunar og þeim flestum brottvísað,“ segir á síðunni Ekki fleiri brottvísanir. Þá er Toshiki og Kristínu sýndar miklar þakkir fyrir samstöðuna sem þau sýndi með drengjunum tveimur. „Hugur okkar er með þeim.“