Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur tilkynnt að hann ætli að bjóða sig fram í embætti forseta Íslands. Davíð sat á stóli forsætisráðherra til ársins 2003 en tók þá við sem utanríkisráðherra. Því embætti sinnti hann til ársins 2005 en það ár lét hann af þingmennsku, sem og af formannsembætti í Sjálfstæðisflokknum.
Ljóst er að framundan er hörð kosningabarátta, en gengið verður til kosninga þann 25. júní næstkomandi.
DV blés til könnunar fljótlega eftir að Davíð tilkynnti ákvörðun sína. Þar var einfaldlega spurt:
„Gætir þú hugsað þér að kjósa Davíð Oddsson í embætti forseta Íslands? Svarmöguleikar eru þrír; Já, nei og veit ekki.“
Þátttakan var í gær gríðarlega mikil og sjaldan ef nokkur tímann hafa jafn margir greitt atkvæði á jafn skömmum tíma í könnun DV. Nú hafa 11.285 tekið þátt. Atkvæðin dreifast þannig:
Nei segja 8106 eða 71,8 prósent
Já segja 2874 eða 25,5 prósent
Óvissir eru 305 2,7 prósent