fbpx
Miðvikudagur 13.nóvember 2024
Fréttir

Fjórir stjórnendur fengu 1.600 milljónir í bónus

Fengu nærri helminginn af heildarbónusgreiðslum ALMC – Forstjórinn fékk yfir 500 milljónir í laun og bónusa á síðasta ári – Sambærilegt kerfi innleitt hjá Glitni og LBI

Ritstjórn DV
Föstudaginn 6. maí 2016 07:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjórir æðstu stjórnendur íslenska eignaumsýslufélagsins ALMC, áður Straums-Burðaráss fjárfestingabanka, þar á meðal Óttar Pálsson, hæstaréttarlögmaður og einn eigenda LOGOS, fengu um 1.850 milljónir króna í laun og bónusgreiðslur á árinu 2015. Að langstærstum hluta er um að ræða greiðslur til þeirra á grundvelli kaupréttaráætlunar – samtals um 1.600 milljónir króna – sem var samþykkt á aðalfundi félagsins árið 2011. Fá þeir því hver um sig að meðaltali 400 milljónir króna í bónus.

Fengu þessir sömu stjórnendur ALMC, forstjóri og þrír stjórnarmenn, næstum helminginn af allri þeirri fjárhæð sem eignaumsýslufélagið innti af hendi í bónusgreiðslur til fjölda núverandi og fyrrverandi starfsmanna um miðjan desembermánuð í fyrra. Rétt eins og sagt var frá í forsíðufrétt DV hinn 16. febrúar síðastliðinn, þar sem upplýst var um að ALMC hefði nýlega lokið við að borga starfsmönnum sínum milljarða í bónusa, þá hafði félagið áætlað að greiðslurnar myndu nema 22,8 milljónum evra, jafnvirði 3,34 milljarða króna miðað við meðalgildi krónunnar gagnvart evru á árinu 2015.

Bætt í bónuspottinn

Samkvæmt nýjasta ársreikningi ALMC þá gjaldfærði félagið hins vegar 2,56 milljónir evra til viðbótar á síðasta ári vegna bónusgreiðslna. Samtals námu bónusar til stjórnenda og lykilstarfsmanna því um 3,7 milljörðum króna en eftir því sem DV kemst næst áttu um tuttugu starfsmenn, bæði Íslendingar og útlendingar, rétt á því að fá hlut í þeim bónusgreiðslum. Ársreikningur ALMC fyrir árið 2015, sem var nýlega skilað til fyrirtækjaskrár, staðfestir að stærstur hluti þessara greiðslna fór til aðeins mjög fárra lykilstjórnenda ALMC – og þar munar mestu um forstjóra og stjórnarmenn félagsins.

Auk Óttars þá hafa þeir Christopher Perrin stjórnarformaður og Andrew Bernhardt, skipað stjórn ALMC undanfarin ár. Greiðslur til þeirra í fyrra voru samtals 9,1 milljón evra, jafnvirði 1.330 milljóna króna, borið saman við 943 þúsund evrur á árinu 2014. Ekki er sundurliðað í reikningi ALMC hversu stór hluti greiðslna til stjórnarmanna fyrir árið 2015 sé vegna kaupréttaráætlunar félagsins en að því gefnu að þóknun vegna stjórnarsetu hafi ekki breyst mikið á milli ára þá námu bónusgreiðslur til þeirra þriggja samtals um 1.180 milljónum króna. Þá fékk Svíinn Daniel Svanström, forstjóri ALMC frá árinu 2013, einnig margfalt hærri greiðslur í sinn hlut í fyrra borið saman við árið 2014 þegar laun hans námu 573 þúsund evrum, jafnvirði 84 milljóna króna á þáverandi gengi. Greiðslur til hans námu samtals 3,56 milljónum evra en ef gengið er út frá því að forstjóralaun Svanströms hafi haldist óbreytt á milli ára þá fékk hann greiddan út bónus frá eignaumsýslufélaginu ALMC að fjárhæð um 430 milljónir króna í lok síðasta árs.

Fengið um 700 milljónir á sjö árum

Þeir sem hafa setið í þriggja manna stjórn ALMC frá því í árslok 2010 hafa fengið ríflegar greiðslur í þóknun fyrir stjórnarstörf sín. Þannig hafa greiðslur fyrir stjórnarsetuna að jafnaði numið samtals frá 110 milljónum til 145 milljóna króna á ári. Stjórnin hefur haldist nánast óbreytt frá upphafi ef undan er skilið þegar Nikolaus Requat var skipt út sumarið 2012 og inn kom Andrew Bernhardt sem þá var einnig framkvæmdastjóri félagsins. Christopher Perrin hefur ávallt gegnt starfi stjórnarformanns ALMC og þá hefur Óttar setið í stjórninni allt frá því að félagið tók til starfa eftir nauðasamning.

Ef bónusgreiðslur til stjórnarmanna ALMC í desember 2015 eru ekki teknar með í reikninginn – samtals um 1.185 milljónir króna – þá hafa þeir fengið um 670 milljónir króna í sinn hlut í þóknun fyrir stjórnarsetuna frá árinu 2010. Í ársreikningum ALMC er ekki sundurliðað hvernig greiðslurnar skiptast á milli stjórnarmanna. Ef hins vegar er gengið út frá því að stjórnarformaður fái 50% hærri þóknun en aðrir stjórnarmenn, sem er algengt fyrirkomulag, þá ættu heildargreiðslur til hans vegna stjórnarsetunnar að nema um 280 milljónum fyrir tímabilið. Aðrir stjórnarmenn, meðal annars Óttar, hafa þá að sama skapi fengið um samtals 190 milljónir hver um sig.

Ljóst er að Óttar hefur borið fjárhagslega mjög mikið úr býtum vegna starfa sinna fyrir ALMC á undanförnum árum. Að því gefnu að tæplega 1.200 milljóna króna bónusgreiðsla til stjórnarmanna ALMC hafi skipst jafnt á milli þeirra þriggja þá hefur Óttar því fengið samtals um 600 milljónir króna í þóknun og bónusa frá því að hann settist í stjórn ALMC í október 2010. Þá var Óttar einnig forstjóri félagsins meðan á slitameðferð þess stóð frá mars 2009 og fram á haustið 2010 en á þessum árum námu heildarlaunagreiðslur félagsins til forstjóra um 260 milljónum króna. Hluti af þeim greiðslum fóru hins vegar einnig til William Falls, fyrrverandi forstjóra Straums-Burðaráss fjárfestingabanka, og Oscars Crohn, sem tók við af Óttari sem forstjóri ALMC seint á árinu 2010. Þrátt fyrir það er ljóst að meginþorri þessara greiðslna fór til Óttars og því má varlega áætla að hann hafi fengið samtals um 700 milljónir á þeim sjö árum sem hann hefur starfað fyrir ALMC.

Gilda engar reglur

Jakob Ásmundsson, fyrrverandi forstjóri Straums fjárfestingabanka, sem gegndi starfi fjármálastjóra ALMC fram til ársins 2013, var einnig í hópi þeirra lykilstjórnenda sem fengu hvað langsamlega hæstu bónusgreiðslurnar frá ALMC. Aðrir Íslendingar sem voru hluti af kaupréttarkerfi félagsins, eins og áður hefur verið rakið á síðum DV, eru meðal annars Birna Hlín Káradóttir, yfirlögfræðingur Fossa markaða, og Magnús Ingi Einarsson, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Kviku fjárfestingabanka. Birna Hlín var áður yfirlögfræðingur Straums fjárfestingabanka og ALMC. Hefur hún setið í stjórnum fjölmargra félaga á vegum ALMC á undanförnum árum. Magnús Ingi var áður forstöðumaður fjárstýringar Straums en vann einnig um tíma fyrir ALMC samhliða störfum sínum fyrir fjárfestingabankann.

Rétt er að taka fram að ólíkt því sem á við um íslensk fjármálafyrirtæki, sem mega ekki greiða meira en sem nemur 25% af árslaunum starfsmanna sinna í kaupauka, þá gilda engar slíkar reglur um hámark á bónusgreiðslur til starfsmanna eignaumsýslufélags á borð við ALMC. Bónusar til starfsmanna ALMC voru greiddir út í evrum og fyrir þá Íslendinga sem fengu slíka bónusa þurfa þeir að greiða 46,25% tekjuskatt eins og um sé að ræða launatekjur.

Jakob hefur sagt að þeir bónusar sem ALMC greiddi út í desember á síðasta ári séu í takti við þróunina erlendis. Í samtali við mbl.is hinn 16. febrúar síðastliðinn, í kjölfar forsíðufréttar DV um bónusgreiðslurnar, sagði hann að vissulega væri um verulega háar greiðslur að ræða en hins vegar væri ljóst að aðstæður í þjóðfélaginu væru aðrar í dag en rétt eftir bankahrun. Þá benti Jakob á að þessar kaupréttargreiðslur „lúti þeim lögmálum sem svona gerir erlendis,“ og því sé þetta ekki sambærilegt við það sem þekkist almennt hérlendis. „Þetta er klárlega ekki einsdæmi á alþjóðlegum vettvangi,“ sagði hann.

Í eigu erlendra vogunarsjóða

Eignaumsýslufélagið ALMC varð til í kjölfar þess að kröfuhafar Straums-Burðaráss, sem fór í greiðslustöðvun í mars 2009, samþykktu nauðasamninga sumarið 2010 og fengu þá um leið yfirráð í félaginu. Á þeim tíma áttu íslenskir aðilar, að mestu ýmsir lífeyrissjóðir, um þriðjungshlut í ALMC en þeir seldu sig fljótlega út úr félaginu og í dag eru eigendur þess nánast einungis alþjóðlegir fjárfestingarsjóðir. Á meðal stærstu hluthafa ALMC er bandaríski vogunarsjóðurinn Davidson Kempner en félög á vegum sjóðsins hafa sem kunnugt er verið umsvifamikil í hópi kröfuhafa föllnu bankanna.

Ákvörðun um kaupaukagreiðslur (e. long term incentive plan, LTIP) til lykilstarfsmanna, eins og DV upplýsti fyrst um í forsíðufrétt þann 19. maí í fyrra, byggir á samþykkt hluthafa á aðalfundi ALMC frá árinu 2011. Á þann fund voru meðal annars mættir fulltrúar íslenskra félaga og lífeyrissjóða sem áttu hagsmuna að gæta sem hluthafar í ALMC. Markmið kaupaukakerfisins er að halda í lykilstjórnendur og starfsmenn félagsins þannig að endurheimtur eigenda skuldabréfa ALMC yrðu hámarkaðar.

5 milljarða stöðugleikaframlag

Forsenda þess að ALMC gat greitt út milljarða bónusa til starfsmanna var að félagið myndi fallast á að borga stöðugleikaframlag til íslenskra stjórnvalda – að öðrum kosti myndi leggjast 39% stöðugleikaskattur á eignir félagsins eins og þær stóðu í árslok 2015. Slíkur skattur hefði að óbreyttu sett áformaðar bónusgreiðslur í uppnám. Stjórn ALMC samþykkti að lokum að inna af hendi slíkt framlag til stjórnvalda, eins og áður hefur verið sagt frá í DV, og nam heildarfjárhæðin um 5,3 milljörðum króna, að því er fram kemur í ársreikningi ALMC. Stöðugleikaframlagið felst í greiðslu reiðufjár í krónum að fjárhæð 4 milljarðar og framsali innlendra krafna upp á milljarð króna miðað við bókfært virði.

Eftir að hafa samþykkt greiðslu stöðugleikaframlags til stjórnvalda fékk félagið heimild frá Seðlabanka Íslands í nóvember á síðasta ári til að greiða inn á breytanleg skuldabréf í eigu hluthafa ALMC. Samtals nam fjárhæðin sem ALMC greiddi inn á bréfin 650 milljónum evra, jafnvirði ríflega 90 milljarða króna á núverandi gengi. ALMC hefur því núna nánast lokið hlutverki sínu með því að umbreyta eignum félagsins í reiðufé og greiða til hluthafa sinna en í árslok 2015 námu eignir þess aðeins um 43 milljónum evra.

Ekki lengur einsdæmi

Kaupréttarkerfið sem hluthafar ALMC samþykktu á sínum tíma er ekki lengur neitt einsdæmi á meðal félaga hér á landi. Sambærilegt kerfi hefur nú þegar verið innleitt hjá Glitni og gamla Landsbankanum (LBI) eftir að slitabúin luku formlega slitameðferð með nauðasamningum og sett var á fót ný stjórn til að stýra félögunum. Þrátt fyrir að slíkt bónuskerfi hafi enn ekki tekið gildi hjá Kaupþingi þá munu tillögur þess efnis verða lagðar fyrir hluthafafund félagsins síðar á árinu. Á meðal þeirra sem voru kjörnir í fjögurra manna stjórn eignarhaldsfélags Kaupþings um miðjan marsmánuð síðastliðinn var Óttar Pálsson. Fyrir stjórnarsetuna í Kaupþingi fær Óttar 250 þúsund evrur, jafnvirði um 35 milljóna króna, á ári en jafnframt er ljóst að hann verður í hópi þeirra lykilstjórnenda sem munu verða hluti af fyrirhuguðu bónuskerfi félagsins.

Óttar tók við starfi forstjóra Straums-Burðaráss eftir að félagið óskaði eftir greiðslustöðvun í marsmánuði 2009. Hann stýrði félaginu í gegnum nauðasamninga sumarið 2010 og tók í kjölfarið sæti í stjórn ALMC í október árið eftir. Ekki þarf að koma á óvart að áhrifamestu kröfuhafar föllnu bankanna leiti ítrekað til Óttars til að gæta hagsmuna sinna hér á landi. Óttar hefur um árabil verið þeirra mikilvægasti ráðgjafi á Íslandi og þannig átti hann, samkvæmt heimildum DV, stóran þátt í því undir lok maí í fyrra að sannfæra helstu kröfuhafa Glitnis um að að fallast á þau stöðugleikaskilyrði sem ráðgjafar íslenskra stjórnvalda höfðu kynnt þeim og var forsenda þess að slitabúið gæti lokið skuldaskilum sínum með nauðasamningi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Lágkúra að reyna að beina sjónunum frá spillingunni með því að hjóla í blaðamenn – „Hrein og klár tilraun til að slá ryki í augu almennings“

Lágkúra að reyna að beina sjónunum frá spillingunni með því að hjóla í blaðamenn – „Hrein og klár tilraun til að slá ryki í augu almennings“
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Síbrotamaður fékk neitun hjá Hæstarétti

Síbrotamaður fékk neitun hjá Hæstarétti
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Fékk ekki góð viðbrögð við ósk um ráðleggingar í fjármálum – „Djöfull finnst mér þetta lélegt viðhorf hjá þér“

Fékk ekki góð viðbrögð við ósk um ráðleggingar í fjármálum – „Djöfull finnst mér þetta lélegt viðhorf hjá þér“
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Dómurinn í Nýbýlavegsmálinu: Spurði hvort drengurinn vildi fara í „góða heiminn“

Dómurinn í Nýbýlavegsmálinu: Spurði hvort drengurinn vildi fara í „góða heiminn“
Fréttir
Í gær

Trump hefur nú þegar uppfyllt einn heitasta draum Pútíns – Wikileaks voru eins og nytsamur bjáni

Trump hefur nú þegar uppfyllt einn heitasta draum Pútíns – Wikileaks voru eins og nytsamur bjáni
Fréttir
Í gær

Allt stefnir í að rekstrarfélag Kolaportsins verði úrskurðað gjaldþrota á morgun – Skuldar borginni 200 milljónir í leigu

Allt stefnir í að rekstrarfélag Kolaportsins verði úrskurðað gjaldþrota á morgun – Skuldar borginni 200 milljónir í leigu
Fréttir
Í gær

Foreldrar á Selfossi í hár saman vegna bréfs sem segir verkfallið ólöglegt – „Það er mjög sárt að lesa þetta bréf sem kennari“

Foreldrar á Selfossi í hár saman vegna bréfs sem segir verkfallið ólöglegt – „Það er mjög sárt að lesa þetta bréf sem kennari“
Fréttir
Í gær

Reynir birti samtal við heimildamanninn fyrir mistök í pistli þar sem sparkað var í Snorra

Reynir birti samtal við heimildamanninn fyrir mistök í pistli þar sem sparkað var í Snorra