– Verðmæti fasteigna á reitnum verður 10,5 milljarðar – Fjármagna lúxushótel
Verðmæti fasteignanna á Landssímareitnum við Austurvöll verður 10,5 milljarðar króna þegar framkvæmdum við nýtt lúxushótel Icelandair þar lýkur árið 2018. Byggingarnar, þar á meðal gamla Landssímahúsið, eru nú metnar á alls 4,5 milljarða króna en ekki liggur fyrir mat á heildarkostnaði verkefnisins.
Húsin og lóðirnar á reitnum eru í eigu einkahlutafélagsins Lindarvatn. Icelandair Group keypti helming í félaginu í ágúst í fyrra af Dalsnesi ehf. sem er alfarið í eigu Ólafs Björnssonar, eiganda matvöruheildverslunarinnar Inness. Dalsnes, sem keypti Landssímareitinn af hæstaréttarlögmanninum Pétri Þór Sigurðssyni í desember 2014, á í dag 50% í Lindarvatni á móti helmingshlut Icelandair. Pétur stóð í viðræðum um uppbyggingu á reitnum, sem afmarkast af Vallarstræti, Thorvaldsensstræti, Kirkjustræti og Aðalstræti, í níu ár eða frá hausti 2005.
Lindarvatn stóð í byrjun mars fyrir 3,1 milljarðs króna skuldabréfaútgáfu til að fjármagna framkvæmdir félagsins á reitnum. Samkvæmt verðmati sem Íslensk verðbréf unnu vegna útgáfunnar er reiturinn metinn á 4,5 milljarða króna. Hann verði að loknum framkvæmdum, og út frá áætlunum um væntar leigutekjur, metinn á alls 10,5 milljarða. Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Lindarvatns og lögfræðingur Icelandair Group, segir að skuldabréfaútgáfunni sé lokið og að hún sé fullfjármögnuð.
„Verkefninu miðar nokkuð vel. Þetta eru auðvitað stór hús þarna og þetta eru bestu lóðirnar á landinu að okkar mati og því teljum við þetta vera mjög verðmætan reit,“ segir Davíð og bendir á að á reitnum séu einnig byggingar sem snúa að Ingólfstorgi. Þar sé gert ráð fyrir verslunum, veitingahúsum og íbúðum.
„Við munum nýta sem mest núverandi hús en deiliskipulagið gerir ráð fyrir nýju húsi sunnan við Landssímahúsið, upp að Kirkjustræti, þar sem við erum að grafa núna. Við höldum gamla Landssímahúsinu og Nasa, það verður endurnýjað, og timburhúsunum við Ingólfstorg en byggjum þar á milli. Við munum leggja til að Nasa verði gert upp í upprunalegri mynd í anda gamla Sjálfstæðissalarins.“
Icelandair Hotels, dótturfélag Icelandair Group, og Lindarvatn skrifuðu í ágúst í fyrra undir leigusamning til 25 ára um rekstur hótelsins sem verður 160 herbergja. Í þeim sama mánuði gekk Icelandair frá kaupum á 50% eignarhlutnum í Lindarvatni. Eignirnar verða samtals um fimmtán þúsund fermetrar að stærð en gert er ráð fyrir að hótelið verði þar af um ellefu þúsund fermetrar. Kaupverðið var ekki gefið upp og segir Davíð það trúnaðarmál.
Pétur Þór Sigurðsson seldi Landssímareitinn í sama mánuði og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra friðlýsti Nasa-salinn. Uppbygging á reitnum hafði þá tafist og salan til Lindarvatns átt sér langan aðdraganda. Elín Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Dalsness, staðfesti í samtali við DV að kaupin hefðu gengið í gegn í desember 2014. Sagði hún kaupverðið trúnaðarmál og vildi að öðru leyti ekki tjá sig um eigendaskiptin. Ekki náðist í Pétur Þór við vinnslu fréttarinnar.
Áform Lindarvatns taka mið af núgildandi deiliskipulagi sem var samþykkt 2013. Gert er ráð fyrir þakbar á efstu hæð hótelsins, veitingastað á jarðhæð gamla Landssímahússins og heilsulind í kjallara þess. Endanleg hönnun reitsins mun taka mið af niðurstöðum fornleifauppgraftar sem nú stendur yfir á bílastæðinu við húsið í Kirkjustræti.
„Við byggðum bráðabirgðahús yfir uppgröftinn til að reyna að standa sem allra best að þessu til að verja svæðið fyrir veðri. Það eru að koma upp þarna beinagrindur og grafir því það var kirkjugarður þarna á svæðinu á árum áður,“ segir Davíð Þorláksson.